Veðurstofa Íslands 90 ára
starfsmenn við vinnu
Í spásal Veðurstofunnar 28. júlí 2010.

Miðlun II

Veðurstofa Íslands 90 ára

Guðrún Pálsdóttir 27.7.2010

Veðurspár og miðlun þeirra

Fyrsta veðurspá Veðurstofunnar er dagsett 17. janúar 1920 en ekki var farið að birta veðurspár fyrr en 1. ágúst sama ár. Stuðst var við veðurathuganir frá aðeins fimm íslenskum veðurstöðvum en Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri samdi fljótlega við Landssíma Íslands um að taka við erlendum veðurskeytum og koma þeim áfram til Veðurstofunnar. Veðurkort voru teiknuð frá upphafi athugana.

Veðurlýsingar voru sendar frá 1. febrúar 1920 til Landssímans sem birti þær, ásamt veðurlýsingum frá íslensku veðurskeytastöðvunum. Voru skeytin höfð til sýnis í sérstökum sýningarkassa utan á símstöðvum. Loftskeytastöðin í Reykjavík sendi líka út veðurfréttir og nýttust þær sjómönnum á skipum sem höfðu búnað til þess að taka á móti skeytunum. Veðurstofan fékk sjálf búnað til að taka á móti erlendum veðurskeytum 1. janúar 1925.

Árið 1958 var settur upp sjálfvirkur símsvari með upplýsingum um veðurfar á höfuðborgarsvæðinu. Voru nýjar fréttir hljóðritaðar allt að átta sinnum á dag. Þjónustan var aukin árið 1987 og mikið aukin og endurbætt í apríl 1990.

Veðurfréttir í útvarpi

Veðurfréttir voru fyrst sendar út í útvarpi hjá Hf. Útvarpi árin 1926-1928 en sendingar þess náðu ekki víða. Sama má segja um Loftskeytastöðina í Reykjavík sem byrjaði í júlí 1928 að útvarpa veðurfregnum í mæltu máli fjórum sinnum á dag.

Ríkisútvarpið tók til starfa 20. desember 1930 og var strax farið að útvarpa veðurfréttum, fyrst einu sinni á dag en tæpu ári seinna tvisvar sinnum. Varð þetta algjör bylting í miðlun veðurfrétta þótt ekki næðu þær til alls almennings enda útvarpstæki ekki til á mörgum heimilum og hlustunarskilyrði auk þess misjöfn eftir landshlutum. En ætla má að margir hafi keypt tæki til þess að geta hlustað á veðurfréttir. Ríkisútvarpið hefur lengst af gegnt lykilhlutverki við miðlun veðurfrétta.

Á veðurvaktinni
90ara_051_(3)
Halldóra Ingibergsdóttir vaktstjóri. Eitt af verkefnum hennar er að lesa veðurfréttir í útvarp og það hefur hún gert í yfir 30 ár. Ljósmynd: Guðrún Pálsdóttir.

Á stríðsárunum dró úr þjónustunni. Hinn 15. apríl 1940 var bannað að útvarpa veðurfréttum og jafnframt fékk Veðurstofan ekki veðurupplýsingar erlendis frá. Brugðist var við með því að senda veðurfréttir til um 70 símstöðva víða um land.

Starfsskilyrði til veðurspágerðar bötnuðu svo umtalsvert þegar farið var að veita flugveðurþjónustu árið 1946. Reglur Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) miðuðu að því að auka flugöryggi á Norður-Atlantshafi. Byrjað var að útvarpa veðurspám fyrir miðin umhverfis landið 2. desember 1950. Byggðist þessi þjónusta á því að íslensk skip sendu veðurskeyti til Veðurstofunnar. Í maí 1976 var byrjað að lesa veðurfréttir beint frá Veðurstofunni samkvæmt samkomulagi við Ríkisútvarpið.

Árið 2010 er veðurfréttum útvarpað beint frá Veðurstofunni sjö sinnum á sólarhring, kl. 00:50, 04:30, 06:40, 10:03, 12:45, 18:50 og 22:07.

Veðurfréttir í sjónvarpi

Veðurfréttir í sjónvarpi hófust 6. febrúar 1967. Veðurfræðingur skýrði þar kort sem sýndu veðrið á landinu og umhverfis það eins og það var samkvæmt síðustu veðurskeytum. Síðan var sýnt sérstakt spákort sem sýndi hvernig veðurfræðingurinn hugsaði sér veðrið að sólarhring liðnum.

Í fyrstu voru veðurfregnir í sjónvarpi aðeins þrjá daga vikunnar; mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. En yfirleitt hefur veðurfréttum verið sjónvarpað flesta daga sem Ríkissjónvarpið hefur sent út dagskrá. Á 90 ára afmælisári Veðurstofunnar eru veðurfréttatímar í RÚV Sjónvarpi alla daga vikunnar, daglega að afloknum 19-fréttum, og fjóra daga vikunnar (mánud.-fimmtud.), að afloknum seinni fréttum kl. 22.

Upplýsingar um veður og veðurhorfur hafa verið aðgengilegar á textavarpi Ríkissjónvarpsins frá því á níunda áratug 20. aldar.

Vefur Veðurstofunnar

Fyrstu síður Veðurstofunnar á vefnum voru settar upp árið 1995. Veðurspár, sem glæddust sjálfvirkt, birtust á vefnum árið 1996 og jafnframt upplýsingar um aðra starfsemi stofnunarinnar en hún var orðin mjög víðfeðm eins og núverandi vefsetur Veðurstofunnar ber vitni um.

Jarðskjálftasíður - vikusíður - voru einnig settar á vefinn 1996 og eldingasíður í mars 1997, þær uppfærðust einnig sjálfvirkt. Í bernsku vefseturs Veðurstofunnar vistuðu þeir starfsmenn sem settu upp síður þær oftast á eigin svæði í tölvukerfi stofnunarinnar.

Hinn 26. febrúar 1997 var eftirfarandi texti meginefni á forsíðu Veðurstofunnar: ,,Veðurstofan annast veðurþjónustu fyrir Ísland í lofti, láði og legi, auk þess að gefa út viðvaranir vegna snjóflóða, hafíss, jarðskjálfta, sjávarflóða og annarrar náttúruvár sem tengist verkefnasviði stofnunarinnar." Hægt var að smella á skáletruðu orðin til að fá frekari upplýsingar og einnig var hægt að skoða enska útgáfu en hún takmarkaðist við veðurspár og upplýsingar um jarðeðlisfræði.

Með tilkomu vefs Veðurstofunnar urðu önnur fagsvið en veðurþjónustan almenningi sýnileg, svo sem jarðskjálftar, ofanflóð - einkum snjóflóð - hafís, eldgos, mengun og loftslagsmál. Árið 1998 var útlit vefsins samræmt samfara því að upplýsingagildið jókst stöðugt og hratt. Í ársbyrjun 2001 var síðum fjölgað umtalsvert með aukinni og betri tækni og veðurspár urðu myndrænni.

Hinn 31. maí 2007 leysti nýr og endurbættur vefur þann eldri af hólmi. Við hönnun hans var meðal annars stuðst við könnun meðal notenda og niðurstöður vefteymis innan Veðurstofunnar. Var nýi vefurinn mun myndrænni og fjölbreyttari heldur en sá eldri. Svigrúm til að bregðast við náttúruvá jókst umtalsvert, eins og þær síður sem settar voru upp í tengslum við eldgosin í Eyjafjallajökli mars - maí 2010 bera vott um.

Vefurinn hefur meðal annars verið nýttur til að koma almennum fróðleik á framfæri í stuttum fróðleikspistlum. Vert að geta þess að starfsmenn Veðurstofunnar birta einnig slíka pistla á Vísindavef Háskólans.

Vefurinn hlaut Íslensku vefverðlaunin 2007 sem besti vefur í almannaþjónustu og komst einnig í úrslit fyrir árið 2008 og var tilnefndur 2009.

Ensk útgáfa af nýja vefnum var opnuð 6. mars 2008. Enskumælandi fólk fékk þá aðgang að nákvæmum veðurspám og athugunum fyrir Ísland, einnig að upplýsingum um jarðskjálfta og upplýsingasíða um eldgosin í Eyjafjallajökli var uppfærð jafnoft og sambærileg íslensk síða.

Í september 2008 var boðið upp á i-rammaþjónustu. Ný útgáfa vefsins var opnuð 23. mars 2009 í tengslum við sameiningu eldri Veðurstofu og Vatnamælinga og nýr farsímavefur 26. júní sama ár. Í september 2009 var boðið upp á xml-þjónustu.

Vefurinn er ein helsta upplýsingaveita Veðurstofunnar á öllum fagsviðum hennar. Þar er upplýsingum komið á framfæri á kvikum síðum (síðum sem uppfærast stöðugt), í texta, töflum og á myndum.

Fjölmiðlar og almenn miðlun

Starfsfólk Veðurstofunnar hefur mikil samskipti við fjölmiðla og skipulagt samstarf er við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra, sem og við lögregluyfirvöld í sveitarfélögum á öllu landinu. Á þessi samskipti, sem eru í föstum farvegi, reynir einkum þegar náttúruhamfarir verða; óveður, ofanflóðahætta, flóðahætta, jarðskjálftar og eldgos. Þá eru samskipti og gagnkvæm miðlun við aðrar stofnanir, erlendar og innlendar, mjög mikil og Veðurstofunni afar mikilvæg.

Samskipti starfsfólks Veðurstofunnar við fólk úti um allt land eru stofnuninni einnig mjög dýrmæt því fátt er henni jafnmikilvægt og að fá fréttir og upplýsingar um það sem er að gerast í náttúrunni á og við landið.

Sjá einnig pistilinn Miðlun rita.

Upplýsingar, að undanteknum síðustu 11 árum, eru að langmestu leyti fengnar úr bókinni Saga Veðurstofu Íslands eftir Hilmar Garðarsson. Reykjavík, Mál og mynd, 1999.

Fleiri afmælisgreinar

Lesa má fleiri greinar, sem skrifaðar hafa verið í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofunnar.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica