Greinar
Bréf frá Þórshöfn 1921
Bréf Vigfúsar.

Veðurmerki við Þistilfjörð 1921

Af gömlum blöðum

Jóhanna M. Thorlacius 21.11.2008

Eftirfarandi bréf um veðurmerki við Þistilfjörð er í fórum Veðurstofunnar. Vigfús Kristjánsson þáverandi veðurathugunarmaður á Þórshöfn á Langanesi ritaði. Gunnólfsvíkurfjall er í stefnuna austur og austsuðaustur frá Þórshöfn séð, en Rakkanes er austast á Melrakkasléttu, í norðvestur, séð frá Þórshöfn. Hér er stafsetning að mestu færð til nútímahorfs, sömuleiðis beiting há- og lágstafa og greinarmerkjasetning að mestu leyti.

Veðurmerki

Blika í suðvestri, meira og minna úrfelli, og ef sér á bakka í hafi og drífur blikuna á bakkan þá á ég von á meir enn viku ótíð af norðaustri bæði sumar og vetur. Blika í suðri og móða með virðist mér boða stórkosklega skúri í lengri tíma, oftast þá hlý veður. Blika í NV boðar SA hláku og regn ef SA þokubakki er með.

Ef þokuhnoðra setur á Gunnólfsvíkurfjallstopp þó sumar sé og fagurt veður þá boðar sú þoka norðanveður í lengri eða skemri tíma.

Ef óþurkar hafa gengið að sumrinu og við sjáum í heiðskíra rifu við Rakkanesið eða yfir því og sú heiðríkja færist suður á bóginn áður enn hún færist upp á himininn eigum við von á þurrki. Móða í hafi boðar úrkomu af hafi.

Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni og í fullu vestri skín, mér virðast öll gylliniský vita á úrkomu. Úlfakreppa og rosabaugar um sól og tungl boða langstæða rosatíð. Hafgall sést örsjaldan fyrir harðindum á vetrum boðar minnst mánaðar harðindi. Hafgallið þekkja örfáir hér um slóðir.

Hvítir þokuhnoðrar og þ.bakki á Langanesfjöllum veit á úrkomu og storm. Ísaský sjást hjer í desember og janúar. Þegar þau sjást stundum sér maður 1 eða 2 smáský þessi og stundum sem næst ¾ hluta lofts þakið ísaskýum. Aldrei sjást þau eins vel og í ofsa suðvestanhláku, léttskýjuðu lofti og hægu frosti á eftir, sé þá þunnskýjaður himin. Skýin bera ýmsan fegurðarlit, mest ber á silfurgljáandalitnum þessi ský segi ég að sjáist mikil undan miklum ís og lítil undan litlum ís.

Morgunroði vætir, kvöldroði bætir. Tunglkomur. Tunglfylling og kvartilaskifti höfðu gamlir menn mikla trú á til veðurbreytingar. Mér finnst veðrið lítið fara eftir því nema helst yfir skammdegið, en eftir að sól fer að hækka á lofti þá finnst mér ekkert að marka tunglið til veðurbreytingar.

Nú held ég hætti að skifa meira af þessu, því eg býst ekki við að þið getið tínt neitt gagnlegt úr þessu sem komið er á þessa miða.

Virðingarfyllst

Þórshöfn 29 Júlí 1921
Vigfús Kristjánsson

Nokkrar skýringar:

Ísaský eru nú að jafnaði kölluð glitský eða perlumóðurský. Ekki er alveg ljóst hvað hafgall er. Flest bendir þó til þess að það sé gíll (aukasól) sem sést við hafsbrún, oft með regnbogalitum. Sumir telja að hafgall sé beinlínis endi á regnboga. Þessi fyrirbrigði eru þó oftast í gagnstæðum áttum á himninum. Regnbogi sést aðeins sé litið í átt frá sól, en langflestir gílar (aukasólir) sjást til hliðar, beint undir eða beint yfir sólu.

Vigfús Kristjánsson var veðurathugunarmaður á Þórshöfn á árunum 1918 til 1922.

Trausti Jónsson

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica