Tvö stór snjóflóð á Flateyri og þriðja í Súgandafirði
Fréttin verður uppfærð
Uppfært 26.01.Rúmmál flóðanna um 350 þúsund m³ fyrir Skollahvilftarflóðið og um 225 þúsund m³ fyrir flóðið úr Innra-Bæjargili. Hamfaraflóðið úr Skollahvilft í október 1995 var um 430 þúsund m³
Snjódýpt í farvegum flóðanna á Flateyri þann 14. janúar var mæld með því að gera nákvæmt landlíkan með leysimælingu úr flygildi og bera saman við landlíkan af snjólausri hlíðinni. Meðfylgjandi kort af snjódýptinni sýnir niðurstöðu þessara mælinga, sem gerðar voru 17. og 18. janúar af starfsfólki fyrirtækjanna Svarma og Verkís fyrir Veðurstofuna. Mælingin sem kortið sýnir nær upp undir gilkjafta Skollahvilftar og Innra-Bæjargils en mælingar á upptakasvæðunum eru í vinnslu. Kortið sýnir einnig útlínur snjóflóðanna á sama svæði.
Snjódýpt í hlíðinni við Flateyri eftir flóðin þann 14. janúar. Snjódýptarkortið sýnir vel meginsstrauma snjóflóðanna meðfram görðunum þar sem snjódýptin er víða 2–3 m og upp í >5 m í hæstu hryggjum þar sem flóðið hrannast upp. Utan meginstraumanna er dýptin víða 1–1,5 m og milli leiðigarðanna er hún um 1 m. Í báðum tilfellum er um að ræða heildarsnjódýpt sem tekur bæði til flóðsnævar og óhreyfðs snævar sem flóðið rann yfir án þess að rífa hann með sér. Einnig má sjá má að snjódýptin í hlíðinni utan við farvegi flóðanna er víða 0,5–1,5 m.
Til þess að meta rúmmál sjálfra flóðanna þarf að taka tillit til þess að undir flóðsnjónum er víðast nokkuð af óhreyfðum snjó sem ekki blandaðist flóðunum, oft nokkrir tugir cm undir meginstraumunum og e.t.v. 0,5–1 m annars staðar, og þess að hluti flóðanna barst út í sjó. Að lokum þarf svo að taka tillit til þess að landlíkanið af snjólausri hlíðinni sýnir yfirborð gróðurs, víðast þéttrar breiðu af lúpínu, síðsumars sem á garðasvæðinu er væntanlega um 0,5 m hærra en raunverulegt yfirborð lands sem snjóflóðið flæðir yfir. Gróft mat á rúmmáli flóðanna þegar tekið er tillit til þessara atriða er um 350 þúsund m³ fyrir Skollahvilftarflóðið og um 225 þúsund m³ fyrir flóðið úr Innra-Bæjargili. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem verða endurskoðaðar þegar unnið hefur verið betur úr snjódýptarmæligögnum. Til samanburðar er talið að hamfaraflóðið úr Skollahvilft þann 26. október 1995 hafi verið um 430 þúsund m³ og er flóðið nú því svolítið minna að rúmmáli en flóðið 1995 eins og áður hefur komið fram. Flóðið nú var hins vegar mun stærra en snjóflóð sem féll á Skollahvilftargarðinn í febrúar árið 1999 en það var metið um 130 þúsund m³ og var stærsta snjóflóð sem fallið hafði úr Skollahvilft eftir að snjóflóðavarnargarðarnir voru reistir þar til nú.
Flóðið úr Innra-Bæjargili nú er mun minna að rúmmáli en flóðið úr Skollahvilft, enda er upptakasvæði þess minna að flatarmáli. Það er líklega talsvert minna en nokkur snjóflóð sem þekkt eru úr gilinu, m.a. árin 1953, 1970–1972 og 1974. Allstórt snjóflóð féll úr Innra-bæjargili í febrúar árið 2000 er það talið hafa verið um 110 þúsund m³ að stærð. Það var stærsta flóð sem fallið hafði úr Innra-Bæjargili á snjóflóðavarnargarðinn þar til nú. Eðlisþyngd flóðsnævarins var um 500 kg/m³ og var massi flóðanna nú því um 175 þúsund tonn fyrir flóðið úr Skollahvilft og um 110 þúsund tonn fyrir flóðið úr Innra-Bæjargili.
Hraði flóða hefur áhrif á eyðileggingarmátt
Stærð snjóflóða og eyðileggingarmáttur fer ekki eingöngu eftir rúmmáli þeirra. Þar skiptir t.d. hraði og úthlaupslengd einnig máli. Snjóflóðin nú virðast hafa farið tiltölulega hratt skv. hraðamælingu með radar á Skollahvilftargarðinum og miðað við stefnuna sem flóðin tóku eftir að þau komu niður úr upptakasvæðunum. Skollahvilftarflóðið nú kann því að hafa verið nær snjóflóðinu 1995 að hraða og afli heldur en rúmmálið eitt bendir til.
Jarðýta var fengin til þess að hreinsa flóðsnjó frá varnargörðunum Flateyri á miðvikudag og fimmtudag sl. Ýtan ýtti snjó úr eins konar tröð eða skurði í flóðhrönninni sem nær frá varnargarðinum í átt að íbúðarhúsinu að Sólbakka sem er skammt austan við innri flóðjaðarinn. Meðfylgjandi ljósmynd sýnir 3–4 m hátt stálið í þessum skurði og má m.a. sjá óhreyfðan snjó undir flóðsnjónum sem þekkist af því að hann er drullugur vegna aurs sem flóðið hefur hrifið með sér.
Skurður grafinn af ýtu niður í snjóflóðahrönn við varnargarðinn undir Skollahvilft. Snjódýptin á þessu svæði er víða 3–4 m. Ljósmynd: Óliver Hilmarsson, 22. janúar 2020.
Uppfært 19.01. kl. 20:30
Landlíkan sýnir yfirborð flóðanna á Flateyri. Íbúafundir verða haldnir á Flateyri og Suðureyri á morgun, mánudag
Snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar héldu áfram mælingum og ýmsum athugunum á snjóflóðunum á Flateyri í gær og fyrradag. Starfsmenn fjarkönnunarfyrirtækisins Svarma og Verkís verkfræðistofu gerðu landlíkan af yfirborði flóðanna og upptakasvæðunum með leysimælingu úr flygildi (dróna) sem notað verður til þess að reikna rúmmál flóðanna. Jafnframt voru teknar loftmyndir með flygildinu.
Skygging af bráðabirgðaútgáfu leysilandlíkans af yfirborði snjóflóðanna á Flateyri við leiðigarðana og milli þeirra. Smelltu hér til að sjá stærri mynd . Sjá má flóðstrauma meðfram görðunum að utanverðu báðum megin og ummerki um flóðtungurnar sem köstuðust yfir garðana. Ofar í hlíðinni sjást óreglur í yfirborðinu sem eru til marks um streymi flóðanna skammt neðan gilkjafta Skollahvilftar og Innra-Bæjargils. Einnig eru sýndar niðurstöður mælinga á eðlisþyngd flóðsnævarins. Tvær tölur við punkt þýða tvær mælingar á sama stað.
Mælingar og athuganir á flóðsnjó sem kastaðist yfir garðana benda til að um sé að ræða köggla og kóf úr svokölluðu „skopplagi“ snjóflóðanna sem flýtur ofan á hinum þétta kjarna sem streymir neðst í flóðinu. Skopplagið (sjá útskýringarmynd hér að neðan) getur ferðast nokkru hraðar en kjarninn og dæmi eru um að það geti tekið aðra stefnu en meginflóðið þegar breytingar verða á stefnu flóðsins.
Skýringarmynd af lagskiptingu snjóflóðs, neðst er þéttur kjarni, ofan á honum og að vissu marki á undan kjarnanum er skopplag og ofan þess eðlislétt kóf (mynd byggð á skýringarmynd Dieters Isslers við Norsku jarðtæknistofnunina í Osló).
Svo virðist sem leiðgarðarnir hafi leitt meginstraum beggja snjóflóðanna niður til sjávar og bægt þeim frá byggðinni en skopplagið hafi kastast að hluta yfir garðana og haldið áfram innan þeirra og flætt að hluta yfir þvergarðinn. Að öllu jöfnu er eyðileggingarmáttur skopplags minni en þétta kjarnans. Eðlisþyngd flóðsnævarins innan garðanna er um 400 kg/m³ og snjórinn þar er hreinn, án íshröngls og inniheldur greinar og kvista sem flóðið hefur brotið á leið sinni. Flóðsnjórinn utan við garðana er eðlisþyngri, um 500 kg/m³, og dekkri yfir að líta vegna óhreininda og íshröngls sem tilheyrir hinum þéttari kjarna flóðsins.
Bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ og lögreglustjórinn á Vestfjörðum hafa boðað til íbúafunda á morgun, mánudag, með íbúum að Flateyri og Suðureyri. Íbúafundurinn á Flateyri verður haldinn kl. 17:00 í Félagsbæ og fundurinn á Suðureyri verður haldinn kl. 20:00 í félagsheimilinu á Suðureyri. Þar verða meðal annarra fulltrúar frá Veðurstofunni, Almannavörnum, Ofanflóðasjóði, Rauða krossinum og Svæðisstjórn björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Einnig eru fyrirhugaðir íbúafundir þriðjudaginn 21. janúar á Ísafirði og Súðavík.
Uppfært 18.01. kl. 8:50
Flóðbylgjan sem skall á land á Suðureyri ekki eins há og talið var í fyrstu. Útbúið verður tölvulíkan af flóðbylgjunni
Starfsmenn Veðurstofunnar hafa
unnið síðustu daga við mælingar á áhrifum flóðbylgjunnar sem skall á land á
Suðureyri. Snjóflóð féll úr gilinu ofan við Norðureyri um kl. 23:05 og var háflóð
um kl. 23:15 og stórstreymi. Sjávarstaða við Suðureyri var því með hæsta móti
þegar snjóflóðið féll í hlíðinni og ruddist í sjó fram. Flóðbylgjan sem ferðaðist
yfir Súgandafjörð var því stærri en ella.
Ofanflóðavakt Veðurstofunna kom því á framfæri við Almannavarnir að í veðrinu sem framundan var væri möguleiki á flóðbylgju á Suðureyri. Almannavarnir komu upplýsingum áfram til hafnaryfirvalda.
Sérfræðingar Veðurstofunnar hafa mælt upptakasvæði flóðsins með lasertækni svo hægt sé að áætla rúmmál snjóflóðsins. Eins verður útbúið tölvulíkan til að fá betri hugmynd um hæðina á fyrstu flóðbylgjunni sem skall á land. Erfitt er að gera sér grein fyrir því núna hversu há hún var og kraftmikil. Þó er ljóst að flóðbylgjan var ekki eins há og talið var í fyrstu. Hún var þó nógu há til að fara yfir varnargarðinn og á landi var hnédjúpur, krapablandinn sjór, sumstaðar upp á mið læri. „Fyrir áhrif varnargarðsins kastast sjór hátt í loft upp og nær jafnvel upp á glugga á efri hæð, en meginflóðbylgjan var miklu lægri. Það er í rauninni sá partur sem nær lengst inn og hefur mestu áhrifin sem fólkið fann fyrir,“ útskýrir Sigríður Sif Gylfadóttir, sérfræðingur í ofanflóðahættumati hjá Veðurstofunni í samtali við mbl.is í gær. Hún telur að varnargarðurinn hafi dregið vel úr krafti bylgjunnar og gert mikið gagn.
Víða kastaðist krapablandaður sjór yfir þök á nærliggjandi húsum og jafnvel upp á glugga á annarri hæð. Í einu húsanna hélt fólk að það væri komið steypiregn þegar sjórinn skall á þakinu og streymdi fram af þakkantinum. Meginflóðbylgjan sem gekk yfir varnargarðinn var þó miklu lægri, en á götum og við hús innan við varnargarðinn var krapinn hnédjúpur og sumstaðar upp á mið læri rétt eftir að bylgjan gekk yfir. Á bíl sem lagt var í um 7-8 metra fjarlægð frá varnargarðinum höfðu speglarnir, sem standa 130 cm yfir jörðu, lagst aftur og bíllinn flotið upp og færst um 2 metra. Öldubrotið sem kastaðist yfir húsin var það kraftmikið að það sá aðeins á nokkrum bílum.
Áhrifa flóðbylgjunnar gætti frá höfninni og út eftir öllum bænum að Brjóti við endimörk hans. Engin ummerki sáust utar. Lengst gekk hún á land um 30-35 m vegalengd frá sjávarmáli. Útmörk hennar voru mæld fimmtudaginn 17. janúar og má sjá áhrifasvæðið á korti hér fyrir neðan, en hafa ber í huga að þetta eru frumniðurstöður mælinga.
Frumniðurstöður mælinga á útmörkum flóðbylgjunnar á Suðureyri 14/1 2020.
Snjóflóð sem féll úr hlíðinni innan við Norðureyri í október 1995 olli flóðbylgju sem gekk af krafti inn í höfnina og inneftir ströndinni og skemmdust bæði bátar og mannvirki. Meginþungi flóðbylgjunnar nú var utar í bænum, sem helgast af því að upptök snjóflóðsins voru í gilinu ofan við Norðureyri svo það fellur í fjörðinn utar.
Einar Ómarsson, íbúi á Suðureyri, náði góðum myndum af því þegar flóðbylgjan gekk á land framan við heimili hans.
Flóðbylgjan skellur á varnargarðinum aftan við hjallinn. Mynd: Einar Ómarsson.
Krapablandaður sjór flæðir á land. Í bakgrunni hægra megin má sjá hluta flóðbylgjunnar sem á eftir að skella á garðinum innar í bænum. Mynd: Einar Ómarsson.
Flæðið minnkar. Í bakgrunni hægra megin má sjá hvernig flóðbylgjan skellur á varnargarði innar í bænum. Mynd: Einar Ómarsson.
Flæðið að klárast. Mynd: Einar Ómarsson.
Krapablandaður sjór stöðvaðist um 1,5 metra frá bílskúrshurðinni. Mynd: Einar Ómarsson.
Uppfært 16.01. kl. 17:10
Flóðin úr
Skollahvilft og Innra-Bæjargili eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið
hafa á leiðigarða í heiminum
Snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar
hafa í gær og dag unnið við mælingar á snjóflóðunum á Flateyri. Flóðin
flæddu yfir leiðigarðana ofan Flateyrar á löngum köflum og mikinn flóðsnjó er
að finna milli garðanna ofan þvergarðsins sem myndar tengingu á milli þeirra
skammt ofan byggðarinnar. Neðan þvergarðsins eru flóðtungur innan við báða
leiðigarðana sem hafa bæði kastast yfir leiðgarðana og einnig að einhverju
leyti flætt yfir þvergarðinn eftir að hafa kastast yfir leiðigarðana ofar.
Útlínur flóðanna má sjá á kortinu hér að ofan. Rauða línan sýnir útlínur flóðsins sem féll 1995.
Það var flóðtungan innan við leiðigarðinn undir Innra-Bæjargili sem lenti á húsinu að Ólafstúni 14. Flóðin virðast hafa kastast yfir garðana á talsverðri ferð vegna þess að ofarlega á innri hlið varnargarðanna er óhreyfður snjór sem flóðin hafa ekki sópað með sér en neðar hafa þau streymt með jörðu og brotið gróður og eyðilagt skilti og önnur mannvirki sem þar var að finna. Skollahvilftarflóðið rann alveg yfir svæðið á milli garðanna og upp að Innra-Bæjargilsgarðinum að innanverðu. Flóðin eru tiltölulega þunn á svæðinu milli garðanna og neðan þvergarðsins, víðast 0.5-1 m að þykkt. Meðfram görðunum að utanverðu eru þykkar hrannir af flóðsnjó sem eru víða margir metrar þykkt og er þar að sjá háa óreglulega hryggi þar sem þykkt flóðsins er mjög mikil. Doppler radar á Skollahviltargarðinu mældi hraða flóðsins úr hvilftinni skömmu áður en það kom að garðinum ofanvert við miðju og reyndist það þar á 45-60 m/s hraða sem samsvarar 150-200 km hraða á klst. Flóðin úr Skollahvilft og Innra-Bæjargili eru með allra stærstu snjóflóðum sem fallið hafa á leiðigarða í heiminum og gefa mikilsverðar upplýsingar um streymi snjóflóða sem lenda á fyrirstöðum og virkni leiðigarða.
Mælingar á rúmmáli flóðanna liggja ekki fyrir en út frá tiltækum upplýsingum er áætlað að Skollahvilftarflóðið kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóðið úr Innra-Bæjargili var mun minna að rúmmáli enda upptakasvæði þess minna. Meðfylgjandi myndir sýna ummerki flóðanna á leiðigörðunum.
Horft niður með vestari leiðigarðinum yfir farveg snjóflóðsins úr Innra-Bæjargili sem rann út sjó vestan Flateyrar og að hluta yfir garðinn og á húsið að Ólafstúni 14. Óhreyfður snjór á garðhliðinni sýnir hvar flóðið byrjaði að flæða yfir garðinn en þar fyrir neðan hefur snjór sópast af garðinum og gróður hreinsast burt. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Horft niður með eystri leiðigarðinum yfir farveg snjóflóðsins úr Skollahvilft sem rann út höfnina við Flateyri. Sjá má hvernig flóðið hefur brotið gróður þegar það streymdi með garðinum. Ummerki um skriðstefnu flóðsins meðfram toppi garðsins má sjá í snjónum. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Horft upp með eystri leiðigarðinum upp í Skollahvilft yfir farveg snjóflóðsins sem rann út höfnina við Flateyri. Sjá má brotinn gróður á garðhliðinni. Litbrigði í snjónum ofan garðsins gefa til kynna hrönnina sem flóðið skildi eftir sig neðan við gilkjaftinn. (Ljósmynd Óliver Hilmarsson)
Uppfært 16.01. kl. 12:20
Almannavarnastig fært af neyðarstigi niður á óvissustig. Óvissustigi vegna snjóflóða aflétt
Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Vestfjörðum hefur ákveðið að færa almannavarnastig í umdæmi Lögreglustjórans á Vestfjörðum af neyðarstigi niður á óvissustig vegna snjóflóða á Flateyri og í Súgandafirði.
Óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum hefur verið aflýst. Það þýðir að frekari rýming íbúðarhúsnæðis vegna snjóflóðahættu er ekki fyrirhuguð í þeirri snjóflóðahrinu sem nú er talin afstaðin. Veður er orðið skaplegt en austanstrekkingur og stöku él eru áfram. Fréttir hafa borist af nokkrum flóðum eftir að veðrinu slotaði en ekki hefur hlaupið úr fjölda snjóflóðafarvega þar sem snjóalög kunna enn að vera óstöðug. Reiknað er með að óstöðugir vindflekar séu enn í fjöllum og varasamt er því að vera á ferð í fjalllendi og bröttum hlíðum.
Uppfært kl. 18:10
Snjóflóðið sem féll úr Skollahvilft á Flateyri flæddi talsvert yfir eystri leiðigarðinn ofan eyrarinnar
Snjóathugunarmenn og sérfræðingar Veðurstofunnar hafa í dag kannað snjóflóðin á Flateyri eftir að þeir komu á staðinn með varðskipinu Þór. Í ljós kom að flóðið sem olli tjóni í höfninni hafði að hluta til farið yfir varnargarðinn, eins og áður var vitað um flóðið sem féll hinum megin í bænum úr Innra-Bæjargili. Niðurstöður mælinga liggja ekki fyrir en vísbendingar eru um að meira hafi flætt yfir Skollahvilftargarðinn en yfir garðinn undir Innra-Bæjargili.
Út frá þeim upplýsingum sem liggja nú fyrir er áætlað að flóðin á Flateyri í gær kunni að vera sambærileg að stærð við flóðið sem féll úr Skollahvilft í október 1995. Flóð yfir varnargarðana á tveimur stöðum nú kalla á endurmat á virkni varnargarðanna á Flateyri og þá um leið endurskoðun á hættumati sem gert var 2004.
Uppfært kl. 11:50
Flóðið úr Innra-Bæjargili kallar á mat á virkni varnargarðsins og
ýtarlegar mælingar á flóðunum sem féllu í gær
Snjóflóðið úr Skollahvilft á Flateyri, sem olli miklu tjóni í
smábátahöfninni, virðist hafa verið mjög stórt. Varnargarðurinn beindi því frá
byggðinni og til sjávar, en garðurinn er ekki miðaður við að verja
hafnarsvæðið. Flóðið úr Innra-Bæjargili
virðist einnig hafa verið mjög stórt. Það flóð fór að hluta til yfir
varnargarð og lenti á íbúðarhúsi. Unglingsstúlka grófst í flóðinu. Henni var
bjargað og hún er ekki alvarlega slösuð.
Í hættumati er gert ráð fyrir að það geti gefið yfir snjóflóðavarnargarða við verstu aðstæður. Gert er ráð fyrir rýmingu á svæði neðan varnargarðanna á Flateyri við slíkar aðstæður. Búist var við stórum snjóflóðum og gengið hafði verið úr skugga um að enginn væri í húsum á þeim svæðum þar sem líkur voru taldar á að stór flóð gætu fallið samkvæmt hættumati. Húsið sem flóðið úr Innra-Bæjargili lenti á er á svokölluðu svæði A samkvæmt hættumati og ekki er gert ráð fyrir að rýma hús á því svæði nema við allra verstu aðstæður. Snjóflóðavakt Veðurstofunnar mat snjóflóðahættuna í gær ekki svo að aðstæður væru þannig. Veðurhamurinn í þessari snjóflóðahrinu var ekki jafn mikill og í hrinunni árið 1995 og því voru aðstæður metnar skárri nú. Þegar þessari hrinu slotar þarf að greina veðuraðdraganda hennar og upplýsingar um þessi og önnur flóð sem fallið hafa í henni til þess að geta sagt nánar til um ástæður þess að svo stór flóð féllu nú.
Myndin sýnir rýmingarsvæði A, B og C samkvæmt hættumati og staðsetningu varnargarðanna.
Flóðið úr Innra-Bæjargili kallar á mat á virkni varnargarðsins og ýtarlegar mælingar á flóðunum sem féllu í gær. Mæla þarf hversu mikið rann yfir garðinn og hvernig flóðtungan þar liggur til þess að sjá betur hvernig flóðið féll á garðinn og hversu stór hluti þess rann yfir hann. Einnig þarf að mæla þykkt og rúmmál flóðsins og kanna hvort flæddi yfir garðana ofar í hlíðinni. Þetta verður gert strax og aðstæður leyfa.
Nánari upplýsingar má finna á síðum Snjóflóðavaktarinnar.
15.01.2020 - Kl. 7:50
Stór snjóflóð féllu í gær á Flateyri og á Suðureyri
Tvö stór snjóflóð féllu á Flateyri við Önundarfjörð skömmu eftir kl. 23 að kvöldi 14. janúar og náðu bæði út í sjó, annað úr Skollahvilft og hitt úr Innra-Bæjargili. Flóðið úr Innra-Bæjargili féll að hluta yfir varnargarð og á hús að Ólafstúni 14 og grófst unglingsstúlka í flóðinu. Henni var bjargað og er ekki talin alvarlega slösuð. Flóðið úr Skollahvilft féll meðfram varnargarði og út í smábátahöfnina og olli þar miklu tjóni á bátum en ekki slysum á fólki. Þriðja snjóflóðið féll í Súgandafirði við Norðureyri og náði einnig út í sjó. Flóðbylgja af völdum þess olli skemmdum á húsum við ströndina utan og innan við höfnina á Suðureyri, en ekki slysum á fólki.
Flóðin á Flateyri voru mjög stór en ekki er þekkt enn sem komið er hvort þau séu ámóta og stærstu fyrri flóð, minni eða stærri. Flóðið úr Skollahvilft sást á radar á varnargarðinum og mældist á 150–200 km hraða á klst nokkru áður en það lenti á garðinum.
Nánari upplýsingar verða birtar um flóðin þegar tækifæri hefur gefist til að skoða þau.
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar og lögreglan hafa í nótt farið yfir þau svæði þar sem snjóflóðahætta talin kunna að skapast og hefur fólk yfirgefið nokkra sveitabæi í öryggisskyni.