Greinar
fellibyljabrautir
Fellibyljabrautir 1985 til 2005.

Fellibyljir 2

Styrkur fellibylja

Trausti Jónsson 22.7.2008

Fellibyljasvæði jarðarinnar

Kortið sýnir helstu fellibyljasvæði jarðarinnar, skæðastir og algengastir eru þeir á Kyrrahafi vestanverðu, norðan miðbaugs, frá dægurlínunni vestur til Filippseyja og Suður-Kína og norður til Japans. Á þessu svæði myndast að meðaltali um 20 fellibyljir á ári. Heldur færri, eða 10-12, myndast austan til á Kyrrahafi undan ströndum Mexíkó. Fellibyljir eru einnig mjög skæðir á Kyrrahafi sunnan miðbaugs, norðaustan Ástralíu og austur fyrir dagalínuna. Á Indlandshafi eru fellibyljir algengastir sunnan miðbaugs, norðvestur af Ástralíu og vestur fyrir Madagaskar. Að meðaltali myndast um sex fellibyljir á ári á Atlantshafi, frá V-Afríku allt til Mexíkóflóa í vestri og norður undir Bermúda.

Öll þessi svæði eiga það sameiginlegt að þar er yfirborðshiti sjávar hár, meiri en 26°C, að minnsta kosti hluta ársins. Þau eru einnig utan 5° fjarlægðar frá miðbaug og í suðurjaðri staðvindabeltanna. Fullvaxta fellibyljir geta haldið einkennum sínum um stund þar sem sjávarhiti er lægri, en tapa þeim fljótt yfir kaldari sjó. Þeir lifa aðeins skamma hríð yfir landi.

Í höfum hitabeltisins er hlýjasti sjórinn oft aðeins þunnt lag sem liggur ofan á betur blönduðum kaldari sjó. Fárviðri fellibyljanna og öldugangurinn sem þeim fylgir blandar hlýjasta sjónum gjarnan saman við þann sem næst undir liggur. Þetta hefur þær afleiðingar að sjávarhiti undir fellibylnum lækkar þannig að lífsskilyrði hans versna, sérstaklega ef hann situr á sama stað. Slóði af köldum sjó sést oft í kjölfari fellibylja á hitamyndum sem teknar eru úr gervihnöttum.

Skilgreiningar

Hringrásin er eins og í venjulegum lægðum, andsólarsinnis, á norðurhveli er þrýstingur lægstur til vinstri við þann sem snýr baki í vindinn. Samkomulag er um að slík lægð kallist ekki fellibylur nema einnar mínútu meðalvindhraði nái a.m.k. 32,7 m/s (63,6 hnútar = 12 vindstig) í 10 m hæð yfir jörð einhvers staðar á áhrifasvæði lægðarinnar. Nái meðalvindhraði ekki þessu marki, en er þó yfir 17 m/s kallast lægðin hitabeltisstormur og fær þá sérstakt nafn. Veikari hitabeltislægðir eru nafnlausar, en fá númer séu þær hugsanlegir vísar öflugari lægða.

Stærð og umfang

Fellibyljir eru að jafnaði minni um sig en lægðir hér á norðurslóðum, gjarnan á bilinu 100 til 1100 km í þvermál, meðalstærð nokkuð misjöfn eftir heimshlutum. Fárviðrið takmarkast við fremur lítið svæði rétt utan við miðju kerfisins. Hringrás fellibylja getur náð upp í meir en 16 km hæð og er ætíð sammiðja að kalla, þ.e. miðja hennar í háloftum er beint yfir miðju niður undir sjó. Þetta er mjög ólíkt flestum lægðum á norðurslóðum. Skýjakerfið er sambreyskja mjög hávaxinna klakka og fylgja því mikil þrumuveður, eldingar og stundum skýstrokkar.

Styrkskilgreining

Tjón sem fellibyljir geta valdið vex mjög með vaxandi vindhraða. Fellibylur þar sem mesti meðalvindhraði er 70 m/s veldur margföldu tjóni á við annan þar sem mesti vindhraði er 35 m/s. Umfang viðbragða ræðst því af hugsanlegum styrk þegar fellibylurinn gengur á land. Af hagkvæmnisástæðum hefur verið búinn til fimmskiptur kvarði um styrk byljanna og áhrif þeirra. Auðveldara er að muna þessi stig fremur en vindhraðabil.

Saffir-Simpson-kvarðinn

Stiginn er kenndur við vísindamennina Saffir og Simpson, Saffir-Simpson-kvarðinn. Upplýsingar hér að neðan eru lítillega stytt þýðing á lýsingu sem finna má á vefsíðum bandarísku fellibyljamiðstöðvarinnar í Miami. Vindhraðinn sem miðað er við er 1-mínútu meðatal. Hér á landi er ætíð miðað við 10-mínútna meðaltal vinds. Hlutfall einnar mínútu meðaltalsins og þess 10-mínútna er sennilega á bilinu 1,03 til 1,15.

Styrkur 1
Vindhraði 32 til 42 m/s (64-82 hnútar). Sjávarstaða yfirleitt 1,3 til 1,5 m yfir meðallagi. Lítið tjón á byggingum, en hjólhýsi, tré og veigalítil umferðarmerki geta orðið illa úti. Minniháttar sjávarflóð og tjón á lausum bryggjum.

Styrkur 2
Vindur 43 til 49 m/s (83-95 hnútar). Sjávarstaða yfirleitt 2 til 2,5 m yfir meðallagi. Þakplötur fjúka af sumum húsum, tjón verður einnig á gluggum og lélegum dyraumbúnaði. Tré skemmast og sum falla til jarðar. Hjólhýsi, veigalítil umferðarmerki og lausar bryggjur skemmast mikið. Minni skip og bátar, sem lagt er við ströndina utan hafna, slitna upp.

Styrkur 3
Vindhraði 50 til 67 m/s. Sjávarstaða yfirleitt 3 til 4 m yfir meðallagi. Sum íbúðarhús og minna atvinnuhúsnæði skaddast og sumir lausir veggir falla saman. Stór tré falla til jarðar. Hjólhýsi og mörg umferðarmerki eyðileggjast. Sjávarflóð eyðileggja minni mannvirki og tjón verður á stærri mannvirkjum vegna álags frá braki úr þeim sem eyðileggjast. Sjór getur flætt 10 til 12 km inn í land á svæðum sem liggja minna en 2 m yfir sjávarmáli.

Styrkur 4
Vindhraði 68 til 80 m/s. Sjávarstaða yfirleitt 4 til 6 m yfir meðallagi. Mörg minni íbúðarhús hrynja. Tré rifna upp með rótum, öll umferðarmerki falla. Hjólhýsi gjöreyðileggjast. Mikið tjón á gluggum og dyrabúnaði. Meiriháttar tjón á lægstu hæðum sterkra bygginga nærri ströndinni. Rýma þarf íbúðarsvæði allt að 10 km frá ströndinni.

Styrkur 5
Vindhraði yfir 80 m/s. Sjávarstaða yfirleitt meir en 6 m hærri en að meðallagi. Þak tekur af mörgum íbúðarhúsum og atvinnuhúsnæði. Sum hús gjöreyðileggjast og fjúka í heilu lagi. Hjólhýsi gjöreyðileggjast og mikið tjón verður á gluggum og dyrabúnaði vel byggðra húsa. Nær öll tré rifna upp með rótum, öll umferðarmerki falla. Meiriháttar tjón við ströndina vegna flóða. Rýma þarf íbúðarhúsnæði allt að 16 km frá ströndinni.

Veðurkort Morgunblaðsins 14. október 1963 (Jón Eyþórsson)
Flóra 1963
Fellibylurinn Flóra komst langleiðina til Íslands haustið 1963 og olli minniháttar tjóni. Þakplötur fuku suðvestanlands, skúr fauk um koll og tré brotnaði. Skelfilegt tjón varð í Karabíska hafinu, bæði á Hispanjólu og Kúbu.


Dvorak-kvarðinn

Notast er við svonefnda Dvorak-aðferð til að meta styrk hitabeltislægða út frá útliti þeirra á hitamyndum sem teknar eru úr gervihnöttum. Styrkurinn er þá metinn í átta flokka. Erfitt getur verið að meta styrk lægðar úti á reginhafi þar sem athuganir eru fáar eða engar. Skipulag uppstreymis og augans er metið, hiti á efra borði skýja og sömuleiðis útflæði efst í fellibylnum. Ekki má rugla Dvorak-kvarðanum saman við Saffir-Simson-kvarðann, en sá fyrrnefndi er aldrei notaður í aðvörunum þó hans sé oft getið í yfirlitsskeytum fellibyljamiðstöðva.

Dálkafyrirsagnir:

D-tala = Dvorak-talan. Vindhraði í hnútum (1 mínútu meðaltal). Þrýstingur í lægðarmiðju í hPa. SS-tala = Saffir-Simpson-kvarði (sjá að ofan).

D-tala vindhr. hn) þrýstingur SS-tala
1 25
1,5 25
2 30 1009
2,5 35 1005
3 45 1000
3,5 55 994
4 65 987 1
4,5 77 979 1
5 90 970 2
5,5 102 960 3
6 115 948 4
6,5 127 935 4
7 140 921 5
7,5 155 906 5
8 170 890 5

Augað

Í miðju fellibylsins er svæði með niðurstreymi, svokallað auga, og er vindur þar hægur og jafnvel sést til sólar. Vindur er að jafnaði hvassastur næst auganu, í vegg þess, sem kallað er. Hámark vindsins er í 1 til 3 km hæð, en neðar eru núningsáhrif yfirborðs nokkur, ofar dregur úr vindi og allra efst er hringhreyfingin mun flóknari en neðar, sambland af hæða- og lægðahringjum. Þar er þrýstingur hærri en umhverfis. Vindur er oftast ekki alveg samhverfur um augað, heldur er hann gjarnan mestur u.þ.b. 45 til 90 gráður til hægri við hreyfistefnu fellibylsins (á norðurhveli). Augað er gjarnan 20 til 40 km í þvermál.

Augað sést vel á gervihnattamyndum og er til marks um þroska kerfisins. Ekki er beint samband milli stærðar fellibylsins og hámarksvindhraða í honum, en breytingar á þvermáli augans gefa til kynna hvort hann er að styrkjast eða ekki, því stærð þess breytist á líftíma fellibylsins. Sé hann að styrkjast, þrengist augað tímabundið. Þegar það hefur náð jafninnarlega og ákefð uppstreymisins, sem knýr fellibylinn, leyfir myndast gjarnan annað stærra utan við það fyrra sem þá eyðist. Þá slaknar tímabundið á styrk veðursins, talað er um augnveggjaskipti (eye wall replacement cycle), lipurlegra væri að kalla þetta augnskipti á íslensku. Augað hreyfist sjaldan í alveg beina stefnu heldur í smáslaufum og vegna þess að verstu vindstrengirnir umhverfis það eru aðeins nokkrir tugir km að umfangi er býsna tilviljanakennt hvar þeir fara yfir. Þegar saman koma slaufuhreyfing og veggjaskipti vill verða erfitt að spá nákvæmlega hvar veðrið verður verst, ef fellibylurinn stefnir á land.

Framhald

Meira má fræðast um fellibylji í næstu fróðleiksgrein.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica