Von á hlýindum eftir helgina
Í upphafi næstu viku gera spár ráð fyrir að hlýr loftmassi berist yfir landið. Í stuttu máli má segja að útlit sé fyrir að hlýindi í neðri helmingi veðrahvolfsins verði með því sem mest verður hér á okkar góða landi.
Á meðfylgjandi hreyfimynd má sjá spá fyrir hitastig í um 1.500 m hæð yfir sjávarmáli. Í upphafi hreyfimyndarinnar (kl. 18 í dag, föstudag) sést svöl og víðáttumikil lægð suð-suð-vestur í hafi. Austan hennar er suðlæg átt sem ber með sér hlýjan loftmassa frá Evrópu til norðurs. Á sunnudag færist lægðin í átt að Írlandi sem gerir henni kleift að beina áðurnefndum loftmassa til vesturs yfir Ísland. Á hreyfimyndinni sést hvernig breið tunga af hlýju lofti berst yfir Ísland á mánudag.
Hreyfimynd sem sýnir spá fyrir hitastig í 850 hPa þrýstifletinum, sem oft er í um 1.500 m hæð yfir sjávarmáli.
Ef spáin rætist, má gera ráð fyrir að mestu hlýindin verði á mánudag og þriðjudag. Líklegustu landsvæðin til að hreppa hæsta hitann eru Suðurland og Norðurland-Eystra og meiri líkur á háum hita inn til landsins. Þegar þetta er skrifað má telja líklegt að hæsti hiti sem mælist á landinu í væntanlegri hitabylgju yrði á bilinu kringum 28-29 stig.
Ekki er útilokað að kjöraðstæður myndist á stöku mælistöð og hiti mælist hærri. Þar með er svolítill möguleiki á að hoggið verði nærri hæsta hita sem mælst hefur á landinu, en það eru 30.5 stig á Teigarhorni við Berufjörð þann 22. júní 1939 (fyrir rúmum 86 árum). Lesa má fróðleik um þá mælingu á vefnum okkar.
Hvað höfuðborgarsvæðið varðar, þá eru líkur á að hiti nái 20 stigum á mælistöðinni "Reykjavík" sem staðsett er í mælireit við hús Veðurstofunnar á Bústaðavegi. Þegar til langs tíma er litið er það einungis um þriðja hvert sumar sem hitinn nær í 20 stig eða meira við Veðurstofuna.
Það er sem sagt útlit fyrir hlýindi á landinu í næstu viku. Hins vegar ber að nefna að þegar hlýtt loft leikur um hafið umhverfis landið, þá hafa þokuský tilhneigingu til að myndast. Þessi þokuský geta látið á sér kræla, einkum við sjávarsíðuna og þá haldið hitanum niðri á meðan.
Nokkur dæmi um hitatölur síðustu 25 ár
Hæstu hitatölur á landinu frá árinu 2000 hafa mælst 29,7 °C á Þingvöllum þann 30. júlí 2008 og á Hallormsstað mældust 29,4 °C þann 24. ágúst 2021. Á Hjarðarlandi í Biskupstungum fór hitinn í 28,8 °C þann 30. júlí 2008 og á sömu stöð fór hitinn í 28,0°C þann 10. ágúst 2004. Til viðbótar má nefna að hiti hefur farið yfir 27 °C einu sinni eða oftar á 38 sjálfvirkum stöðvum Veðurstofu Íslands síðustu 25 ár.