Fréttir
IMG_0481

Fréttir af eldgosinu við Fagradalsfjall 2021

Mikil gasmengun við gosstöðvarnar seinni partinn í dag

26.3.2021

Uppfært 26.03. kl. 15.15

Nú er hægt að nálgast nýjustu gasmengunarspána á sérsíðu inni á vedur.is. Síðan er aðgengileg í gegnum flipa efst á forsíðunni „Virkni á Reykjanesskaga“. Þar birtist textaspá varðandi gasmengun vegna eldgossins við Fagradalsfjall. Neðst á síðunni er spálíkan sem sýnir brennisteinsmengun í byggð fyrir næstu 72 tíma. Einnig eru þarna mikilvæg skilaboð fyrir þá sem ætla að heimsækja gosstöðvarnar. 

Gas1


Uppfært 26.03. kl. 14.40

Vísindaráð almannavarna fundaði í gær vegna eldgossins í Geldingadölum.  Frá því að gosið hófst hefur mikil gagnasöfnun átt sér stað, mælingar gerðar og líkön um framvindu keyrð.  Um helgina verður gerð ítarleg samantekt um stöðu mála og tillögur um reglulegt eftirlit og vöktun lagt fram.  Hér að neðan er stutt samantekt um gosið, en Veðurstofa Íslands og Jarðvísindastofnun birta reglulega niðurstöður mælinga og er fólk hvatt til þess að fylgjast með vefsíðum þeirra.

Hraunrennsli stöðugt en gosið afllítið

Eldgosið í Geldingadölum hefur nú staðið í tæpa sjö daga.  Gosið er hraungos með lítilli sprengivirkni og kvikan sem kemur upp er þunnfljótandi basalt.  Gosið er fremur afllítið.  Hraunrennslið virðist stöðugt og hefur haldist svipað frá upphafi, um 5-7 m3/s. Eins og er þá er hraunið er allt innan Geldingadala en haldi gosið áfram með svipuðum hætti mun það byrja að renna út úr dölunum til austurs og í átt að Meradölum eftir eina til tvær vikur.

Monitor-map-45x25-cm-MrLavaLoba-17-days-20210325

Þessar myndir sýna mögulegt umfang hraunbreiðunnar 12 dögum og 17 dögum eftir upphaf goss. Áætlað er að kvikuflæðið í Geldingadölum sé um 5-6 m3/s og hefur flæðið lítið breyst frá því að eldgosið hófst.

Gasmengun verður viðvarandi

Ef framleiðnin helst í sama horfinu getur gosið þróast yfir í dyngjugos, sem oft eru langvin og mynda hraunbreiður sem ná kílómetra upp í nokkra tugi kílómetra frá upptökum. Kvikan er rík í MgO (8.5%) og kemur af um 17-20 km dýpi. Gasmengun er viðvarandi við gosstöðvarnar og getur orðið veruleg við ákveðin skilyrði.

Ólíklegt að nýjar gosstöðvar myndist yfir ganginum

Ekki hafa komið fram merki um umtalsverðar jarðskorpuhreyfingar eftir að gosið hófst. Athuganir á gervitunglagögnum benda til þess að kvikugangurinn, sem myndaðist vikurnar fyrir gosið, og opnaðist í Geldingadölum, sé ekki að fara að mynda nýjar gosstöðvar annarstaðar yfir ganginum.  Engin leið er að segja til um það nú hve lengi gosið stendur.  

Gosið í Geldingadölum kallar á sérstakt, reglubundið eftirlit, þar sem fylgst er náið með þróun gossins og mengun frá gosinu og áhrifum þess á loftgæði og gróður á svæðinu. 


Uppfært 26.03. kl. 11.00

Norðlæg átt 8-13 m/s og dálítil él og skafrenningur á gosstöðvunum eftir hádegi, en lægir og snýst í hæga austanátt í kvöld.
Gosmengun frá eldstöðvunum berst því til suðurs í dag, en til vesturs í kvöld.

Seint á morgun gengur í austan- og norðaustan storm eða rok um landið S- og V-vert, með snjókomu eða skafrenningi og varasömum akstursskilyrðum. Sjá gular og appelsínugular viðvaranir.


Uppfært 25.03. kl. 16.40

Á Reykjanesskaga sýna bylgjubrotsmælingar að jarðskorpan er að jafnaði um 15 km þykk, og neðan við jarðskorpuna tekur möttullinn við. Með jarðeðlisfræðilegum mælingum má greina merki kviku eða kvikuhólfa í jarðskorpunni, en á Reykjanesskaga finnast engin merki um slíkt, hvorki kviku né kvikuhólf. Því má búast við að kvika sem upp kemur í eldgosum á Reykjanesskaga komi beint neðan úr möttli.

Nú hafa efnagreiningar Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands á nýja hrauninu í Geldingadölum staðfest að svo sé, þ.e. að kvikan sem upp kemur sé frumstæð og komi beint úr möttli af 15-17 km dýpi. Áætlað er að kvikuflæðið í Geldingadölum sé um 5-6 m3/s og hefur flæðið lítið breyst frá því að eldgosið hófst.

Faf

Á óróagrafi frá skjálftamælinum FAF, sem er austan við Fagradalsfjall í um 2,5 km fjarlægð frá gossprungunni, má greina styrk eldgossins vel á tíðnibilinu 2-4 Hz (blá lína). Samkvæmt óróanum hefur styrkur eldgossins síst dvínað, heldur eykst hann jafnt og þétt undanfarna daga, og þá sérstaklega í nótt. Þessum athugunum á óróa ber vel saman við aðrar athuganir, t.d. myndum frá gervitunglum.

En hversu lengi getur eldgosið staðið? Nú hefur myndast bein tenging frá kviku efst í möttli til yfirborðs í Geldingadölum. Fyrst og fremst er það því magn kviku efst í möttli sem ræður því hversu mikið efni berst til yfirborðs. Dæmi eru til um dyngjugos á Reykjanesskaga sem vafalítið stóðu árum saman og framleiddu mikið hraun, s.s. Þráinsskjöldur, Sandfellshæð og Heiðin há sem eru stærstu dyngjurnar, og ætla má að þá hafi sömuleiðis myndast bein tenging frá kviku í möttli til yfirborðs miðað við efnagreiningar. Fleiri dæmi eru til um eldgos þar sem ekki var vitað um kvikuhólf í skorpunni og stóðu lengi yfir, eins og t.d. Surtseyjargosið frá 1963 til 1967.

Monitor-map-45x25-cm-MrLavaLoba-12-days-20210325

Monitor-map-45x25-cm-MrLavaLoba-17-days-20210325

Í dag, 25. mars eru 6 dagar frá því að eldgos hófst. Þessar myndir sýna mögulegt umfang hraunbreiðunnar 12 dögum og 17 dögum eftir upphaf goss. Áætlað er að kvikuflæðið í Geldingadölum sé um 5-6 m3/s og hefur flæðið lítið breyst frá því að eldgosið hófst.

Ekkert liggur fyrir um hversu lengi eldgosið í Geldingadölum muni vara, en miðað við stöðugt kvikuflæði og aðrar vísbendingar gæti eldgosið staðið lengur en í fyrstu var ætlað út frá smæð eldgossins eins og sér.

Uppfært 25.03. kl. 8.40

Í dag er spáð vaxandi norðan og norðaustanátt á gossvæðinu, 13-18 m/s með hríðarveðri undir hádegi og gasmengun berst því einkum til suðurs og suðvesturs frá gosstöðvunum.

Veðurstofan hefur komið fyrir veðurstöð við gosstöðvarnar og sendir stöðin athuganir á klukkustunda fresti.

Vedurstod_Fagradalsfjall

Vedurstod_Fagradalsfjall2

Sérfræðingar Veðurstofunnar þeir Jón Bjarni Friðriksson og Ágúst Þór Gunnlaugsson við uppsetningu á nýju veðurstöðinni. (Ljósmynd: Veðurstofan / Jón Bjarni Friðriksson)

Uppfært 24.03. kl. 7.55

Í dag er spáð suðvestan og vestan 5-10 m/s á gossvæðinu og því má gera ráð fyrir að gasið berist í norðaustur og austur frá eldsstöðvunum.

Uppfært 23.03. kl. 11.55

Búst má við mjög óhollum loftgæðum í grennd við eldstöðina frá klukkan 19:00 í dag.

Það er suðvestlæg átt í kortunum dag og dregur smám saman úr vindi. Eftir klukkan 19 má gera ráð fyrir að vindur sé undir 3 m/s og því getur magn SO2 nálægt eldstöðinni farið yfir 9000 µg/m3. Heilsuverndarmörk eru 350 µg/m3.  Miðað við vindaspá næst gosstöðvunum er því líklegt að loftgæði í næsta nágrenni gosstöðvanna og að gasmengun frá CO2 í dældum og lægðum nálgist lífshættuleg gildi. Það er því ráðlegt að halda sér uppi á hæðum og ekki fara niður í dali eða dældir í næsta nágrenni gosstöðvanna og halda sér innan stikuðu gönguleiðarinnar.


Uppfært 22.03. kl. 10.30

Það er gul viðvörun vegna veðurs í gildi fyrir Faxaflóa og Suðurland og gildir sú viðvörun fyrir gosstöðvarnar á Reykjanesskaga. Suðvestan hvassviðri eða stormur, 15-23 m/s, hvassast á Reykjanesiskaga síðdegis. Dimm og byljótt slyddu eða snjóél og slæmt skyggni og hviður um 30 m/s. Það er ekkert útivistarveður þegar að veðrið og spáin er svona og hvetjum við alla til að fara varlega. 

CAP_2203

Uppfært 21.03. kl. 18.20

Það er mikilvægt fyrir spálíkön um gasdreifingu að hafa sem nákvæmastar upplýsingar um magn brennisteinsdíoxíðs (SO2) við upptök eldgos. Melissa Anne Pfeffer og Tryggvi Hjörvar, starfsmenn Veðurstofunnar, fóru að upptökunum laugardag og sunnudag og mældu magn brennisteinsdíoxíðs með fjarkönnunarbúnaði svokölluðum DOAS (Differential Optical Absorption Spectroscopy). Magn brennisteinsdíoxíðs reyndist vera í samræmi við núverandi gildi sem eru notuð við líkanareikning, um 15 - 55 kg/s. Til þess að reikna spálíkön fyrir gasdreifingu þarf einnig að vita hæð gosmakkarins, staðsetningu gossprungunnar og veðurskilyrði á svæðinu. Hæð gosmakkarins er mæld með kvarðaðri vefmyndavél. Þetta er aðferð sem er þróuð af Talfan Barnie á Veðurstofunni og má sjá dæmi hér að neðan. Líkanreikningar eru keyrðir tvisvar á sólarhing þegar nýjasta veðurspá er aðgengileg og niðurstöðurnar birtar á vef Veðurstofunnar. Einnig er fjallað um gasdreifingu í athugasemd veðurfræðings á forsíðu vedur.is.

Gas-og-dreifingarspa

Hér er dæmi um mælingu á hæð gosmakkarins með kvarðaðri myndavél. Bláa strikið ákvarðar hæð makkarins og gula línan er viðmið um hæð.


Uppfært 21.03 kl. 12.30

Veðurstofan fylgist grannt með þróun gasmengunar frá eldgosinu í Geldingadal. Ekki er útlit fyrir að gasmengun frá eldstöðvunum komi til með að hafa veruleg áhrif á líðan og heilsu íbúa á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðisins næstu daga, en veður, vindátt og magn mengunarefna (s.s. SO2 og CO2) frá eldstöðvunum hafa áhrif á dreifingu og styrk gasmengunar.

Veðurstofan hefur útbúið spálíkan sem spáir fyrir um líklega dreifingu og styrk gasmengunar vegna eldgossins í Geldingadal. Spárnar eru uppfærðar tvisvar á dag og er hægt að nálgast nýjustu spá hverju sinni í gegn um hlekk í viðvörunarborða efst á forsíðu www.vedur.is

Finni fólk fyrir brennisteinslykt sem það telur koma frá eldgosinu getur það skráð þær upplýsingar í sérstakt skráningarform á vef Veðurstofunnar. Slík skráning auðveldar sérfræðingum okkar að átta sig betur á þróuninni auk þess sem upplýsingarnar geta gagnast öðru fólki sem er statt þar sem gasmengunar verður vart.

Uppfært 20.03. kl. 19.30

Vísindráð almannavarna fundaði í dag um stöðuna á gosstöðvunum. Þar var farið yfir þau gögn sem safnast hafa. Það er mat vísindaráðs að eftirfarandi sviðsmyndir eru í gildi hvað varðar þróun atburðanna á Reykjanesskaga:

  • Það dregur smám saman úr eldgosinu í Geldingadal og því líkur á næstu dögum eða vikum

  • Nýjar gossprungur opnast á núverandi gosstað eða á kvikuganginum í næsta nágrenni Fagradalsfjalls

  • Minni líkur eru á stærri skjálftum í nágrenni Fagradalsfjalls vegna kvikuflæðis

  • Skjálfti verður að stærð 6.5 sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum

Vísindaráð varar við hættum í nálægð við gosstöðvarnar

Það er mikilvægt að hafa í huga að næsta nágrenni gosstöðva er hættulegt svæði og geta aðstæður breyst hratt. Vísindaráð varar fólk við að dvelja nálægt gosstöðvunum við núverandi aðstæður. Helstu hættur í næsta nágrenni þeirra eru:

  • Nýjar sprungur geta opnast í næsta nágrenni eldstöðvanna með engum fyrirvara.
  • Glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðrinum og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram úr hraunjaðrinum með miklum hraða sem erfitt að forðast á hlaupum. 
  • Gígarnir eru nú orðnir margra metra háir og geta verið óstöðugir, þeir geta brotnað og mikill og skyndilegur hraunstraumur úr þeim tekið nýja stefnu.
  • Sprengingar geta orðið þar sem hraun rennur yfir vatnsmettaðan jarðveg og þeytt hrauni til allra átta.
  • Hraunið rennur í lokaða dæld og geta lífshættulegar gastegundir safnast saman í dældum sem getur verið banvænt. Hættan eykst þegar vindur minnkar. 


Uppfært 20.03. kl. 16.00

Gosið í Geldingadal er ekki stórt og því er útlit fyrir að gasmengun frá eldstöðvunum komi til með að hafa lítil áhrif á líðan og heilsu íbúa á Reykjanesskaga og höfuðborgarsvæðisins. Eins er talsverðri úrkomu spáð sem dregur úr áhrifum gasmengunar. Það er einna helst þeir sem eru hvað viðkvæmastir fyrir slæmum loftgæðum sem mögulega ættu að gera ráðstafnir og fylgja leiðbeiningum Umhverfisstofnunar á vefsíðu þeirra .

Athugasemdir um mögulega gasmengun mun birtast á forsíðu vedur.is undir athugasemdum veðurfræðing. Eins er hægt er að skoða spálíkan Veðurstofunnar varðandi gasmengu n miðað við magn gosefna og veðurspá. Með því að þysja inn í kortið og smella á „spila“ takkann í vinstra horninu, sýnir líkanið magn gasmengunar í lofti næstu 48 tímana.  

Dispersion_20_2202_Pic

Uppfært 20.03. kl. 10.10

Umfang gossins er lítið og hefur virkni heldur minnkað frá því í gærkvöldi. Lítið er um kvikustróka upp úr sprungunni og þekur hraunflæðið svæði sem er í mesta lagi um 500 metra breitt (talan hefur verið uppfærð), en unnið er að kortlagningu svæðisins. Eins og staðan er núna er gosið afmarkað við mjög lítið svæði ofan í dalverpi og er afar ólíklegt að hraunflæði komi til með að valda tjóni. Engin gosaska mælist frá eldstöðvunum og miðað við fyrsta mat er ekki mikil hætta á að gasmengun komi til með að valda miklum óþægindum nema næst gosstöðvunum. Fylgst verður náið með þróun mála sérstaklega hvað varðar gasmengun. Það er mikilvægt að taka það fram að svæðið næst gosstöðvunum er hættusvæði og alls ekki ráðlegt að vera á ferðinni þar. Í landslaginu er mikið um lægðir þar sem gas gæti leynst og verið hættulegt fólki.

IMG_0481

Mynd sem tekin var í eftirlitsflugi yfir gosstöðvunum í Geldingadal í morgun. (Ljósmynd: Veðurstofan/Halldór Björnsson)

Uppfært 20.03. kl. 00.15

Gefin verður út spá um gasdreifingu frá eldgosinu á næstunni. Veðurspá gerir ráð fyrir nokkuð sterkum vindi og úrkomu sem mun draga úr áhrifum mögulegrar mengurnar frá eldstöðvunum. Hér er hlekkur á dreifilíkan og einnig á skráningarsíðu vegna gasmengunar.

Uppfært kl. 23.05

Fyrsta myndin af gosinu tekin úr þyrlu Landhelgisgæslunnar. Gosið er á um 200 m langri sprungu. Mjó tunga rennur í SSV og önnur tunga í vestur miðað við fyrstu upplýsingar. Syðri endi tungunnar er um 2,6 km frá Suðurstrandarvegi.

Gosmynd


Uppfært 19.03. kl. 22.15

Kortið hér að neðan sýnir líklega staðsetningu gossins miðað við nýjustu upplýsingar. Upptökin eru rétt austan Fagradalsfjalls, líklega í Geldingadal.

Stadsetning

Stadsetning_2

Uppfært 19.03. kl. 21.55

Eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadal, um kl. 20:45 í kvöld. Gosið er talið litið og gossprungan um 500-700 m að lengd. Hraunið er ínnan við 1 km2 að stærð. Litil gosstrókavirkni er á svæðinu.


Uppfært 19.03. kl. 16.10

Dregið hefur úr skjálftavirkninni á Reykjanesskaga frá því sem áður var. Við Fagradalsfjall hafa frá miðnætti mælst um 500. Skjálfti af stærð 3,1 mældist kl. 15:01, 1,2 km NA af Fagradalsfjalli.

Uppúr klukkan fjögur í nótt hófst jarðskjálftahrina um 4 km VNV af Reykjanestá. Þar hafa nú mælst rúmlega 100 skjálftar, sá stærsti 3,7 að stærð kl. 05:27. Tilkynningar hafa borist frá Grindavík um að hann hafi fundist. Nokkrir yfir 3,0 að stær hafa mælst í kjölfarið. Enginn órói fylgir virkninni. Líklegast er um að ræða svokallað gikkskjálfta þar sem spenna er að losna út frá þrýstingi frá kvikuganginum sem myndast hefur við Fagradalsfjall.

Úrvinnsla úr GPS gögnum og minni skjálftavirkni bendir til þess að hægt hafi á kvikuflæðinu í kvikuganginum. Ný gervihnattamynd frá því í morgun staðfestir það.

Eins of fram kom í tilkynningu vísindaráðs í gær er of snemmt að segja hvort draga muni enn frekar úr virkninni á Reykjanesskaga. Áfram er fylgst náið með þróun mála og vísindamenn munu gera frekari vettvangsmælingar á Reykjanesskaga svo hægt sé að leggja frekara mat á þróun mála.

T155_20210313-20210319_w

Ný gervihnattamynd barst í morgun og sýnir breytingar sem orðið hafa frá 13. – 19. mars. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin og Michelle Maree Parks, byggt á gögnum frá Copernicus Sentinel)


Uppfært 19.03. kl. 8.15

Uppúr klukkan fjögur í nótt hófst jarðskjálftahrina um 4 km VNV af Reykjanestá. Þar hafa nú mælst rúmlega 100 skjálftar, sá stærsti 3,7 að stærð kl. 05:27. Tilkynningar hafa borist frá Grindavík um að hann hafi fundist. Nokkrir yfir 3,0 að stær hafa mælst í kjölfarið. Enginn órói fylgir virkninni. Líklegast er um að ræða svokallað gikkskjálfta þar sem spenna er að losna út frá þrýstingi frá kvikuganginum sem myndast hefur við Fagradalsfjall.

Um 350 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga og Reykjaneshrygg frá miðnætti og hefur virknin aðallega verið við Fagradalsfjall og Reykjanestá.

Skjamynd-2021-03-19-081618


Uppfært 18.03. kl. 17.00

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Landmælingum Íslands, Orkuveitu Reykjavíkur og HS-Orku, ásamt erlendum samstarfsaðilum Veðurstofunnar og Háskóla Íslands, auk fulltrúa frá Isavia-ANS. Á fundinum var farið yfir nýjustu mælingar og gögn.

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um er að ræða lengsta tímabil sem ekki hafa mælst skjálftar yfir 4 að stærð frá því að hrinan hófst 24. febrúar.
  • Skjálftavirknin er áfram að mestu tengd þeim hluta kvikugangsins sem liggur næst Fagradalsfjalli.
  • GPS mælingar benda til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga.
  • Virknin á Reykjanesskaga hefur verið kaflaskipt undanfarið ár, þar sem komið hafa kaflar með skjálftahrinum og kvikuinnskotum. Það er mat vísindaráðs að of snemmt er að segja til um hvort draga muni enn frekar úr skjálftavirkninni eða kvikuflæðinu.
  • Þær sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi.

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um er að ræða lengsta tímabil sem ekki hafa mælst skjálftar yfir 4 að stærð frá því að hrinan hófst 24. febrúar. Um 1400 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær, 17. mars. Þrír skjálftar mældust yfir 3,0 að stærð, sá stærsti kl. 02:37 af stærð 3,3 í Fagradalsfjalli um 1 km norður af Nátthaga. Skjálftavirknin er áfram að mestu tengd þeim hluta kvikugangsins sem liggur næst Fagradalsfjalli.

Newplot--14-

Mynd sem sýnir yfirlit skjálfta sem mælst hafa yfir 3 að stærð í hrinunni sem hófst 24. febrúar. Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið með minna móti undanfarna tvo sólarhringa. Um er að ræða lengsta tímabil sem ekki hafa mælst skjálftar yfir 4 að stærð frá því að hrinan hófst 24. febrúar.

Of snemmt að segja til um hvort draga muni enn frekar úr virkninni

GPS mælingar benda til þess að áfram flæði kvika inn í ganginn, en hægt hafi á flæðinu síðustu daga. Smám saman hefur verið að hægja á flæðinu allt frá því að kröftugir skjálftar mældust síðustu helgi. Von er á nýjum gervihnattamyndum á morgun, sem unnið verður úr til að afla vísbendinga um stöðu mála hvað varðar þróun kvikuflæðis á umbrotasvæðinu.

Virknin á Reykjanesskaga hefur verið kaflaskipt undanfarið ár, þar sem komið hafa kaflar með skjálftahrinum og kvikuinnskotum. Það er mat vísindaráðs að of snemmt er að segja til um hvort draga muni enn frekar úr skjálftavirkninni eða kvikuflæðinu. Þær sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi.

Sprungur á svæðinu kortlagðar

Á fundinum var farið var yfir þær sprungur sem myndast hafa á yfirborði í hrinunni og þegar hafa verið kortlagðar. Allnokkrar sprungur hafa fundist líkt og þessar á myndinni hér til hliðar sem tekin var austan við Merardali rétt austan við Fagradalsfjall. Vinna við kortlagningu á sprungum mun halda áfram næstu daga ef veður leyfir, en kortlagningin fer fram með aðstoð flygildis (dróna) og nýtist til að leggja mat á umfang umbrotanna.

Eins var farið yfir nýjustu gasmælingar á svæðinu og sýndu þær engar breytingar frá því sem áður hefur mælst. Meðal annars var styrkur á Radon gasi (222Rn) mældur, en þekkt er að styrkur gassins aukist rétt fyrir eða á meðan að á eldgosi stendur.

Vísindaráð fundar næst eftir helgi að öllu óbreyttu.


Uppfært 18.03. kl. 10.10

Klukkan rúmlega sjö í morgun höfðu mælst tæplega 400 jarðskjálftar á Reykjanesskaga frá miðnætti. Þetta er nokkuð minni skjálftavirkni samanborið við aðra morgna þar sem fjöldi skjálfta hefur verið um 1.000.

Um 1400 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær, 17. mars. Þrír skjálftar mældust yfir 3,0 að stærð, sá stærsti kl. 02:37 af stærð 3,3 í Fagradalsfjalli um 1 km norður af Nátthaga.

Vísindaráð almannavarna fundar í dag kl. 13 til að meta stöðuna á Reykjanesskaga út frá nýjustu gögnum. Niðurstöðu fundarins er að vænta um kl. 15.


Uppfært 16.03. kl. 18.10

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Á fundinum var farið yfir úrvinnslu á nýjustu mælingum og gögnum sem vísindamenn á Veðurstofunni, Háskóla Íslands og ÍSOR hafa unnið að.

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið minni síðasta sólarhringinn ef miðað er við virknina um helgina. Talsvert hefur verið um smáskjálfta síðasta sólarhringinn og er það merki um hversu kaflaskipt skjálftavirknin hefur verið í þessari hrinu sem hófst fyrir um þremur vikum síðan.
  • Nýjustu gervihnattamyndir og GPS mælingar benda til þess að kvika haldi áfram að flæða inn í kvikuganginn. Gögn benda til þess að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast.
  • Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik kvikugangsins.
  • Út frá skjálftavirkni síðasta sólarhringinn, úrvinnslu úr GPS mælingum og gervihnattamyndum hefur líklegasta gossvæðið færst frá Nátthaga norðuraustur eftir kvikuganginum að norðausturhluta Fagradalsfjalls.  
  • Kvikugangurinn hefur nú verið að myndast í um þrjár vikur og líklegt er að hluti hans hafi storknað. Það að kvika storkni í hluta gangsins, dregur hinsvegar ekki úr líkum á að það gjósi á svæðinu.
  • Sviðsmyndir sem gefnar hafa verið út eru áfram í gildi, meðal annars sú að skjálfti geti orðið á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla af stærð allt að 6.5.

Jarðskjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur verið minni síðasta sólarhringinn ef miðað er við virknina um helgina. Talsvert hefur verið um smáskjálfta síðasta sólarhringinn og er það merki um hversu kaflaskipt skjálftavirknin hefur verið í þessari hrinu sem hófst fyrir um þremur vikum síðan.

Líklegasti gosstaðurinn færist frá Náttahaga í norðaustur

Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik þess svæðis sem kvikugangurinn hefur haldið sig á frá upphafi hrinunnar. Dæmi eru um slíkt úr öðrum sprungugosum, til dæmis úr Holuhraunsgosinu þar sem skjálftavirkni færðist fram og tilbaka eftir kvikuganginum áður en gos hófst.

Monitor-map-45x25-cm-unrest-20210308

Mesta skjálftavirknin tengd kvikuganginum, hefur færst um 4-5 km í norðuraustur frá svæðinu við Nátthaga og er nú staðsett við norðaustanvert Fagradalsfjall, um miðbik svæðisins milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Líkur á að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast

Nýjustu gervihnattamyndir og GPS mælingar benda til þess að kvika haldi áfram að flæða inn í kvikuganginn. Hinsvegar benda gögn til þess að færsla kvikugangsins til suðurs hafi stöðvast. Sá möguleiki er fyrir hendi að kvikan hafi mætt fyrirstöðu í syðri enda gangsins undir Náttahaga og leiti sér nú að auðveldari farvegi til yfirborðs norður eftir kvikuganginum. Þetta er í samræmi við þau dæmi sem þekkt eru úr gossögunni á Reykjanesskaga, sem sýna að sprungukerfi skagans austan Reykjaness ná ekki í fram í sjó.

T16_20210309-20210315_w

Nýjasta gervihnattamyndin sýnir breytingar á umbrotasvæðinu á Reykjanesskaga frá 9. mars til 15. mars. Gervitunglið flaug í norðurátt yfir landið klukkan 18.59, 15. mars. (Myndvinnsla: Veðurstofan, Vincent Drouin og Michelle Maree Parks, byggt á gögnum frá Copernicus Sentinel)

Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs, að meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka, þá þarf að gera ráð fyrir því að gosið geti á svæðinu. Eins er það mat vísindaráðs að þær sviðmyndir sem áður hafa verið gefnar út séu allar áfram í gildi, meðal annars sá möguleiki að skjálfti allt að 6.5 verði á svæðinu milli Kleifarvatns og Bláfjalla.

Áfram eru þessar sviðsmyndir líklegastar þegar kemur að framvindu atburða á Reykjanesskaga:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Skjálftar allt að 6 að stærð verða í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti verður að stærð 6.5 sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuflæði heldur áfram inn í kvikuganginn í nágrenni við Fagradalsfjall:
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ná í byggð



Uppfært 16.03. kl. 9.10

Frá miðnætti til klukkan hálf sex í morgun hafa mælst um 500 jarðskjálftar á Reykjanesskaganum og mældist enginn skjálfti yfir 3,0 að stærð. Tveir mældust 2,9 að stærð annarsvegar kl. 01:23 um 2 km NA af Grindavík og hinsvegar kl. 04:53 rétt SV við Keili. Virknin var mest í Fagradalsfjalli og rétt austan við Þorbjörn.

Í gær, 15. mars, mældust um 2000 jarðskjálftar á svæðinu, stærsti skjálftinn mældist 4,3 að stærð kl. 22:31 í gærkvöldi við NA-vert Fagradalsfjall.

Screenshot-from-2021-03-16-05-28-35

Kortið sýnir staðsetningu skjálfta frá miðnætti 15. mars - kl. 05:30 í dag.


Uppfært 15.03 kl. 16.10

Nýjar gervihnattamyndir af umbrotasvæðinu við Reykjanesskaga staðfesta að streymi kviku heldur áfram inn í kvikuganginn. Mesta virknin er ennþá bundin við svæðið í kringum Nátthaga, en einnig hefur mælst smávægileg virkni um 4 km norðan við það svæði. Nýjustu gögn benda áfram til þess að mesti þrýstingur vegna kviku sé í syðsta enda kvikugangsins undir Nátthaga og þar sé því líklegast staðurinn að kvika komi upp nái hún að brjóta sér leið upp á yfirborðið.

Wrapped_icelandic_7to13mar

Myndin ber saman breytingar sem hafa orðið frá 7. mars til 13. mars. (Myndvinnsla: Veðurstofan/Michelle Maree Parks upp úr gögnum frá Copernicus Sentinel)

Verið er að vinna nánar úr gervihnattmyndunum sem bárust í morgun, en einnig er von á nýjum myndum í fyrramálið sem mögulega geta gefið vísbendingar um hversu djúpt er á kvikuna undir jarðskorpunni. Vísindaráð fundar á morgun til að fara yfir nýjustu gögn og mælingar.

Yfirfarnir_skjalftar_150321

Frá því á miðnætti í dag, 15. mars, hafa rúmlega 1100 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga. Mestur hluti virkninnar hefur verið við sunnanvert Fagradalsfjall. Skjálfti af stærð 3,2 varð uppúr kl. 1 í nótt í Nátthaga og var það stærsti skjálftinn eftir miðnætti.

Í gær, 14. mars, mældust rétt rúmlega 3000 jarðskjálftar á Reykjanesskaga með sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar. Stærsti skjálftinn mældist kl. 14:15 af stærð 5,4 um 2,5 km vestur af Nátthaga. Í gærkvöldi mældust fjórir skjálftar frá 3,3 til 3,6 að stærð, þrír þeirra í nágrenni við Fagradalsfjall og einn NV við Grindavík. 


Uppfært 14.03. kl. 17.50

Klukkan 14:15 varð jarðskjálfti af stærð 5,4 um 2,5 km V af Nátthaga. Tilkynningar hafa borist frá Sauðakróki og Vestmannaeyjum um að hann hafi fundist. Í kjölfarið hafa mælst skjálftar um 3,0-4,0 að stærð við Bláa Lónið.

Í hádeginu kl.12:34 varð jarðskjálfti af stærð 4,6 í sunnanverðu Fagradalsfjalli, stærðin hefur verið endurreiknuð. Hann fannst vel á SV-horni landsins. Í dag 14. mars hafa mælst rúmlega 2000 jarðskjálftar sjálfvirkt.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofunni, segir skjálftann hafa verið mjög sterkan.   Hann hafi ekki verið á þeim stað þar sem kvika er að safnast fyrir heldur sé líklega bein afleiðing atburðarásar sem hófst í hádeginu með skjálfta af stærðinni 4,6. Enginn merki sjást um gosóróa og líklega hefur skjálftinn verið svokallaður gikk-skjálfti sem er afleiðing spennubreytinga.


Uppfært 12.03 kl. 14.15

Vísindaráð almannavarna fundaði í dag og fór yfir nýjustu mælingar og gögn sem borist hafa síðasta sólarhringinn.

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins.
  • Kvikugangurinn heldur áfram að stækka, en nokkur óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Síðustu daga hafa gögn bent til þess að kvikugangurinn hafi verið að færast í átt að suðurströndinni, en nýjustu mælingar benda ekki til að gangurinn hafi færst að ráði síðasta sólarhringinn.
  • Farið var yfir mögulega gasmengun ef kemur til goss. Umhverfisstofnun fór yfir þau mælitæki sem komið hefur verið fyrir til að fylgjast með mögulegri gasmengun.
  • Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.
  • Líkt og áður hefur komið fram í tilkynningum vísindaráðs, að meðan kvikugangurinn heldur áfram að stækka, þá þarf að gera ráð fyrir því að gosið geti á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand varir lengur aukast líkur á gosi.

Kvikugangurinn heldur áfram að stækka

Skjálftavirkni nær nú upp af dalnum Nátthaga suður af Fagradalsfjalli, sem gefur vísbendingar um að þar liggi syðsti endi kvikugangsins. Mikil skjálftavirkni hefur verið á því svæði frá miðnætti og klukkan 7.43 í morgun mældist skjálfti á svæðinu sem var 5.0 að stærð.

Úrvinnsla á GPS mælingum sýnir að kvikugangurinn heldur áfram að stækka, en nokkur óvissa er um hversu hratt kvikuflæðið er. Síðustu daga hafa gögn bent til þess að kvikugangurinn sé að færast í átt að suðurströndinni. Nýjustu mælingar sýna að gangurinn hefur ekki færst að ráði síðasta sólarhringinn.

Ef horft er til gossögunnar og jarðfræðirannsókna á svæðinu er ólíklegt að gossprunga sem opnast suður af Fagradalsfjalli nái til sjávar. Eins og staðan er núna er því ólíklegt að það gjósi neðansjávar með tilheyrandi öskugosi.

Temporal_evolution_F11_300m3s

Hér má sjá mynd sem sýnir mögulega útbreiðslu á hraunflákanum kæmi til goss suður af Fagradalsfjalli. Útlínurnar sýna staðsetningu hraunjaðarsins eftir 30 mínútur (rauð lína), 1 klukkustund (appelsínugul lína), 3 klukkustundir (fjólublá lína) og 6 klukkustundir (blá lína). Í líkaninu er gert ráð fyrir föstum útstreymishraða upp á 300 rúmmetra á sekúndu. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.

Mælitækjum komið fyrir til að fylgjast með gasmengun

Farið var yfir mögulega gasmengun ef kemur til goss. Þar væri t.d. um að ræða brennisteinsdíoxíð (SO2). Umhverfisstofnun fór yfir þau mælitæki sem komið hefur verið fyrir til að fylgjast með mögulegri gasmengun. Áður en þessar hræringar hófust var aðeins ein mælistöð á Reykjanesskaga sem mældi SO2 en það var stöð HS Orku í Grindavík. Umhverfisstofnun hefur sett upp tvo mæla til viðbótar, einn í Vogum og annan í Njarðvík og unnið er að því að fjölga enn frekar mælum í Reykjanesbæ til að fylgjast með styrk SO2.

Veðurstofan hefur sett upp dreifilíkan sem spáir fyrir um dreifingu gasmengunar út frá veðurspá hverju sinni. Með mælingum og dreifilíkaninu er hægt að meta áhrif mengunar af völdum mögulegs goss á íbúa á svæðinu og senda í framhaldinu út tilkynningar með skilaboðum um viðeigandi viðbrögð.


Á þessari mynd sjáum við svokallað DOAS (Differential Optical Absorption Spectroscopy) mælitæki  Veðurstofunnar sem fylgist með styrk SO2 í andrúmsloftinu komi til goss. Tækið nýtist til að meta magn SO2 sem upp kemur með kvikunni. Þessi gögn eru notuð til að útbúa spá um dreifingu gasmengunar. (Ljósmynd: Veðurstofan/Melissa Anne Pfeffer)


Uppfært 12.03. kl. 11.45

Tafir á birtingu gervihnattamynda

Óvissa er um hvort svokallaðar InSAR gervihnattamyndir frá Geimferðastofnun Evrópu (ESA), sem vísindamenn hafa meðal annars stuðst við til að meta staðsetningu kvikugangsins sem er að myndast á Reykjanesskaga, muni berast á morgun eins og áætlað var. Ástæða þessa er eldsvoði í gagnaveri í Strassbourg sem hýsir hluta gagna Geimferðastofnunarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni er unnið hörðum höndum að því að koma á sendingum að nýju.  

InSAR gervihnattamyndirnar eru meðal fjölmargra gagna sem stuðst er við til að meta framvindu jarðhræringanna á Reykjanesskaga. Hafa þær fyrst og fremst gagnast við að renna styrkari stoðum undir kenningar og mat vísindamanna sem byggja á öðrum gögnum og mælingum, s.s. jarðskjálftamælingum og GPS-gögnum. Ekki gert ráð fyrir að tímabundin stöðvun sendinga InSAR mynda frá Geimferðastofnun Evrópu muni hafa teljandi áhrif á mat vísindamanna á stöðu mála á Reykjanesskaga. 



Uppfært 12.03. kl. 8.15

Klukkan 7.43 mældist skjálfti á svæðinu SSV af Fagradalsfjalli sem var 5.0 að stærð. Hann átti upptök á því svæði þar sem virknin hefur verið hvað mest síðustu daga, í nágrenni dalsins Nátthaga.Skjálftinn fannst víða á suðvestanverðu landinu, austur á Hvolsvöll og upp í Borgarfjörð.

Frá miðnætti til klukkan 6.30, 12. mars, hafa mælst um 750 jarðskjálftar með SIL sjálfvirku mælakerfi Veðurstofu Íslands. Þar af mældust 15 skjálftar yfir 3,0 að stærð, sá stærsti var 4,0 að stærð kl. 00:58. Skjálfti af stærð 3,9 mældist kl. 03:51 og kl. 05:09 mældist skjálfti af stærð 3,5. Virknin var bundin við sunnanvert Fagradalsfjall.

Í gær, 11. mars, mældust um 2600 jarðskjálftar sjálfvirkt. Stærsti skjálftinn mældist af stærð 4,6, kl 08:53, alls mældust 29 skjálftar yfir 3 að stærð. Virknin var mest í sunnanverðu Fagradalsfjalli en 4 skjálftar yfir 3,0 að stærð mældust í Eldvörpum.


Uppfært 11.03. kl. 18.50

Veðurstofan hefur notað hraunflæðilíkan til að meta hvert líklegast er að hraun renni frá mismunandi uppkomustöðum eldgoss. Vanalega er líkanið notað til að meta endanlega útbreiðslu hrauns en síðustu daga hefur líkanið verið notað til að fá vísbendingar um hversu hratt hraun gangi fram á fyrstu klukkustundum mögulegs eldgoss.

Hér er komið dæmi úr þessum líkankeyrslum þar sem gert er ráð fyrir að magn kviku sem streymi upp um gosop sé stöðugt og að það gjósi á um 2 km langri sprungu. Sprungan er staðsett yfir því svæði þar sem gögn benda til að kvikugangurinn sé staðsettur nú, þ.e. upp af Nátthaga sem er dalur austan við Borgarfjall. Út frá þeim forsendum sem eru gefnar má gera ráð fyrir að syðsti hluti hrauntungunnar sem rennur í átt til sjávar að Hraunsvík, hafi ferðast um tæpan 1 km á fyrstu 6 klukkustundunum

Temporal_evolution_F11_300m3s

Hér má sjá hermda útbreiðslu á hraunflákanum eftir að gos hefst. Útlínurnar sýna staðsetningu hraunjaðarsins eftir 30 mínútur (rauð lína), 1 klukkustund (appelsínugul lína), 3 klukkustundir (fjólublá lína) og 6 klukkustundir (blá lína). Í líkaninu er gert ráð fyrir föstum útstreymishraða upp á 300 rúmmetra á sekúndu. Smelltu á myndina til að sjá hana stærri.


Uppfært 11.03. 17.00

Veðurstofan hefur fylgst náið með svæðinu suður af Fagradalsfjalli í dag. Vísbendingar eru um að kvikugangurinn sé að stækka í suðvestur og sé nú kominn í Nátthaga, sem er dalur aðeins austan við Borgarfjall. Mælingar benda til þess að gangurinn sé að færast um 500 metra síðasta sólarhring.

Skjálftavirkni á Reykjanesskaga hefur haldið áfram og urðu nokkrir kröftugir skjálftar í morgun sem eru svokallaðir gikkskjálftar sem verða þegar spenna losnar sem myndast hefur sitt hvoru megin kvikugangs. Stærsti skjálftinn mældist 4.6 að stærð við Eldvörp rétt fyrir klukkan níu í morgun og fannst nokkuð víða eða allt norður á Akranes og Hvanneyri og austur á Hvolsvöll. Gikksjálftar eru til marks um að þrýstingur er að byggjast upp í tengslum við þessi umbrot syðst í Fagradalsfjalli, sagði Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar í samtali við fréttastofu RÚV fyrr í dag. „Þessi stækkun kvikugangsins í suður eru ekki miklar breytingar og breyta ekki þeim sviðsmyndum sem vísindaráð hefur gefið út“, segir Kristín.

Jarðskjálftavirknin við Fagradalsfjall er örlítið minni í dag miðað við gærdaginn, en Veðurstofan heldur áfram að fylgjast náið með þróun mála.

Skjamynd-2021-03-11-162743

Uppfært 11.03. kl. 8.00

Klukkan sjö í morgun höfðu mælst rúmlega 800 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Allnokkrir voru um og yfir 3, sá stærsti var 3,4 að stærð kl. 2:10. Virknin er aðallega bundin við Fagradalsfjall líkt og áður. Mikil smáskjálftavirkni var á milli miðnættis og 3 en enginn gosórói mældist í nótt.

Í gær, 10. mars, mældust um 2500 skjálftar á Reykjanesskaga. Um 40 þeirra voru yfir 3 að stærð, sá stærsti var af stærð 5,1 kl. 3:14.

Skjamynd-2021-03-11-080306

Uppfært 10.03. kl. 16.45

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.

Helstu niðurstöður fundarins:

  • Kvikugangurinn heldur áfram að stækka og er mesta kvikuflæðið bundið við suðurenda hans. Á meðan kvika heldur áfram að flæða inn í ganginn þarf að reikna með að það geti gosið á svæðinu. Eftir því sem núverandi ástand stendur lengur aukast líkur á gosi. Afar litlar líkur eru á því að slíkt gos nái í byggð.
  • Mikilvægt að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort að þessi virkni er vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka í suður.
  •  Úrvinnsla á gervihnattamyndum sem bárust í morgun og nýjustu GPS mælingum, staðfesta að kvikusöfnun er áfram skorðuð við suðurenda kvikugangsins sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli. Sá staður er áfram talinn vera líklegasti staðurinn komi til eldgoss.
  •  Ef kvikugangurinn heldur áfram að stækka og valda spennu á svæðinu, má eiga von á skjálftum sem finnast í byggð, sambærilegum þeim sem orðið hafa síðustu sólarhringana.

Snarpir jarðskjálftar mældust í suðurhlíðum Fagradalsfjalls í nótt og það sem af er degi og tengjast umbrotum syðst í kvikuganginum. Eins mældust nokkrir gikkskjálftar rétt norður af Grindavík en myndun kvikugangsins veldur spennubreytingum á stóru svæði m.a. vestur af Fagradalsfjalli. Skjálftavirknin í morgun hefur samanstaðið af minni skjálftum um 2 að stærð. Á meðan að það fyllist jafnt og þétt í kvikuganginn má áfram búast við kaflaskiptri og kviðóttri skjálftavirkni.

Wrapped_icelandic_3to9mar

Úrvinnsla á gervihnattamyndum sem bárust í morgun og nýjustu GPS mælingum, staðfesta að kvikusöfnun er áfram skorðuð við suðurenda kvikugangsins sem nær frá Keili að Fagradalsfjalli. Sá staður er áfram talinn vera líklegasti staðurinn komi til eldgoss. Smelltu hér til að sjá myndinna stærri.

GPS mælingar benda til þess að hægt hafa örlítið á kvikuflæði, en óvissan í þeim mælingum er þó talsverð þar sem kvikan liggur mjög grunnt í jarðskorpunni (á um 1 km dýpi). Það er þó mat vísindaráðs að miklvægt er að fylgjast náið með virkninni í suðurhlíðum Fagradalsfjalls til að sjá hvort að hún er vísbending um að kvikugangurinn sé að stækka til suðurs.

Kvika mun ekki komi upp með látum ef til eldgoss kemur

Eins og staðan er metin núna þá situr kvikan mjög grunnt, á 1-1.5 km dýpi. Það er mikilvægt að átta sig á því að ef kvika brýtur sér leið alla leið upp á yfirborðið þá má búast við að það gæti gerst án mikilli átaka eða skjálftavirkni. Dæmi um slíkt má sjá í gosinu sem hófst á Fimmvörðurhálsi árið 2010. Þá sáust ekki skýr merki um upphaf goss á mælitækjum Veðurstofunnar og voru það fréttir frá sjónarvottum sem staðfestu að kvika væri komin upp. Í þessu ljósi hefur Veðurstofan sett upp vefmyndavélar sem hægt er að notast við til að fylgjast með því ef kvika kemur upp.


Uppfært 10.03. kl. 8.00

Í nótt mældist skjálfti af stærð 5,1 kl. 03:14 í suðvesturhorni Fagradalsfjalls og fannst hann á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, austur á Hellu og norður í Búðardal. Alls hafa um 700 jarðskjálftar mælst frá miðnætti, þar af 20 yfir 3,0 að stærð.

Virknin, líkt og i gær, er að mestu bundin við suðurhluta Fagradalsfjalls en nokkrir skjálftar mældust rétt norðaustur af Grindavík í nótt, sá stærri M3.9 kl. 04:35 og við örfáir við Trölladyngju.

Enginn gosórói hefur mælst, né afgerandi breytingar í GPS gögnum.

Í gær mældust um 2900 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, sá stærsti 4,0 að stærð kl. 23:01 í gǽrkvöldi. Í gærmorgun uppúr kl. 5 jókst virknin eftir rólegan sólahring þegar að órói greindist í suðurhluta gangsins. Í kjölfarið varð virknin aðallega bundin við suðurhluta Fagradalsfjalls.

Skjamynd-2021-03-10-080333

Kortið sýnir staðsetningu skjálfta frá miðnætti 10. mars.

Fagradalsfjall.30h--1-

Þetta kort sýnir nánar dreifingu skjálftanna í Fagradalsfjalli síðasta sólarhringinn.

Uppfært 09.03. kl. 8.30

Um kl. 5:20 í morgun jókst virknin við Fagradalsfjall, syðst í kvikuganginum. Óróahviða mældist um það leyti sem virknin jókt og stóð hviðan þangað til um sjöleytið. Virknin var mjög staðbundin syðst í kviuganginum og er líklega til marks um stækkun gangsins. Frá því klukkan sjö hefur verið viðvarandi smáskjálftavirkni á svæðinu.

Eins og fram kom í tilkynningu vísindaráðs almannavarna í gær má búast við því að virkni verði kaflaskipt með jarðskjálftavirkni og óróahviðum sambærilegum og þeim sem mældust nú í morgun samfara stækkun kvikugangsins.

Virknin nú í morgun er á þeim stað sem talin er vera líklegasti uppkomustaður kviku, sem er syðst í kvikuganginum líkt og kom fram í tilkynningu vísindaráðs almannavarna í gær.

Skjamynd-2021-03-09-083901

Kortið sýnir skjálftavirkni frá því um miðnætti 9. mars.


Uppfært 08.03. kl. 16.00

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, ÍSOR, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur auk fulltrúa frá Embætti landlæknis, Isavia-ANS og HS-Orku.

Á fundinum var farið yfir virkni helgarinnar, ásamt því að rýna mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.

Helstu niðurstöður fundarins

  • Áfram er talið að ef til goss kemur yrði það á sprungu einhversstaðar á því svæði sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili þar sem kvikugangurinn er að myndast. Engar vísbendingar eru um kvikuhreyfingar fyrir utan þetta svæði.
  • Líklegasti uppkomustaður kviku, miðað við virkni undanfarna daga, er syðst í kvikuganginum.
  • Nýjustu gervihnattamyndir, GPS mælingar og líkanreikningar benda til þess að dregið hafi úr kvikuflæði frá því í upphafi síðustu viku. Kvikan situr grunnt og áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út.
  • Ef kvikugangurinn heldur áfram að stækka næstu daga og vikur, má eiga von á sambærilegum jarðskjálftahviðum og urðu um helgina.

Monitor-map-45x25-cm-unrest-20210308

Smelltu hér til að sjá myndina stærri eða til að hlaða henni niður. Á þessari mynd er afmarkað svæði þar sem kvikugangurinn er að myndast undir jarðskorpunni. Þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, líkt og nú á sér stað á umbrotasvæðinu milli Keilis og Fagradalsfjall, myndast þrýstingu í jarðskorpunni. Það skapar spennu austan og vestan megin við umbrotasvæðið og er líkleg skýring á þeim skjálftum sem verða þar sú að um sé að ræða svokallaða „gikkskjálfta“ sem eru merki um spennulosun en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast. Dæmi um slíka skjálfta mátti sjá aðfaranótt sunnudags, 7. mars, þegar margir kröftugir skjálftar mældust á skömmum tíma.

Á fundi vísindaráðs í dag var farið yfir nýjar gervihnattamyndir sem bárust í gær og þær bornar saman við GPS mælingar, skjálftagögn og aðrar mælingar.

Jarðskjálftavirkni hefur heldur minnkað frá því sem var um helgina. Á laugardagskvöld jókst jarðskjálftavirkni í Fagradalsfjalli umtalsvert og stóð sú aukna virkni yfir frá um kl 18 - 23. Rétt eftir miðnætti, aðfaranótt sunnudags, hófst órói sem stóð yfir í um 20 mínútur og skömmu seinna mældist skjálfti af stærð 3,8. Í framhaldi af því jókst virkni enn frekar og margir kröftugir skjálftar mældust. Sá stærsti mældist kl. 02:02 og var 5,1 að stærð.

Áfram er talið að ef til goss kemur yrði það á sprungu einhversstaðar á því svæði sem afmarkast af Fagradalsfjalli og Keili þar sem kvikugangurinn er að myndast. Engar vísbendingar eru um kvikuhreyfingar fyrir utan þetta svæði. Líklegasti uppkomustaður kviku, miðað við virkni undanfarna daga, er syðst í kvikuganginum. Nýjustu gervihnattamyndir, GPS mælingar og líkanreikningar benda til þess að dregið hafi úr kvikuflæði frá því í upphafi síðustu viku. Kvikan situr grunnt, nær líklega á um 1km dýpi og áfram þarf að gera ráð fyrir að gos geti brotist út.

Kvikugangurinn hefur áhrif á önnur svæði á Reykjanesskaga

Þegar kvika flæðir inn í jarðlög og myndar kvikugang, líkt og nú á sér stað á svæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls, myndast þrýstingur í jarðskorpunni. Það veldur spennubreytingum á stóru svæði umhverfis ganginn. Líkanreikningar sýna að þessar spennubreytingar koma af stað svokölluðum „gikkskjálftum“ við sinn hvorn enda kvikugangsins. Þessir skjálftar eru merki um spennulosun, en tákna ekki að kvika sé á hreyfingu á þeim svæðum sem þeir mælast.

Það er mat vísindaráðs að búast megi við því að virknin á Reykjanesskaga verði kaflaskipt næstu daga. Gera þarf ráð fyrir því að ef kvikugangurinn heldur áfram að myndast næstu daga og vikur þá er von á sambærilegum jarðskjálftahviðum og urðu um helgina.


Áfram eru þessar sviðsmyndir líklegastar þegar kemur að framvindu atburða á Reykjanesskaga:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
  • Skjálfti af stærð 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð


Uppfært 08.03. kl. 8.55

Frá miðnætti hafa mælst um 600 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, færri en undanfarnar nætur og enginn merki voru um óróa. Stærsti skjálftinn var 3,3 að stærð kl. 00:34.

Virknin var mest við Fagradalsfjall en einnig mældust skjálftar við Reykjanestá, Þorbjörn og Trölladyngju.

Í gær (7. mars) mældust um 2800 jarðskjálftar á skaganum, þar af hafa um 300 skjálftar verið yfirfarnir. Stærsti skjálftinn mældist 5,0 að stærð kl.02:01og fannst víðsvegar á SV-horninu.


Uppfært 07.03. kl. 15.45

Fyrsta skoðun á nýjum gervihnattamyndum og túlkun á GPS gögnum bendir til þess að kvikuhreyfingar séu áfram bundnar við umbrotasvæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis. Úrvinnsla úr þessum myndum sem bárust í morgun bendir því til þess að kvikuhreyfingar séu ennþá einskorðaðar við það svæði. Þessi gögn sýna einnig að skjálftavirknin, sem mælst hefur síðasta sólarhringinn vestur og austur af því svæði, tengist spennubreytingum vegna kvikugangsins sem er að myndast á umbrotasvæðinu. Vísindaráð mun funda á morgun til að fara nánar yfir nýjustu gögn og mælingar.

Wrapped_icelandic_1to7mar

Nýjasta úrvinnsla úr gervihnattamyndum úr Sentinel-1 sem barst í morgun.

Skjálftavirknin frá hádegi hefur að mestu verið bundin við austurhluta Fagradalsfjalls en þó hafa einnig mælst skjálftar við Trölladyngju og NV við Grindavík. Stærsti skjálfti hefur mælst frá hádegi var 3,5 að stærð við Trölladyngju. Frá miðnætti hafa rúmlega 1600 skjálftar mælst með sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar.

Yfirfarid_06_15

Kortið sýnir yfirfarna skjálfta frá því kl. 6 til kl. 15. Fjöldi yfirfarna skjálfta á tímabilinu er um 100 en sjálfvirka kerfið hefur staðsett um 900 skjálfta á Reykjanesskaga á sama tímabili.

Uppfært 07.03. kl. 11.15

Í gærkvöldi jókst jarðskjálftavirkni í Fagradalsfjalli umtalsvert og stóð sú aukna virkni yfir frá um kl 18 - 23. Rétt eftir miðnætti um kl 00:22 hófst órói sem stóð yfir í um 20 mínútur, skömmu seinna mældist skjálfti af stærð 3,8.

Í framhaldi af því jókst virkni enn frekar og mikil jarðskjálftavirkni var í nótt með snörpum skjálftum.

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Veðurstofa Íslands funduðu ásamt Lögreglunni á Suðurnesjum og fulltrúa Grindavíkurbæjar kl. 03.30 í nótt vegna fjölda jarðskjálfta af stærðinni 3-5 á svæðinu frá Þorbirni að Fagradalsfjalli. Jarðskjálftarnir finnast vel í Grindavík og valda íbúum áhyggjum.

Það er mat sérfræðinga út frá þeim gögnum sem liggja fyrir, að líklegast er að skjálftarnir sem fundust í nótt og í morgun í Grindavík séu afleiðingar spennubreytinga í jarðskorpunni, en ekki vegna tilfærslu á kviku. Það er því ekki metið sem svo að þeir séu skammtímafyrirboði eldgoss.

Skjamynd-2021-03-07-110018

Myndin sýnir skjálftavirkni frá því kl. 18 í gær, 6. mars. Rauðlitir skjálftar eru þeir nýjustu og eru þeir flestir á umbrotasvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár á Veðurstofu Íslands sagði í viðtali við fréttastofu RÚV í nótt, að þótt engin merki sjáist um gosóróa sé þessi mikla virkni líklega til marks um meiri hreyfingu á kvikunni í kvikuganginum undir Fagradalsfjalli. Kristín segir atburðarás næturinnar hafa verið mjög hraða frá miðnætti og virkni mjög mikla. Margir kröftugir skjálftar hafi mælst og þeir hafi að hluta komið í um það bil 20 mínútna löngum hviðum. Almennt er það þannig í hrinum að það eru frekar minni skjálftar sem eru merki um eldvirkni, en ekki stórir skjálftar.

Frá miðnætti hafa tæplega 1300 skjálftar mælst á Reykjanesskaga. Stærsti skjálfti næturinnar var skjálfti af stærð 5,0 kl. 02:02 um 3 km VSV af Fagradalsfjalli, skjálftinn fannst vel á suðvesturhorninu.

Frá miðnætti hafa hátt í 40 skjálftar yfir 3 af stærð mælst, þar af fimm skjálftar yfir 4 að stærð. Þegar þetta er skrifað er jarðskjálftavirkni talsverð, en ekki hefur mælst annar óróapúls frá því fyrri púls mældist. Síðustu klukkustundirnar hefur megnið af virkninni verið að færast frá svæðinu við Þorbjörn yfir á umbrotasvæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis.

Veðurstofan heldur áfram að fylgjast mjög grannt með framvindu virkninnar. Nýjar gervihnattamyndir berast í dag og verða þær skoðaðar og bornar saman við mælingar síðasta sólarhrings til að leggja mat á stöðuna. Niðurstöður þeirrar greiningarvinnu verða birtar um leið og þær liggja fyrir.

Skjamynd-2021-03-07-110422

Uppfært 05.03. kl. 21.30

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Orkuveitu Reykjavíkur, Kaust háskóla, Uppsala háskóla, Embætti landlæknis, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR og sóttvarnalæknir.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn.

Líkt og í tilkynningu frá vísindaráði í gær er það mat vísindamanna að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að kvika sé að færast nær yfirborði. Meðan þetta ástand varir eru ekki miklar líkur á eldgosi, en gera verður ráð fyrir þeim möguleika að staðan geti breyst hratt.

Mat vísindaráðs að ein sviðsmynd goss er líklegust

Það er sameiginlegt mat vísindaráðs, að ef til goss kemur, benda öll fyrirliggjandi gögn til þess að það verði á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Þetta er í samræmi við þær sviðsmyndir sem þegar hafa verið birtar í tilkynningum vísindaráðs.  Spennuáhrif frá umbrotasvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis skýra að öllum líkindum jarðskjálfta sem orðið hafa í Svartsengi og í grennd við Trölladyngju undanfarna daga, enda hefur engin aflögun mælst sem tengja má því að kvika sé þar á leið til yfirborðs.  Því er ekki ástæða til að ætla að eldgos séu yfirvofandi á þessum stöðum nú, né annarstaðar á Reykjanesskaga utan umbrotasvæðisins við Fagradalsfjall og Keili.

Jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar halda áfram. Enginn órói hefur mælst líkt og mældist fyrir um tveimur sólarhringum síðan. Sá órói benti til þess að kvika væri á hreyfingu á því svæði þar sem mesta skjálftavirknin hefur verið. Þar er um að ræða svokallaðan kvikugang sem er að myndast, sem mögulega getur brotið sér leið alla leið til yfirborðs.

Mesta skjálftavirknin eftir miðnætti í dag er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í NA, miðað við virkni í gær. Líkanreikningur sýnir að skjálftavirkni vestur af Fagradalsfjalli og við Þorbjörn er vegna spennubreytinga sem kvikugangurinn veldur á stóru svæði allt í kring. Sömuleiðis er virkni við Trölladyngju tengd spennubreytingum frá kvikuganginum.

Monitor-map-40x30-cm-unrest

Spennuáhrif frá umbrotasvæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis skýra að öllum líkindum jarðskjálfta sem orðið hafa í Svartsengi og í grennd við Trölladyngju undanfarna daga, enda hefur engin aflögun mælst sem tengja má því að kvika sé þar á leið til yfirborðs.  Því er ekki ástæða til að ætla að eldgos séu yfirvofandi á þessum stöðum nú, né annarstaðar á Reykjanesskaga utan umbrotasvæðisins við Fagradalsfjall og Keili. Smelltu hér til að stækka myndina.

Á fundi vísindaráðs var einnig farið yfir nánari túlkun á þeim gervihnattamyndum sem bárust í gær, sem og nýjustu GPS mælingar, sem sýna áframhaldandi færslur á svæðinu. Útbúin voru nokkur líkön byggð á gervihnattamyndunum og nýjustu GPS mælingum til átta sig betur á umfangi og staðsetningu kvikugangsins. Kvikugangurinn liggur nær lóðrétt í jarðskorpunni og áætlað er að hann nái upp á um 2 km dýpi í jarðskorpunni. Mesta opnun jarðskorpunnar er þar fyrir neðan og nær niður á um 5 km dýpi. Miðað við niðurstöður líkanreikninganna þykir hvað áreiðanlegast að gera ráð fyrir að ef til goss kæmi, þá gæti sprunga opnast einhvers staðar á því svæði sem virkast hefur verið undanfarið, sem liggur frá miðju Fagradalsfjalli að Keili.

Monitormap_hraunflaedilikan_VI_05032021

Þessi mynd sýnir möguleg upptök og umfang á hraunrennsli ef til eldgoss kemur og er byggð á nýjustu gögnum. Þessi sviðsmynd er mjög sambærileg þeim sviðsmyndum sem áður hafa verið birtar. Líkön gefa til kynna að um væri að ræða meðalstórt gos um 0.3 km3, sem er sambærilegt að umfangi og Arnarseturshraun á Reykjanesskaga. Slíkt gos mynd að öllum líkindum ekki ógna byggð. Smelltu hér til að sjá stærri mynd.

Kvikugangurinn liggur mjög grunnt í jarðskorpunni. Líklegustu líkönin benda til þess að gangurinn sé 5-6 km langur og að 1.5-2 km geti verið niður á efra borð hans. Því er full ástæða áfram til að bregðast við þegar óróapúlsar mælast, líkt og um daginn, sem geta verið vísbendingar um upphaf goss.

Þær sviðsmyndir sem eru líklegastar:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall

Fjölgun mælitækja gengur vel

Sérfræðingar Veðurstofunnar, Háskólans og annarra samstarfsaðila hafa unnið hörðum höndum síðustu daga að fjölgun mælitækja á svæðinu til að geta gefið skýrari mynd af framvindu atburðarrásarinnar á Reykjanesskaga. Síritandi GPS stöðvum hefur þegar verið fjölgað í vikunni og unnið verður áfram að uppsetningu fleiri slíkra stöðva um helgina ásamt uppsetningu á jarðskjálftamælum. Öll mælitækin eru svo tengd við vöktunarkerfi Veðurstofunnar.

Monitor-map-40x30-cm-stations

Kort sem sýnir umfang mælanetsins á Reykjanesskaga sem tengt er vöktunarkerfi Veðurstofu Íslands. Smelltu hér til að stækka myndina.



Uppfært 05.03. kl. 8.10

Í gær mældust um 3000 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 700 skjálftar mælst. Í heildina hafa rúmlega 20.000 jarðskjálftar mælst síðan hrinan hófst fyrir viku síðan. Mesta virknin eftir miðnætti er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í NA, miðað við virkni í gær.

Enginn órói hefur mælst, enn skjálftavirkni er áfram mikill.

Stærstu skjálftar frá miðnætti:

  • Kl. 00:08 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 03:25 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 04:17 M3,0 Fagradalsfjall
  • Kl. 02:34 M3,0 Fagradalsfjall


Uppfært 04.03. kl. 18.15

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Á fundinum var farið yfir mælingar og gögn sem hafa borist síðasta sólarhringinn. Mat vísindamanna er að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að gos sé yfirvofandi á næstu klukkustundum.

Jarðskjálftamælingar sýna að virknin er ennþá mikil á svæðinu, þó dregið hafi úr henni eftir óróapúlsinn sem mældist í gær. Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá er megin virknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu.

Einnig var farið yfir nýjar InSAR gervihnattamyndir sem bárust í dag. Þær myndir spanna tímabilið frá 25. febrúar til 3. mars (kl. 18:59) og sýna ennþá merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Það styðja einnig GPS mælingar, sem sýna áfram nokkuð stöðuga hreyfingu, sem þó virðist hafa hægt á sér miðað við síðustu daga. GPS mælingarnar, ásamt InSAR gögnum, sýna því að ekki varð veruleg aukning í kvikurhreyfingum samfara jarðskjálftavirkninni í gær. Sérfræðingar munu túlka frekar gervihnattamyndir og GPS mælingar, til að átta sig á hversu miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað þær þýða um framvindu mála.

Niðurstaða vísindaráðs er sú að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á að gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög. Jarðskjálftavirkni og kvikuhreyfingar halda eigi að síður áfram.  Því hefur þessi atburðarás ekki áhrif á þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir, að gera verði ráð fyrir að gos geti brotist út ásamt líklegustu staðsetningu og mögulegu umfangi goss. 


Þessi mynd sýnir möguleg upptök og umfang á hraunrennsli ef til eldgoss kemur og er byggð á nýjustu gögnum. Þessi sviðsmynd er mjög sambærileg þeim sviðsmyndum sem áður hafa verið birtar.

Framvindan mun verða kaflaskipt á næstunni. Taka þarf óróapúlsa alvarlega og reikna með að gos geti hafist þegar að þeir mælast.

Gera verður ráð fyrir að framvinda á Reykjanesskaga muni verða kaflaskipt næstu daga og aftur geta komið skyndilegir púlsar með þéttum smáskjálftum (óróapúlsar), sambærilegir þeim sem mældust í gær. Dæmi um slíka kaflaskipta virkni, þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum, eru Kröflueldar 1975-1985 .  Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni.  Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki.

Það er mat vísindaráðs að nauðsynlegt sé að taka óróapúlsa, sambærilegum þeim sem varð í gær, alvarlega og reikna með þeim möguleika að gos kunni að vera yfirvofandi þegar þeir mælast.

Vísindaráð mun hittast aftur á morgun til að ræða nýjustu gögn og mælingar.


Uppfært 04.03. kl. 9.15

Jarðskjálfti af stærð 4.5 mældist kl 08:54 við Fagradalsfjall. Skjálftinn fannst vel á suðvestur horni landsins. Órói hefur ekki byrjað aftur samhliða skjálftanum. Þetta er stærsti skjálfti síðan 2. mars kl. 03:05 en sá var 4.6 að stærð.


Uppfært 04.03. kl. 8.10

Í gær mældust um 2500 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 800 skjálftar mælst. Í heildina hafa ríflega 18.000 jarðskjálftar mælst síðan hrinan hófst fyrir um viku síðan. Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjalli og hefur færst aðeins í SV, miðað við virkni í gær. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt, enn jókst aftur um fimmleytið. 15-20 skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst frá miðnætti.

Stærstu skjálftar frá miðnætti:

  • Kl.00:59 M4,1 við Fagradalsfjalli
  • Kl.04:04 M3,6
  • Kl.05:17 M3,9
  • Kl.05:36 M3.9
  • Kl.05:44 M4,0


Uppfært 03.03. kl. 20.50

Óróapúls mældist kl. 14:20 og sást á flestum jarðskjálftamælum. Púlsinn er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút.

Óróamerkið er enn vel greinanalegt þó það hafi heldur minkað eftir kl. 17 í dag. Áfram er mikil jarðskjálftavirkni á svæðinu.

Um 1700 jarðskjálftar hafa mælst síðan á miðnætti, sá stærsti af stærð 4,1 kl. 02:12, en flestir skjálftar nú í eftirmiðdag eru minni, en sá stærsti í kvöld kl. 20:17 var 3,8 að stærð.


Uppfært kl. 16.20

Sá órói sem nú mælist er í takti við þær sviðsmyndir sem unnið hefur verið eftir og hafa verið kynntar í upplýsingum frá vísindaráði. Ekki er reiknað með að gos sem kæmi upp á þessum slóðum muni ógna byggð.

Mælingar gefa ekki skýrar vísbendingar um hvort og þá hvenær kvika næði upp á yfirborðið. Sérfræðingar Veðurstofunnar eru nú í eftirlitsflugi til að sjá hvort sigdældir séu að myndast á svæðinu sem benda til þess að mjög grunnt sé í kviku.

Miðað við gögn sem nú liggja fyrir er sú sviðsmynd sem er sýnd fyrir neðan, líklegust hvað varðar hraunflæði og umfang þess ef til goss kæmi.



Uppfært kl. 14.50

Óróapúls hófst kl. 14:20 og mælist á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé  hafið.  Unnið er að nánari greiningu. Von er á meiri upplýsingum.

Screenshot-from-2021-03-03-15-10-30

Uppfært 03.03. kl. 8.45

Klukkan 02:12 í nótt kom skjálfti af stærðinni 4.1 og fjórum mínútum síðar annar 3.2 að stærð. Báðir skjálftarnir eru á því svæði við norður enda Fagradalsfjalls þar sem virknin hefur verið hvað mest. Tilkynningar hafa borist Veðurstofunni um að fyrri skjálftans hafi orðið vart á höfuðborgarsvæðinu, í Grindavík og í Reykjanesbæ.

Vísindaráð almannavarna hittist á stuttum fundi í hádeginu í gær vegna jarðskjálfta og innskotavirkni á Reykjanesskaga.  Farið var yfir þá jarðskjálfta sem hafa orðið frá síðasta fundi sem haldinn var í gær. Þeir eru allmargir og misstórir, núna eru tvö jarðskjálftasvæði virk en mesta virknin er milli Keilis og Fagradalsfjalls, einnig er töluverð skjálftavirkni hjá Trölladyngju þar sem 8 skjálftar hafa mælst og hafa allir verið undir 3 að stærð. 

Auk þess voru ræddar líkankeyrslur sem gerðar eru til þess að meta stærð og staðsetningu gangs sem er í myndun þar sem jarðskjálftavirkni er hvað mest.  Enn vantar meiri gögn til þess að áætla þessar stærðir, en næsta gervitunglamynd mun berast annað kvöld. Úrvinnsla á gervitunglamyndum og mælingar með GPS tækjum á jörðu niðri eru þó í samræmi. Vísindaráð hittist aftur seinni partinn á morgun.

Eldgos mun að öllum líkindum ekki ógna byggð

Veðurstofan hefur útbúið tvær myndir sem sýna mögulegt umfang á hraunrennsli ef til eldgoss kemur. Horft er á þá tvo staði sem mælingar gefa til kynna að líklegast sé að kvika brjóti sér leið upp á yfirborðið. Líkön gefa til kynna að um væri að ræða meðalstórt gos um 0.3 km3, sem er sambærilegt að umfangi og Arnarseturshraun á Reykjanesskaga. Slíkt gos mynd að öllum líkindum ekki ógna byggð. Til samanburðar er rúmmál gossins í Holuhrauni áætlað um 1.2-1.6 km3.


Myndin sýnir mögulegt umfang hraunrennsli ef á 2 km langri sprungu á milli Keilis og Litla Hrúts.


Þessi mynd sýnir mögulegt umfang hraunrennslis á 2 km langri sprungu í Fagradalsfjalli.


Eins hefur verið útbúið líkan af mögulegri gasmengun ef til eldgoss kæmi. Þessi myndir sýnir líkurnar á því að gasmengun af völdum SO2 færi yfir viðmiðunarmörk Umhverfisstofnunar sem teljast „óholl“ fyrir fólk. Líkönin gefa til kynna að gasmengun af mögulegu eldgosi á svæðinu í nágrenni Keilis þarf að vera í miklu magni til að verða hættuleg fólki.


Mælitækjum fjölgað til að gefa skýrari mynd af framvindu mála

Sérfræðingar Veðurstofunnar vinna nú hörðum höndum að fjölga mælitækjum til að fá skýrari mynd á framvindu mála. Í vikunni verður GPS tækjum fjölgað  myndir með dróna teknar af yfirborði til þess að meta hvort einhver merki séu farin að sjást um færslur eða sprungumyndanir. 


Uppfært 02.03. kl. 8.10

Hrinan á Reykjanesskaga stendur enn yfir og er mesta virknin nú bundin við nágrenni Keilis og Trölladyngju. Aðeins dró úr virkninni í gærkveldi en upp úr kl. 22 jókst hún aftur. Á miðnætti mældist skjálfti M3.6 að stærð 1.3 km NA af Trölladyngju. Rétt um klukkan 3 í nótt mældust svo tveir skjálftar yfir stærð 4. Sá fyrri var kl 02:53 1.3 km SV af Keili og var 4.3 að stærð. Sá seinni var í Fagradalsfjalli, kl 03:05, 4.6 að stærð. Þeirra varð beggja vel vart á Suðvesturhorninu og þess seinni alveg austur á Hellu og í Vestmannaeyjum.

Skjamynd-2021-03-02-081303

Uppfært 01.03. kl. 18.15

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR.

Fram kom á fundinum að sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 1800 skjálfta frá miðnætti og eru þeir að mestu bundnir við svæði SV af Keili og Trölladyngju. Af þessum 1800 eru 23 skjálftar að stærð 3 eða stærri og um 3 skjálftar eru 4 að stærð eða stærri. Sá stærsti frá miðnætti mældist kl. 16:35, 5,1 að stærð og átti hann upptök um 1 km ASA við Keili.

Vísindaráð fór einnig yfir gervihnattamyndir (InSAR) sem bárust í dag. Úrvinnsla úr þeim myndum sýna meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga. Líklegasta skýringin er sú að kvikugangur sé að myndast undir því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið síðustu daga. Unnið verður betur úr þessum nýju gögnum m.a. með líkangerð til þess að varpa skýrara ljósi á framvindu mála.

Í ljósi þessara nýju gagna sem rædd voru á fundi vísindaráðs í dag og sérfræðingar hafa farið yfir, er mikilvægt að skoða nánar þá sviðsmynd sem snýr að kvikuinnskoti undir svæðinu við Fagradalsfjall.

Mögulegar sviðsmyndir: 

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 6 að stærð í nágrenni við Fagradalsfjall
    • Kvikuinnskotsvirkni minnkar og kvika storknar
    • Leiðir til flæðigoss með hraunflæði sem mun líklega ekki ógna byggð
  • Skjálfti af stærða allt að 6.5 verður sem á sér upptök í Brennisteinsfjöllum
  • Kvikuinnskot haldi áfram í nágrenni við Fagradalsfjall:

Núverandi virkni á Reykjanesskaga er kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu og hvort ein sviðsmynd sé líklegri en önnur. Von er á nýjum gögnum síðar í vikunni sem geta varpað skýrara ljósi á ástæður þessarar hrinu. Vísindaráð mun funda aftur á morgun til að leggja frekara mat á þau gögn sem liggja fyrir ásamt því að meta nýjar mælingar.

Wrapped_icelandic_23febto1mar--1-

Nýjasta úrvinnsla úr gervihnattamyndum úr Sentinel-1 sem barst í morgun. Hún sýnir meiri færslu en áður hefur orðið vart við á svæðinu síðustu daga og á því svæði þar sem mesta jarðskjálftavirknin hefur verið. Sjá PDF útgáfu af myndinni hér.


Uppfært 01.03. kl. 10.15

Tæplega 800 jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesi frá miðnætti. Er virknin áfram einkum bundin við svæðið SV við Keili og við Trölladyngju. Í nótt kl. 01:31 varð skjálfti af stærð M4,9 um 2,5 KM VSV af Keili og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Vesturlandi.

Sex skjálftar yfir M3,0 hafa mælst frá miðnætti. Fimm þeirra mældust VSV við Keili en einn SA við Trölladyngju.


Uppfært 28.02. kl. 21.30

Frá miðnætti í dag hafa nú mælst yfir 1600 jarðskjálftar á Reykjanesskaga, þar af 33 yfir M3,0 og sjö M4,0 eða stærri. Virknin er aðallega bundin við svæði sem er um 2 km NA við Fagradalsfjall en eftir hádegi færðist virknin lítillega í NA nær Keili. Auk þess mældust skjálftar við Trölladyngju í nótt og við Grindavík rétt eftir hádegi. Skjálftarnir hafa fundist vel á höfuðborgarsvæðinu að Borgarnesi og austur að Hvolsvelli.

  • M4,7 kl. 00:19 um 2,0 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,0 kl. 07:54 um 1,5 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,3 kl. 11:32 um 3 km NA af Fagradalsfjalli
  • M4,2 kl. 15:39 um 1,5 km VSV af Keili
  • M4,3 kl. 16:29 um 0,5 km V af Keili
  • M4,0 kl. 18:43 um 1,0 km SV af Keili
  • M4,7 kl. 19:01 um 2,0 km SSV af Keili

Yfirfarid_280221

Kortið sýnir staðsetningu jarðskjálfta sem hafa verið yfirfarnir í dag.

M4_280221

Þetta kort sýnir staðsetningu þeirra sjö skjálfta sem hafa mælst M4,0 eða stærri það sem af er degi.



Uppfært 28.02. kl. 13.20

Laust upp úr miðnætti varð jarðskjálfti af stærð 4,7 um 2,8 km NA af Fagradalsgjalli. Klukkan 5:54 mældist svo skjálfti 4,0 að stærð og annar kl. 11:31 um 4,3 að stærð, báðir áttu upptök um 2,5 km NA af Fagradalsfjalli. Tilkynningar hafa borist víðsvegar af Reykjanesskaganum og höfuðborgarsvæðinu, austur á Hvolsvöll og upp í Borgarfjörð, um að skjálftarnir hafi fundist þar.

Eins og fram kom á fundi vísindaráðs almannavarna í gær gefa mælingar síðusta daga engar vísbendingar um kvikusöfnun eða gosóróa á svæðinu.

Yfir 10.000 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá því að hrinan hófst í síðustu viku. Um 30 skjálftar yfir M4,0 hafa mælst og um 200 jarðskjálftar hafa verið stærri en M3,0.

Skjamynd-2021-02-28-131415

Uppfært 27.02. kl. 18.40

Vísindaráð almannavarna fundaði á fjarfundi í dag til að ræða jarðskjálftahrinuna á Reykjanesskaga. Fundinn sátu fulltrúar frá Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Umhverfisstofnun, Isavia-ANS, HS-Orku og ÍSOR. 

Fram kom á fundinum að virknin í skjálftahrinunni er núna fyrst og fremst bundin við svæðið í kringum Fagradalsfjall eftir M5,2 í morgun og er hrinan sú öflugasta frá árinu 1933.

Vísindaráð fór yfir þær mælingar og gögn sem liggja fyrir s.s. jarðskjálftamælingar, GPS gögn, gasmælingar og úrvinnsla úr gervitunglamyndum. Mælingar gefa engar vísbendingar um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið, en sýna vel ummerki jarðskjálftanna sem hafa orðið hingað til.

Flestir skjálftar sem mælst hafa síðustu daga eru á um 5 km. dýpi við Fagradalsfjall og hafa ekki færst nær yfirborði, en slíkt gæti verið vísbending um að kvika sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið.  Í hrinu sem varð við  Fagradalsfjall árið 1933 urðu all nokkrir kröftugir skjálftar á skömmum tíma, sambærilegir þeim sem nú ganga yfir. Þeirri hrinu lauk án þess að til eldgoss kæmi. Sama má segja um hrinu sem varð árið 1973.


Mynd sem sýnir dæmi um kröftuga skjálfta og hrinur sem orðið hafa á svæðinu við Fagradalsfjall á árunum 1930-2016. Smelltu hér til að sjá stærri útgáfu af myndinni.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga. Það er því mikilvægt að fólk hugi að innanstokksmunum á heimilum sínum til að tryggja að þeir valdi ekki slysum ef kröftugir skjálftar verða.

Veðurstofan, Háskólinn og samstarfsaðilar munu vinna að fjölgun mælitækja á Reykjanesskaganum á næstu dögum og vikum til að geta áttað sig betur á framvindu hrinunnar. Meðal annars er í skoðun að setja upp fleiri GPS mæla til að átta sig betur á eðli jarðskjálftahrinunnar. Eins er í skoðun að tengjast fleiri jarðskjálftamælum til dæmis þeim sem ÍSOR er með á svæðinu og koma þeim í rauntímavöktun á Veðurstofunni. Að auki er verið að skoða hvort hægt sé að koma fyrir jarðskjálftamælitækjum í Brennisteinsfjöllum sem eru austan við það svæði þar sem helsta virknin. Það gæti mögulega gefið skýrari mynd á þróun mála m.t.t. hvort að von sé á stærri skjálfta sem ætti upptök í Brennisteinsfjöllum en sagan geymir dæmi um upptök kröftugra skjálfta þar t.d. árið 1968.

Uppfært 27.02. kl. 11.30

Frá miðnætti hafa mælst yfir 1100 skjálftar, stærsti skjálftinn mældist 5,2 að stærð kl. 08:07 í morgun og fannst hann vel á höfuðborgarsvæðinu, austur á Skóga og norður í Hrútafjörð. Mínutu síðar mældist skjálfti af stærð 3,9. Um 24 jarðskjálftar yfir 3,0 að stærð hafa þar að auki mælst frá miðnætti. Virknin er aðalega bundin um 2 km NA við Fagradalsfjall og eftir M5,2 skjálftann í morgun virðist virknin hafa færst við SV horn Fagradalsfjalls og er það líklegast vegna spennubreytinga í kjölfar skjálftans.

Yfir 7200 skjálftar hafa mælst frá því að hrinan hófst 24.febrúar og má búast við því að jarðskjálftavirkni haldi áfram næstu daga.

Vegagerðin varar við sprungum sem myndast hafa í Suðurstrandarvegi á Reykjansskaga, vestan við Vigdísarvallaveg. Sprungurnar hafa líklega myndast í kjölfar jarðhræringa sem hafa verið á svæðinu. Í tilkynningu frá Vegagerðinni eru vegfarendur varaðir við sprungunum og þeim bent á að aka varlega um svæðið.


Sprungan í veginum er í tæplega 8.2km fjarlægð í loftlínu frá upptökum M5.7 skjálftans á miðvikudaginn.



Uppfært 27.02. kl. 9.10

Klukkan 08:07 varð jarðskjálfti 5,2 að stærð, um 2.5 km NA af Fagradalsfjalli. Fjöldi eftirskjálfta hafa mælst. Stærsti skjálftinn fannst austur að Skógum og norður að Hvanneyri. Alls hafa rúmlega 600 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Þar af mældust 9 skjálftar yfir M3,0 að stærð. Af þessum níu mældist sá stærsti M3,8 kl. 2:30 og fannst hann víða á Reykjanesskaga, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi. Annar skjálfti, af stærð M3,7, mældist kl. 04:14. Hrinan er nú einkum bundin við svæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis

Svona hrinur eru ekki einsdæmi á þessu svæði, t.d. mældust um fimm skjálftar af stærð M4,9 til M5,9 við Fagradalsfjall þann 10. júní 1933.

Skjamynd-2021-02-27-085918


Uppfært kl. 17.30

Í dag hafa 21 skjálfti mælst af stærð 3 til 4,4 norðanvert Fagradalsfjall. Á milli klukkan 11:59 og 14:00 mældust 14 jarðskjálftar þeirra og nú laust fyrir klukkan fimm mældust tveir, annar 4,4 að stærð. Þessir skjálftar hafa allir fundist á höfuðborgarsvæðinu og þeir stærstu einnig á Suðurlandi, á Akranesi og í Borgarnesi. Þessi virkni er með upptök í nágrenni við stærsta skjálfta hrinunnar sem varð kl. 10:05 að morgni 24. febrúar sl. og mældist 5,7 að stærð.  

“Við höfum séð hrinur áður þar sem margir skjálftar af svipaðri stærð mælast á stuttum tíma. Þetta er sambærilegt því sem við sáum á Tjörnesbrotabeltinu síðastliðið sumar en þekkist einmitt líka í hrinum á Reykjanesskaganum”, segir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. “Klassísk jarðskjálftafræði gerir frekar ráð fyrir einum meginskjálfta og svo eftirskjálftum þar sem stærsti eftirskjálfti hefur styrk sem er 1,2 minni en meginskjálftinn og aðrir skjálftar eru minni. Við höfum hinsvegar mælt 5 aðra skjálfta, til viðbótar við 5,7 skjálftann, sem hafa styrk á bilinu 4,5 og 5. Þetta mætti túlka þannig að í raun séu þetta nokkrir meginskjálftar og svo margar eftirskjálftahrinur.  Jarðskorpan er tiltölulega þunn á Reykjanesskaganum og stærstu skjálftar á þessu hrinusvæði verða ekki mikið stærri þar, einfaldlega vegna þess að jarðskorpan brotnar áður en meiri spenna getur hlaðist upp“, segir Kristín.

Myndin hér að neðan sýnir samsettar Sentinel-1 gervitunglamyndir sem bárust í morgun og spanna tímabilið 19.-25. febrúar. Gervitunglaúrvinnsla staðfestir að færslur hafa mælst á svæðinu milli Svartsengis og Krýsuvíkur en þær nema nokkrum sentímetrum. Flekaskil ganga þvert í gegnum Reykjanesskagann og eru færslurnar sem mælast með gervitunglum til marks um landrekshreyfingar þar sem Evrasíuflekinn færist í austlæga átt og Ameríkuflekinn til vesturs. Engin gögn benda til að eldgos sé yfirvofandi.

Unwrapped_icelandic--1-

Rauður litur táknar hreyfingu í átt að gervitunglinu og fjólublár hreyfingu frá gervitunglinu sem flaug vestur fyrir landið. Svörtu örvarnar yfir landakortinu tákna færslur Evrasíuflekans og Ameríkuflekans. Svörtu örvarnar í hægra horninu niðri sýna stefnu og sjónlínu gervitungls. Stærsti jarðskjálftinn að stærð 5,7 sem varð 24. febrúar síðastliðinn birtist sem rauð stjarna. Hér er myndin á PDF formi.

Gasmælisýni sem tekin voru í gær sýna óvenju há gildi af vetni. Túlkun á mælingunni liggur ekki fyrir en ekki er hægt að útiloka að hún sé til marks um kvikugas á nokkurra kílómetra dýpi sem losnað hafi í jarðskjálftunum. Engar aðrar markverðar breytingar sjást fyrir aðrar gasmælingar en vetni. Mælingarnar verða endurteknar eftir helgi. 


Uppfært kl. 12.20

Nú kl. 12:06 varð jarðskjálfti af stærð 4,4 um 2 km NA af Fagradalsfjalli. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og allt norður í Borgarnes.


Uppfært 26.02. kl. 9.10

Jarðskjálftahrinan á Reykjanesi er enn í gangi. Frá því um miðnætti hafa mælst um 600 jarðskjálftar á svæðinu. Einn skjálfti af stærð 3.2 mældist núna í morgun kl. 08:37, 2,1 km austur af Fagradalsfjalli. Sskjálftinn fannst á Reykjanesskaganum og áhöfuðborgarsvæðinu. Aðrir skjálftar frá því um miðnætti hafa verið minni. Frá því að hrinan hófst hafa mælst hátt í 5000 skjálftar á svæðinu.


Uppfært 25.02. kl. 15.00

Núna kl. 14:35 varð skjálfti af stærð M3,5 rétt fyrir norðan Fagradalsfjall. Hann fannst á Reykjanesi og höfuðborgarsvæðinu.

Hrinan er enn í gangi en rúmlega 2500 jarðskjálftar hafa verið staðsettir með sjálvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands frá miðnætti.

Uppfært 25.02. kl. 10.00

Tveir skjálftar yfir M3 að stærð mældust á Reykjanesskaganum í nótt. Sá fyrri mældist M3,1 að stærð kl. 00:53 og átti upptök um 4 km SSV af Fagradalsfjalli en sá síðari mældist M3,4 að stærð kl. 03:26 um 2,2 km N af Krýsuvík. Fundust báðir víða á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaganum.

Jarðskjálftahrinan er enn í gangi þó heldur hafi dregið úr fjölda kröftugra skjálfta í bili. Sjálfvirka jarðskjálftamælikerfi Veðurstofu Íslands hefur mælt um 1000 jarðskjálfta á svæðinu frá miðnætti.

Núverandi virkni á Reykjanesskaga sem í raun má rekja aftur um rúmt ár hefur verið kaflaskipt og er erfitt að spá fyrir um nákvæma framvindu, en nú er fyrst og fremst horft á þessar tvær sviðsmyndir:

  • Það dregur úr jarðskjálftavirkni næstu daga eða vikur.
  • Hrinan mun færast í aukana með stærri skjálftum, allt að 5.5-6.5 að stærð.

Veðurstofan mun halda áfram að fylgjast náið með þróun mála. Mælingar hingað til gefa engar vísbendingar um kvikuinnskot í þessari hrinu en sérfræðingar Veðurstofunnar munu halda áfram að mæla gasútstreymi á svæðinu, en ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.


Melissa Anne Pfeffer við gasmælingar á Reykjanesskaganum í gær. (Ljósmynd: Veðurstofa Íslands/Sara Barsotti)


Uppfært kl. 16.45

Í jarðskjálftahrinum eins og þeirri sem nú gengur yfir getur grjóthrun orðið og jafnvel skriður eða snjóflóð fallið. Eitthvað hefur verið um skriðuföll á Reykjanesskaga vegna skjálftanna. Meðal annars féll talsvert af grjóti yfir gamla Suðurstandaveginn sem nú er aflagður. Einnig hafa tilkynningar borist af grjóthruni í Þorbirni við Grindavík, úr Keili, við Djúpavatnsleið og við Kleifarvatn.



Myndir sem sýna grjóthrun í Þorbirni og var tekin í eftirlitsflugi með þyrlu Landhelgisgæslunnar í morgun. (Ljósmyndir: Veðurstofan/Esther Hlíðar Jensen)

Á bloggsíðu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar kemur fram að ef skjálftavirknin heldur áfram er talin meiri hætta á að jarðskjálftarnir komi af stað grjóthruni en öðrum ofanflóðum. Ef skjálftavirkni færist austar stækkar áhrifasvæðið og nær þá u.þ.b. yfir Reykjanesskaga, norður í Hvalfjarðarsveit, umhverfis Þingvallavatn og austur að Þjórsá. Á því svæði eru mörg fjöll sem nýtt eru til útivistar, m.a. Esjan, Hengill, Ingólfsfjall, Vífilsfell, Helgafell og Keilir. Fólki er bent á að fara varlega í bröttum hlíðum og forðast svæði þar sem grjót eða snjór getur hrunið.

Jarðskjálftahrinan minnir íbúa á þekktum jarðskjálftasvæðum á mikilvægi þess að huga að lausum innanstokksmunum og kynna sér varnir og viðbúnað vegna jarðskjálfta á vefsíðu almannavarna.


Uppfært kl. 13.58

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir í viðtali við fréttastofu RÚV að óstöðugleiki nái yfir stórt svæði. Jarðskjálftarnir í morgun hafa verið milli Kleifarvatns og Grindavíkurvegar. Hins vegar hafa engir skjálftar fundist milli Kleifarvatns og Bláfjalla á þessu ári. Þar hafa í sögunni orðið skjálftar að stærð 6,5. Það gæti verið vísbending um að það svæði sé læst og losni ekki um spennu þar nema í stærri skjálfta. „Við erum í miðjum atburði núna. Við teljum að meðan þessi óstöðugleiki er í gangi þá eru auknar líkur á því að það verði enn þá fleiri skjálftar og jafnvel stærri skjálftar“, sagði Kristín í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur í aukafréttatíma í sjónvarpi í hádeginu. „Hrinan byrjaði austan við Fagradalsfjall og svo flutti hún sig nær Krýsuvík í Núpshlíðarháls og svo hafa fleiri skjálftar dreift sér á ríflega 20 km langt svæði milli Kleifarvatns og Sýlingafells..“

Kristín segir hrinuna óvenjulega, hún sé kröftug og henni fylgi margir kröftugir skjálftar á stuttum tíma. Engar vísbendingar eru þó um gosóróa, en sérfræðingar Veðurstofunnar hafa meðal annars verið við gasmælingar á svæðinu til að meta hvort einhverjar breytingar séu merkjanlegar á gasútstreymi. Ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir hættum sem stafa af hrinum sem þessum:

  • Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettarveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns.
  • Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða m.a. á höfuðborgarsvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.


Uppfært kl. 12.48

Núna kl. 12:37 varð skjálfti af stærð M4,8 við Kleifarvatn.


Uppfært kl. 11.36

Skjálftinn sem mældist M5.7 í morgun er hluti af hrinu sem hófst í kringum Krýsuvík fyrir nokkrum dögum. Frá miðnætti hafa mælst um 500 skjálftar í hrinunni. Annar skjálfti M4.2 mældist um kl. 10.27 og átti hann upptök í Núpstaðahálsi innan við 1 km NV af Krýsuvík. Hefur sjálfvirka jarðskjálftakerfi Veðurstofunna numið alls 11 skjálfta yfir M4,0 að stærð frá því hrinan hófst.


Uppfært kl. 11.20
Jarðskjálftinn á Reykjanesskaga hefur fundist víða um land. Veðurstofan hefur fengið tilkynningar meðal annars úr Húnaþingi, Ólafsvík, Ísafirði og frá Hellu.


Við bendum á að vegna jarðskjálftahrinunnar eru auknar líkur á grjóthruni í  og skriðuföllum á Reykjanesskaga á meðan á hrinunni stendur.


Uppfært kl. 10.30

Rúmlega 500 jarðskjálftar mældust á Reykjanesskaganum í síðustu viku, um 100 fleiri en í fyrri viku. Mesta virknin var annars vegar við Fagradalsfjall, einkum síðari hluta vikunnar og hins vegar norðan og austan Grindavíkur. Stærsti skjálftinn við Fagradalsfjall var 2,3 að stærð þann 21. febrúar kl. 09:28 og sá stærsti við Grindavík, 2,8 þann 21. febrúar kl. 17.30. Engar tilkynningar bárust um að þessir skjálftar hefðu fundist. Þann 18. febrúar kl. 08:10 varð skjálfti 2,9 að stærð við Núpshlíðarháls. Það var stærsti skjálfti vikunnar. Um 20 jarðskjálftar mældust á Reykjaneshrygg, stærsti 18. febrúar kl. 08:16 M2,8.

Athugið að skjálftavirknin er bundin við Reykjanesskaga. Aðrar staðsetningar á skjálftum eru óáreiðanlegar meðan verið er að fara yfir sjálfvirkar mælingar. Á kortum okkar birtast óyfirfarin gögn sem þýðir að þar má greina tákn um staðsetningu skjálfta utan Reykjanesskaga sem ekki eru áreiðanleg gögn.

Færsla kl. 10.15

Í dag kl. 10:05 varð skjálfti af stærð M5.7 3.3 km SSV af Keili á Reykjanesskaga. Hann fannst víða á Suðvesturhorni landsins, m.a. í Vestmannaeyjum. Fjöldi eftirskjálfta hefur fylgt og búast má við frekari eftirskjálfum.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica