Greinar
Sjálfvirk veðurstöð á Gagnheiði.
Frá Gagnheiði.

Mesti vindhraði á landinu

10-mínútna meðalvindur og 3 sek. hviða

Trausti Jónsson 12.3.2008

Mesti 10-mínútna meðalvindhraði á landinu: 62,5 m/s á Skálafelli 20. janúar 1998 kl. 13.
Mesta 3 sekúndna vindhviða á landinu: 74,5 m/s á Gagnheiði 16. janúar 1995 kl. 4. Þetta veður er gjarnan kennt við snjóflóðið mannskæða í Súðavík.

Nokkur vafi leikur oft á gæðum vindhraðamælinga í mjög miklum vindi. Því valda algengar truflanir í mælingum. Þessar truflanir koma oft frá rafkerfi eða tengjast mikilli ísingu, hvoru tveggja gætir mest þegar veður er hvað verst. Það sem virðast vera miklar hviður eru oftar en ekki rafmagnstruflanir af ýmsu tagi. Þar sem mikið álag er á mælum er hættara við bilunum en ella. Þeir mælar sem mest hafa verið notaðir á fjallstindum hér á landi eru annarrar gerðar en á venjulegum stöðvum og eru líklegri til að fara í yfirsnúning sem kallað er. Á fjallatindum er lóðréttur þáttur vindsins meiri en annnars staðar og blási vindurinn að hluta til upp undir mælinn getur hann farið að snúast hraðar en raunverulegur vindhraði myndi einn valda. Fjallamælar eru líka flestir fremur þungir í snúningi og eru því bæði tregari til að snúast í hægum vindi og snúast lengur eftir að vindhviða hefur gengið yfir heldur en hefðbundnari mælar. Yfirsnúningurinn getur valdið því að vindhviður mælast meiri en er í raun og snúningstregðan því að meðalvindurinn verður meiri en væri á venjulegum mæli. Þetta verður að hafa í huga þegar fjallað er um mælingar á mesta vindhraða á landinu.

Gagnheiði
Sjálfvirk veðurstöð á Gagnheiði.
Mynd 2: Sjálfvirk veðurstöð á Gagnheiði 4. mars 2004. Horft í suðvestur og sér í Lagarfljót til hægri. Ljósmynd: Sigvaldi Árnason.


Ekki er alltaf jafnljóst hvað átt er við þegar talað er um vindhviðu. Þeir mælar sem algengastir eru teljast næmir niður í hviður sem standa í 3 sekúndur, en flestir mælar Vegagerðarinnar mæla einnar sekúndu vind. Ekki er vitað hvert almennt styrkleikahlutfall 3 s og 1 s hviðu er og er það einnig háð staðháttum. Mælar Veðurstofunnar eru allir í 10 m hæð yfir jörðu, en flestir mælar Vegagerðarinnar í um 6 m hæð. Vegna hæðarmunarins ættu mælar Veðurstofunnar að sýna ívið hærri meðalvind en mælar Vegagerðarinnar, en vegna hviðunæmis ættu Vegagerðarmælar að sýna ívið hærri hviðugildi en Veðurstofumælarnir.

Þau met sem hafa hlotið eins konar opinbera viðurkenningu sem mesti 10-mínútna meðalvindhraði og mesta vindhviða þykja sannfærandi mælingar. Svipaður vindhraði mældist á Skálafelli 17. febrúar 2003 en þá fór 10-mínútna vindur í 63,9 m/s og hviða í 76,5 m/s. Má vera að þessi mæling sé rétt.

Stöku hærri mælingar aðrar eru taldar vafasamar - en ekki alveg hægt að afskrifa þær. Er einkum um einstakar hviður að ræða. Áreiðanleiki þessara athugana kemur betur í ljós þegar meira safnast af gögnum frá viðkomandi stöðvum og betra yfirlit fæst yfir tíðni slíkra atburða og samspil þeirra við aðstæður á hverjum stað.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica