Greinar
Glitský 20. desember 2004.
Glitský séð frá Miðhúsum við Egilsstaði 20. des. 2004.

Árstíðasveifla glitskýja yfir Íslandi 1964-2002

Tengjast glitský hafískomum?

Trausti Jónsson 6.2.2008

Glitský eru langalgengust í desember og janúar, þau eru einnig algeng í febrúar en þau hverfa af sviðinu þegar líður á marsmánuð. Skýin eru mjög sjaldséð fyrir 10. nóvember.

Tíðnihámarkið fellur saman við þann tíma sem kaldastur er í heiðhvolfinu en skýin myndast trauðla nema hiti fari niður fyrir -75°C, helst niður í 80 stiga frost. Það getur gerst bæði inni á því svæði og á þeim tíma þar sem heimskautamyrkur ríkir, en einnig í uppstreymi sem tengt er fjallabylgjum við jaðar þessa svæðis. Tíðni skýjanna er mjög misjöfn frá ári til árs. Heimildir eru um glitský yfir Íslandi allt frá 17. öld, þau virðast hafa verið nokkuð tíð á 19. öldinni, en um miðja þá 20. er lítið á þau minnst.

Það má telja nokkuð áreiðanlegt merki um að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað ef tíðni skýjanna fer að aukast utan kjörtímans. Þó talið sé að saman fari hnattræn hlýnun í veðrahvolfi og kólnun í heiðhvolfi og að spár geri ráð fyrir aukinni tíðni 80 stiga frosts þarf myndurnartíðni skýjanna innan kjörtímabilsins að aukast umtalsvert til að það geti talist merki um að veðurfarsbreytingar séu að eiga sér stað. Þetta stafar af miklum áraskiptum í tíðninni, eins og minnst var á að ofan.

Árstíðasveifla glitskýja yfir Íslandi
Árstíðasveifla glitskýaathugana
Mynd 2. Árstíðasveifla glitskýjaathugana yfir Íslandi. Myndin sýnir, eftir mánuðum, fjölda daga á 37 ára tímabili þegar getið var um glitský á að minnsta kosti einni veðurstöð. Sjá má að líkur á glitskýjum eru mestar í janúar. Að meðaltali sjást glitský einu sinni í hverjum janúarmánuði en reikna má með því að glitský sjáist að jafnaði tvo til þrjá daga á hverjum vetri.

Til þess að skýin geti sést mega neðri ský ekki skyggja á og því sjást þau einatt í landvindi, sunnanlands í norðanátt, en í suðvestlægum og vestlægum áttum nyrðra og eystra. Veðurskilyrði þau sem mynda skýin eru algengari í suðlægum en norðlægum áttum. Til að fjallabylgjur nái upp í heiðhvolfið þarf vindátt að vera svipuð frá jörð og upp fyrir þá hæð þar sem skýin myndast.

Glitský og veðurathuganir

Mælst er til þess við veðurathugunarmenn að þeir tilkynni í skýrslum sínum um glitský sem þeir sjá. Athuganirnar eru mjög háðar athugunarmönnum og því vísast nokkuð tilviljanakenndar. Sumir eru mjög meðvitaðir um fyrirbrigðið og láta það ekki framhjá sér fara en aðrir geta aðeins um glæsilegustu tilvik og enn aðrir alls ekki. Athuganir glitskýja hafa, allt frá 1964, verið tíundaðar sérstaklega í Veðráttunni. Ekki er vitað hvers vegna skýjanna er ekki getið fyrr og ekki hefur fundist sérstakt erindisbréf til athugunarmanna á því ári eða árinu áður. Hvort tíðni skýjanna hefur aukist um þetta leyti er fremur ólíklegt en ekki útilokað. Til að kanna tíðnina nánar en hér er gert þarf að fletta öllum veðurbókum og er æskilegt að það verði gert fyrr en síðar.

Ísaský?

Glitský eru einnig nefnd perlumóðurský, ísaský eða gylliniský, hið fyrstnefnda er bein þýðing á erlenda heitinu (nacreous). Þau þóttu á árum áður vísa á hafískomur. Í sóknarlýsingum frá Stöð í Stöðvarfirði og á Hofi í Álftafirði er minnst á skýin og boðun þeirra:

Sr. Magnús Bergsson, Stöð
[Á] ýmsum tíðum sjást þar ýmislega lit ský, einkum í frostlítilli norðvestanátt og vestrum eður og í hreinni landátt; kalla menn þetta hafísský og telja vita þess að hafís komi á næsta vori, sjást þessi ský sjaldan fyrr en um miðjan vetur og þar eftir og hefur þetta ei svo ég viti brugðist. (Sýslu- og sóknarlýsingar Múlasýslna s. 450).

Sr. Jón Bergsson, Hofi
Ísaský nefna menn og þvílík sem lýsa mjög ljósum lit og eru sem vindskafin (sama, s. 552).

Tilfinning 19. aldarmanna varðandi tengsl hafíss og glitskýja er ekki alveg út í bláinn. Á Austurlandi benda glitský til þess að eindregin vestanátt sé ríkjandi í háloftunum, en hún breiðir úr ísnum við Austur-Grænland og hraðar myndun hans á glitskýjatíma ársins. Meira var af ís á 19. öld en nú á tímum og vestlægar áttir um miðjan vetur því nokkuð áreiðanleg vísbending um ískomur. Nú, þegar miklu minna er af ís, þarf enn meiri vestanáttir til að koma ís til Íslands en áður og glitskýin því ekki nærri því eins líkleg til að boða ís á útmánuðum eða vori og áður var. Það er þó athyglisvert að tíðni glitskýja virtist aukast eftir 1964 á sama tíma og hafís jókst hér við land og mesta ískoma síðustu ára (2005) kom í kjölfar mikilla glitskýjasýninga.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica