Greinar
skýjuð Esja, dimmur sjór
Esjan 16. nóvember 2006, kl. 12 á hádegi.

Tættir bólstrar á Esju

Mynd 16. nóvember 2006

Trausti Jónsson 23.11.2007

Esjan kl. 12 á hádegi 16. nóvember 2006.

Vindhraði á Skrauthólum undir Esjunni var 11,2 m/s (6 vindstig) úr 350°, sem telst hánorður. Hiti var -6,2°C.

Skýin ofan á fjallinu flokkast eftir smekk annaðhvort sem cumulus fractus (tættir bólstrar) eða stratocumulus fractus (tætt flákaský). Uppstreymi er við norðurhlíðar fjallsins, en mikil aflkvika tætir skýin og gerir þau óregluleg. Innar - nærri Gunnlaugsskarði - er greinilegur skafrenningur á fjallinu, enda mældist vindhraði á Skálafelli 30,5 m/s (11 vindstig). Á Skrauthólum mældist mesta vindhviða næstliðna klukkustund 27,3 m/s, litlu minni en meðalvindurinn á Skálafelli.

Efstu flákaskýin, þau gráu, flötu beint upp af vestasta (vinstri) enda fjallsins, virðast vera við efra borð blandlags sem myndast þegar aflkvikan blandar loftinu neðan við þannig að hitafallandi verður innrænn. Þessi lagskipting kemur fram í háloftaathugun frá Keflavíkurflugvelli þannig að hiti fellur þurrinnrænt í neðsta laginu, en síðan dregur ívið úr hitafallinu.

Efri skýin (þau hvítu) eru trúlega altocumulus undulatus (bylgjunetja) í hitahvörfum sem þennan dag voru í um 2,6 km hæð yfir Keflavík. Það er vindsniði við hitahvörfin sem myndar bylgjurnar. Í þessu tilviki voru hitahvörfin mjög þykk eða meir en 1 km.

Vindhraði var mestur í 600 til 900 metra hæð, ívið minni en á Skálafelli. Vindur við neðra borð hitahvarfanna var um 12 m/s af norðnorðaustri. Ofar snerist vindur til suðurs og var hæg sunnanátt í um 4 km hæð. Ástæða þess að vindur við hitahvörfin var minni en neðar er sennilega sú að blöndun (með bylgjubroti?) hefur átt sér stað milli efra og neðra lags og blöndunin „stolið“ skriðorku úr neðra laginu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica