Greinar
Teikning af fjöllum
Teikning Guðmundar Kjartanssonar af Heklu 1930.

Veður á Heklu sumarið 1930

- af gömlum blöðum

Veðurstofa Íslands 16.1.2008

Sumarið 1930 dvaldi Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur (1908 til 1972) við rannsóknir á Heklu og í nágrenni hennar eftir að hafa fengið styrk úr Menningarsjóði til náttúrufræðilegra athugana í Hekluhraunum. Hann segir m.a. í grein sem birtist í Náttúrufræðingnum árið eftir1 (s. 49): „Eg var óheppinn með veður, því að einlægar þokur voru um þessar mundir og í hálendi umhverfis Heklu.“ Þorleifur Einarsson skrifaði ítarlega minningargrein um Guðmund og vísindastörf hans í Náttúrufræðinginn 19722. Guðmundur skrifaði alþekkta bók um Heklu fyrir árbókaröð Ferðafélags Íslands 19453.

Skýrsla Guðmundar

Guðmundur sendi Veðurstofunni eftirfarandi skrif um veðráttu í Hekluhraunum dagana 19. júlí til 12. ágúst.


19. júlí, laugard.: Logn og heiðríkja allan daginn, aldrei nein þoka á Heklu. Á Heklu kl. 3 e.h.: N 1, hiti 3,5°.

20. júlí, sunnud.: Skýjað loft, en glaðnaði til um sólarlag, austangola. Þoka á Heklu fram að nóni. Á Tindfjallajökli kl.12 e.h.: N 1, hiti 0°, þokulaust.

21. júlí, mánud.: Léttskýjað og þokulaust á Heklu öðru hvoru, skúrir síðara hluta dags og hvítnaði Hekla þá niður í ca. 1000 m hæð yfir sjó.

22. júlí, þriðjud.: NA 4, þykkt loft og þoka á Heklu allan daginn fyrir ofan 1300 m.h.y.s.

23. júlí, miðvikud.: SA 2, léttskýjað, þokuhjúpur yfir Heklu allan daginn, öðru hvoru þokuslæðingur á öðrum háum fjöllum.

Veður á Heklu 1930
handskrifaðar athugasemdir í stílabók
Mynd 2. Fyrsta síða úr veðurlýsingum Guðmundar Kjartanssonar úr Hekluhraunum í júlí og ágúst 1930.



24. júlí, fimmtud.: Skýjað allan daginn, þoka á háum fjöllum, Hekla hjúpuð þykku skýi oftast niður að rótum (ca 600 ? 700 m.h.y.s.). Á Heklu kl.5 efst (1447 m.h.y.s) SA 7, hiti -0,5°, snjókoma og ökladjúpur snjór nýr, alhvítt niður að 1230 m.h.y.s. að vestanverðu; þar var hitinn kl 5 ½ 2,5°, kl.7 hjá hestaréttinni (770 m.h.y.s.) í þokuröndinni, hiti 5,5°; í Stóraskógsbotnum, (suðvestur af Heklu 330 m.h.y.s.), hiti kl. 8 ½ 9°.

25. júlí, föstud.: A 4, í Stóraskógsbotnum kl. 5, hiti 11°. Hekla hjúpuð skýi allan daginn niður að rótum.

26. júlí, laugard.: SAS 3, í Stóraskógsbotnum kl. 11 hiti 14°. Þétt þoka á Heklu, einkum sunnan- og austaverðri, þar niður í 800 m.h.y.s. til jafnaðar.

27. júlí, sunnud.: Í Stóraskógsbotnum kl. 12, hiti 16,3°, heiðríkt, logn. Þokulaust á Heklu til kl. 3, síðan vaxandi slæðingur, alhjúpuð um sólarlag og nóttina eftir var þoka á fjöllum öllum og hálendi (niður í ca 300 m.h.y.s.) Á Heklu kl. 5, hiti 4,7°, lágmark -3,3°, logn, þokulaust á allra hæsta tindi. Yfirleitt meiri þoka á fjallinu sunnanverðu en norðanverðu.

28. júlí, mánud.: SAS 3. Í Stóraskógsbotnum kl. 12, hiti 15°; kl. 5 hiti 12,5°. Þoka um kvöldið og allan daginn á Heklu.

29. júlí, þriðjud.: S 1. Í Stóraskógsbotnum kl. 10 f.h. 21° hiti; kl. 12, 22,5°. Sólskin fram að hádegi, þykknaði þá upp og var hellirignin[g] síðari hluta dagsins. Allt af þoka á Heklu niður að rótum. Víða þoka um kvöldið niður undir bæi.

30. júlí, miðvikud.: Í Stóraskógsbotnum: S 2, hiti kl. 10 f.h. 20,5°; kl. 5 e.h. 19,5°. Þoka og súld allan daginn sást ekkert til Heklu.

31. júlí, fimmtud.: Léttskýjað framan af deginum, en hellirigning síðara hlutann. Stöðugt sólskin allan daginn að sjá í Árnessýslu og vestur á Esju og Botnssúlur. Í Stóraskógsbotnum kl. 11, SV 1, hiti 9°. Á Heklu kl. 3 ½, NV 4, hiti 2° lágm. -2,2 þoka efst.

Aftur upp

Ágúst 1930


1. ágúst, föstud.: Í Stóraskógsbotnum kl. 11, SV 3 hiti 12,3. Sólskin örðu hvoru til hádegis, síðan þykkt loft. Stöðugt þokuský yfir Heklu.

2. ágúst, laugard.: Í Stóraskógsbotnum: V 2, hiti kl. 10 9,4° kl.12 10,5°, kl.5 9. Þoka á fjöllum yfir 600 m.h.y.s. Sást aldrei til Heklu. Bjartur undir vestrið um kvöldið.

3. ágúst, sunnud.: Í Botnum kl. 6 f.h. N 1, hiti 3,5°, heiðríkt. Á Heklu kl.12: Hiti 2°, lágmark -3,5°, nýfallinn snjór, rifinn saman í skafla, niður í 1100 m.h.y.s. Lítil og þunn þokuslæða efst og nyrzt hélzt allan daginn.

4. ágúst, mánud.: Í Botnum kl. 8 f.h. N 7, hiti 4,2°. Skafheiðríkur allan daginn. Þokulaust á Heklu fyr en um kvöldið dálítill slæðingur efst áveðurs. Nóttina eftir undir Mundafelli (austur af Heklu 750 m.y.s.): N 10 sandbylur. Styrðnaði um sólarupprás.

5. ágúst, þriðjud.: Norðaustur af Heklu: N 8-10, sandbylur og mistur, þoka norðan á Heklu.

6. ágúst, miðvikud.: Norðaustur af Heklu: Alveg sama veður og daginn áður.

7. ágúst, fimmtud.: Í Botnum: Lygndi með morgninum og komið logn um kvöldið þokulaust á Heklu fram að háttatíma.

8. ágúst, föstud.: Svartaþoka um morguninn. Létti þó til og gerði sólskin öðru hvoru. Þokan hélzt á háum fjöllum og huldi alveg Heklu allan daginn.

9. ágúst, laugard.: Í Botnum: Hiti kl. 8 f.h. 7,8° A 4. Gerði logn um sólarlag, skýjað rigning öðru hvoru. Þoka á Heklu einkum áveðurs, en kembdi fram af.

10. ágúst sunnud.: Léttskýjað, skúrir, logn. Á Heklu kl. 11. f.h. hiti 3,5 NA 2. Þokuhetta efst á henni allan daginn, síðari áveðurs.

11. ágúst mánud.: N 1, alheiðríkt nema smáskúrir til fjalla um nónbilið allt af þokul. á Heklu.

12. ágúst þriðjud.: S 2, þoka niður undir bæi.

Þenna tíma, frá 19. júlí til 12. ágúst, hafa því liðið svo sex dagar að einhverntíma á þeim sæist Hekla alveg þokulaus, og þar af aðeins þrír, að þokulaust væri þar allan daginn. Yfirleitt er þokan meiri áveðurs á fjallinu.

Hvammi Hrunamannahrepp 17. ágúst 1930
Guðmundur Kjartansson

Aftur upp

Viðbótarathugasemd Þorkels Þorkelssonar veðurstofustjóra

Einn daginn heyrði G. K. háan brest eða dynk í suðri hjer um bil í stefnu á Tindafjallsjökul, dynkur þessi heyrðist og í Selsundi og Næfurholti í svipaðri átt. Kvað fólk þar slíka dynki eigi óalgenga og nefndi fjallabresti. Þokuloft var um daginn.
Þ.Þ.

Samantekt Guðmundar um veðurfar á Heklu

Í grein sem Guðmundur skrifaði í Náttúrufræðinginn 19311 fjallar hann lítillega um veðurfar á Heklu (s. 53 til 54): „Veðrátta á Heklu er yfirleitt köld og hráslagaleg, eins og eðlilegt er á svo háu og einstæðu fjalli. Í sumar liðu svo ekki nema sex dagar samtals, frá 18. júlí til 18. ágúst, að Hekla sæist þokulaus einhvern tíma dagsins, og á sama tíma aðeins þrír, að þokulaust væri á henni allan daginn. Tvisvar eða oftar snjóaði á hana. Yfirleitt er þokan meiri áveðurs á fjallinu. Sjö sinnum mældi eg hitann efst á fjallinu, oftast á tímanum milli hádegis og nóns. Hitinn mældist vera: 3,5°, -0,5°, 4,7°, 2°, 2° og 3,5°. Lágmarksmælir sýndi -2,1° og -3,5° í þau tvö skifti, sem eg er nokkurn veginn viss um, að ferðafólk úr Reykjavík hefir ekki hreift hann og truflað. Eftir þessum tölum að dæma, er hitamunur dags og nætur ekki mikill, og miklu minni en vant er að vera upp til fjalla. Veldur því sennilega þokuhjúpurinn, sem fjallið sveipast nærri því á hverri nóttu. Hann hindrar hitaútgeislun á næturnar. Annars er rétt að taka það fram, að þann tíma, sem eg var þarna í nágrenninu, var óvenjumikil rosatíð um þessar slóðir, og fyr í sumar sást Hekla skýlaus dögum saman. Í fyrra sumar hefir hún víst eins oft (eða oftar) verið þokulaus og með þoku.“

Tilvísanir

1 Guðmundur Kjartansson frá Hruna, 1931. Frá Heklu og Hekluhraunum. Náttúrufræðingurinn 1, s. 49 til 56.

2 Þorleifur Einarsson, 1972. Guðmundur Kjartansson, minningarorð. Náttúrufræðingurinn 42 (4), s. 145-158.

3 Guðmundur Kjartansson, 1945. Hekla. Árbók Ferðafélags Íslands 1945, 167 s.

Samantekt: Trausti Jónsson

Aftur upp




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica