Fréttir
Ljósmynd, bátar og þoka.
Djúpivogur, 15. júlí kl. 15:38. Þokubakki læðist inn Berufjörð en á Djúpavogi er bjartviðri. Ljósmynd: Guðrún Nína Petersen.

Tíðarfar í júlí 2019

Stutt yfirlit

1.8.2019

Tíð var sérlega hlý um landið sunnan- og vestanvert. Í Reykjavík var mánuðurinn sá hlýjasti frá upphafi mælinga, og á fáeinum stöðvum öðrum meðal þeirra 3 til 4 hlýjustu. Svalara var og tíð mun daufari um landið norðan- og austanvert en þó var hiti ofan meðallags síðustu tíu ára á flestum veðurstöðvum.

Úrkoma var ekki fjarri meðallagi á Suður- og Vesturlandi, en yfir því norðaustanlands. Úrkoma var langmest á litlu svæði norðantil á Austfjörðum. Vindhraði var ívið minni en í meðalári.

Hiti

Meðalhiti í Reykjavík í júlí var 13,4 stig og er það 2,9 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 1,4 stigum yfir meðallagi síðustu 10 ára. Á Akureyri var meðalhitinn 12,1 stig, 1,6 stig yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og 0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Í Stykkishólmi var meðalhitinn 11,8 stig og 11,4 stig á Höfn í Hornafirði.

Meðalhita og vik á fleiri stöðvum má sjá í töflu.

stöð meðalh.°C vik 61-90 °C röð af vik 09-18 °C
Reykjavík 13,4 2,9 1 149 1,4
Stykkishólmur 11,8 1,9 11 174 0,8
Bolungarvík 10,6 1,6 28 122 0,5
Grímsey 9,0 1,5 30 146 0,2
Akureyri 12,1 1,6 25 139 0,9
Egilsstaðir 10,6 0,3 33 65 -0,1
Dalatangi 9,0 1,0 21 81 0,1
Teigarhorn 9,9 1,1 15 147 0,3
Höfn í Hornaf. 11,4 0,9 0,5
Stórhöfði 10,9 1,3 22 143 0,3
Hveravellir  9,8 2,8 3 55 1,5
Árnes 13,5 2,6 3 til 4 140 1,5

Meðalhiti og vik (°C) í júní 2019

Eins og kom fram í inngangi var hlýtt að tiltölu á sunnanverðu landinu á meðan kaldara var norðan og austanlands. Á mynd má sjá hitavik sjálfvirkra stöðva miðað við síðustu tíu ár. Jákvætt hitavik var mest 1,8 stig í Bláfjallaskála en neikvætt hitavik var mest á Seyðisfirði, -1,0 stig neðan meðallags síðustu 10 ára.

Hitavik_7-2019

Hitavik sjálfvirkra stöðva í júlí miðað við síðustu tíu ár (2009-2018).

Meðalhiti mánaðarins var hæstur 13,5 stig á Þingvöllum, í Hjarðarlandi og í Árnesi. Lægstur var meðalhitinn 5,2 stig á Gagnheiði. Á láglendi var meðalhitinn lægstur 7,6 stig á Fonti.

Hæsti hiti mánaðarins mældist 26,9 stig í Hjarðarlandi þ.29. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist líka í Hjarðarlandi sama dag, 26,5 stig.

Mest frost í mánuðinum mældist -3,3 stig á Gagnheiði þ. 1. Mest frost í byggð mældist -2,4 stig í Möðrudal þann 3.

Eitt landsdægurhitamet var sett í mánuðinum þegar hiti mældist 25,9 stig í Ásbyrgi þann 28. Eldra met var 25,2 stig, sett á Húsavík 2008.

Úrkoma

Úrkoma var víðast hvar í ríflegu meðallagi. Einna þurrast sums staðar á norðanverðu Vesturlandi og vestan til á Norðurlandi. Mikið rigndi í nokkra daga allra austast á landinu og var mánaðarúrkoma á Dalatanga sú næstmesta sem vitað er um í júlímánuði. Úrkoma á öðrum stöðum var langt frá metum.

Úrkoma í Reykjavík mældist 56,4 mm sem er um 9% umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Á Akureyri mældist úrkoman 62,4 mm sem er 90% umfram meðalúrkomu áranna 1961 til 1990. Úrkoma í Stykkishólmi mældist 40,0 mm sem er í tæpu meðallagi. Á Höfn mældist úrkoman 205 mm - tala sem bíður staðfestingar (frumgögn hafa ekki borist enn).

Dagar þegar úrkoma mældist 1,0 mm eða meiri í Reykjavík voru 9, einum færri en í meðalári. Á Akureyri mældist úrkoma 1,0 mm eða meiri 15 daga sem er sjö fleiri í meðalári og hafa aðeins einu sinni verið fleiri í júlí, það var í fyrra. Í Stykkishólmi voru úrkomudagarnir 8 og á Höfn í Hornafirði voru þeir 19.

Sólskinsstundafjöldi

Sólskinsstundafjöldi var ekki fjarri meðallagi um landið suðvestanvert, en færri en í meðalári norðanlands.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 194,6 sem er 23,3 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 og meir en 100 stundum fleiri en í júlí í fyrra. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 132,9, sem er 25,4 stundum færri en að meðaltali 1961 til 1990.

Vindur

Vindur á landsvísu var 0,3 m/s undir meðallagi. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi flesta daga mánaðarins.

Loftþrýstingur

Meðalloftþrýstingur í Reykjavík mældist 1011,2 hPa og er það 1,1 hPa yfir meðallagi áranna 1961 til 1990. Hæsti loftþrýstingur mánaðarins mældist 1026,1 hPa á Dalatanga þann 31. Lægstur mældist loftþrýstingurinn 998,7 hPa á Höfn í Hornafirði þ.18.

Fyrstu sjö mánuðir ársins

Meðalhiti fyrstu sjö mánaða ársins var 5,8 stig í Reykjavík sem er 1,7 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 en 0,5 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára. Meðalhitinn raðast í 6. hlýjasta sæti á lista 149 ára, ofar eru sömu mánuðir 1964, 1929, 2003, 2014 og 2010. Á Akureyri var meðalhiti mánaðanna sjö 4,6 stig. Það er 1,5 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990 og 0,2 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhitinn þar raðast í 15. sæti á lista 139 ára. Úrkoman hefur verið tæp 10% umfram meðallag í Reykjavík og á Akureyri.

Skjöl fyrir júlí

Meðalhiti á sjálfvirkum veðurstöðvum í júlí 2019 (textaskjal) .
Daglegt yfirlit mánaðarins á þremur ákveðnum veðurstöðvum er hægt að sækja í sérstaka töflu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica