Greinar
Þoka á Látrabjargi
Þoka yfir Látrabjargi.

Árið 2008

Tíðarfarsyfirlit

Trausti Jónsson 7.1.2009

Veðurfar á árinu var lengst af hagstætt. Sumarhelmingur ársins, frá maí til og með september var óvenjuhlýr um landið sunnan- og vestanvert. Tíð var einnig góð á þessum tíma norðan- og austanlands að öðru leyti en því að júní var þar fremur kaldur og drungalegur.

Árshitinn var vel yfir meðallagi á landinu og er þetta 13. árið í röð með hita yfir meðallagi í Reykjavík og það tíunda á Akureyri. Árið var hið 17. hlýjasta frá upphafi samfelldra mælinga í Reykjavík (1870), 14. hlýjasta árið í Stykkishólmi (mælingar frá 1845) og 22. hlýjasta á Akureyri (mælingar frá 1882). Hlýjast var að tiltölu um norðvestanvert landið, en einna kaldast suðaustanlands og sums staðar á Austurlandi.

Úrkoma var nærri meðallagi norðan- og austanlands, en yfir því um sunnan- og vestanvert landið. Mest var úrkoman að tiltölu við Breiðafjörð og víða á Vestfjörðum. Árið byrjaði með mikilli úrkomutíð en þurrviðrasamt var framan af sumri. Mikið rigndi síðan í september. Úrkomudagafjöldi var víðast nærri meðallagi á landinu þó úrkomudögum hafi verið venju fremur misskipt á mánuði.

Snjór var ívið meiri en verið hefur frá aldamótum en náði þó rétt í meðaltal áratuganna þar á undan. Alhvítir dagar í Reykjavík voru 64 og er það 9 dögum meira en að meðaltali 1961 til 1990, en í tæpu meðallagi sé miðað við 1971 til 2000.

Í Reykjavík mældust 1463 sólskinsstundir og er það 195 stundum umfram meðallag. Mestu munaði um óvenjusólríkan júnímánuð. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 1089 og er það 44 stundum umfram meðallag.

Illviðri voru álíka tíð og árin næstu á undan. Þessi ár hafa hins vegar verið fremur illviðrarýr í langtímasamhengi.

Aftur upp

Meðaltöl og summur 2008

hiti vik úrk % sólskin vik
Reykjavík 5,3 1,0 932,0 117 1463 194,5
Stykkishólmur 4,7 1,2 902,6 128
Bolungarvík 4,1 1,2 916,2
Akureyri 4,2 0,9 507,7 104 1089 44,1
Egilsstaðir 3,6 0,6
Dalatangi 4,4 1,0 1364,1 97
Höfn í Hornafirði 5,0 0,4 1352,9 106
Stórhöfði 5,5 0,7 1797,3 113
Hveravellir 0,0 1,1


Dálkaskýringar: Hiti - meðalhiti ársins í °C, vik - vik ársmeðalhita frá meðaltali áranna 1961 til 1990. Úrk - úrkomusumma ársins í mm. % - hlutfall af meðalúrkomu áranna 1961-1990 í prósentum. Sólskin - sólskinsstundafjöldi, vik - vik sólskinsstundafjöldans frá meðaltalinu 1961-1990.  

Stutt yfirlit um einstaka mánuði og árstíðir

Umhleypingasamt var í janúar og þótt snjór væri hvergi mikill var hann samt til trafala við samgöngur. Nokkur illviðri gengu yfir landið, verstu veðrin gerði á nýársnótt og síðan 22., 27. og 31. Minniháttar tjón varð í þessum veðrum en töluverðar samgöngutruflanir.

Tíðarfar í febrúar var víðast talið óhagstætt og jafnvel mjög óhagstætt til sjávarins. Illviðri voru tíð, einkum fyrir miðjan mánuð, og víða var talsverður snjór á jörðu. Snjór var meiri sunnanlands en algengt hefur verið síðustu árin. Illviðrasamt var með köflum, versta áhlaupið gerði dagana 8. til 9. Víða varð tjón í veðrinu, bæði af völdum hvassviðris og asahláku.

Mars var ívið kaldari og snjóasamari en marsmánuðir síðustu ára. Snarpt en skammvinnt norðanskot gerði á skírdag (þann 20.) en að öðru leyti var veður meinlítið lengst af. Óvenjumikið snjóaði í Vestmannaeyjum annan dag mánaðarins og mældist snjódýptin á Stórhöfða 65 cm að morgni þess 3. og hefur ekki mælst meiri þar síðan 21. mars 1968. Þá var hún 90 cm.

 

Vik einstakra mánaða frá meðaltalinu 1961-1990
Hitavik 2008
Október var eini mánuður ásins sem var kaldur á báðum stöðvunum. Áberandi er hvað tímabilið maí til september var hlýtt í Reykjavík (bláar súlur), en kalt var á Akureyri í júní. Þó hlýtt væri á Akureyri í september var talsvert hlýrra þar í sama mánuði 1996.
Aftur upp

Vor og sumar

Aprílmánuður var lengst af hagstæður. Hann var fremur úrkomulítill og vindáttin var yfirleitt austan- eða norðaustanstæð. Í Stykkishólmi var hann sá þurrasti frá 1951. Nokkuð hvasst varð víða um land í byrjun mánaðarins og einnig síðustu daga hans. Hlýtt og góðviðrasamt var í maí, mjög ólíkt því sem verið hefur á undanförnum árum. Þetta var hlýjasti maí í Reykjavík og víða suðvestanlands frá 1960 að telja, en í Stykkishólmi sá næsthlýjasti frá upphafi samfelldra mælinga þar, 1845. Nokkru hlýrra varð 1935, en litlu munar á maí 1946. Á Stórhöfða var maí sá hlýjasti frá 1947. Um norðaustan- og austanvert landið var maí yfirleitt sá hlýjasti frá 1991. Vorkoman varð óvenjusnögg að þessu sinni.

Norðaustlæg átt var ríkjandi í júní og veðurlag dró dám af því. Hlýtt var um sunnan- og vestanvert landið og hiti vel yfir meðallagi. Hiti var lítillega yfir meðallagi við sjóinn á Norðaustur- og Austurlandi, en undir því inn til landsins á þeim slóðum. Mjög þurrt var vestanlands og einnig víða um sunnanvert landið og vatnsskortur sums staðar til ama. Óvenjusólríkt var sunnanlands, m.a. í Reykjavík þar sem sólskinsstundir mældust 313, og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri í júní.

 

Mjög hlýtt var í júlí, sérstaklega síðustu 10 dagana, og voru þá hitamet slegin víða um land. Í Stykkishólmi var júlí sá hlýjasti frá 1933 og í þriðja sæti frá upphafi mælinga, á eftir 1880 sem er í öðru sæti. Góðviðrasamt var í mánuðinum að undanteknu óvenjusnörpu landsynningsveðri þann 1. Það veður olli tjóni sums staðar sunnanlands.

Hiti var óvenjulegur um sunnan- og vestanvert landið í mánuðunum maí til júlí og í Reykjavík voru þessir þrír mánuðir samtals þeir hlýjustu frá upphafi mælinga, en munur á sömu mánuðum 1933, 1939 og 1941 og nú er þó varla marktækur. Í Stykkishólmi er það aðeins í maí til júlí 1933 sem var hlýrra en nú. Þar hefur verið mælt í yfir 160 ár.

Hitabylgja

Óvenjulega hitabylgju gerði síðari hluta júlímánaðar og hitamet voru slegin allvíða, m.a. mældist hiti á Þingvöllum 29,7 stig þann 30. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri stöð hér á landi frá upphafi slíkra mælinga. Ný met voru einnig sett í Reykjavík sama dag þegar hitinn á mönnuðu stöðinni fór í 25,7 stig og 26,4 stig á þeirri sjálfvirku. Hvoru tveggja er hærri hiti en mest hefur mælst áður. Mönnuð stöð hefur verið í Reykjavík samfellt frá 1870, en hámarksmælingar eru ekki til frá öllum þeim tíma. Líklegt er þó að nýja talan sé hærri en annars hefur orðið á öllu þessu tímabili. Nýtt hitamet var einnig sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (21,6 stig) en þar hefur verið mælt samfellt frá 1921.

Veðrátta í ágúst var hagstæð um land allt. Nokkuð hvasst var þó þann 29. Hlýtt var í september, en nokkru hlýrra var þó fyrir tveimur árum. Mjög úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið og var um metúrkomu að ræða á fáeinum stöðvum, en mjög mikil úrkoma var einnig í september 2007. Aldrei hefur jafnmikil úrkoma mælst í september í Stykkishólmi frá því að úrkomumælingar hófust þar haustið 1856. Úrkoman varð áköfust 16. til 17., en þá gerði einnig skammvinnt hvassviðri.


Sólskinsstundir sumarsins mældust 786 í Reykjavík og varð sumarið í sjöunda sæti reykvískra sólarsumra, en hið fjórða sólríkasta frá upphafi mælinga á Akureyri.

 

Hlutfall úrkomu af meðaltalinu 1961-1990 í Reykjavík og á Akureyri
Úrkoma 2008
Hinn voti september er sérlega áberandi í Reykjavík (bláar súlur) og sömuleiðis hinn þurri júní á sama stað. Febrúar var úrkomusamur á báðum stöðvum.
Aftur upp

Haust

Rétt eins og vorið kom snögglega bar haustið einnig brátt að. Hlýtt var í veðri í annarri viku október, en annars var mánuðurinn kaldur og snjór heldur meiri og þrálátari en venjulegt er á þessum tíma árs. Meðal annars varð alhvítt víða sunnanlands í fyrstu vikunni. Seint í mánuðinum gerði mikið brim við norðurströndina. Nóvember var nokkuð umhleypingasamur en tíð þó lengst af hagstæð. Norðanillviðri gerði þann 27.

Veður voru lengst af meinlítil í desember, þó gerði snarpt landsynningsveður þann 11. Víða var talsverður snjór, meiri en á sama árstíma um nokkurra ára skeið. Skömmu fyrir jól gerði mikla hláku og í henni tók snjó upp að mestu og var hlýtt til ársloka.

Útgildi 2008

Landið:

Hæsti hiti (sjálfvirkar stöðvar): 29,7°C Þingvellir 30. júlí

Hæsti hiti (mannaðar stöðvar): 28,8°C Hjarðarland 30. júlí

 

Lægsti hiti (sjálfvirkar): -30,3°C Veiðivatnahraun 2. febrúar

Lægsti hiti í byggð (sjálfvirkar): -26,3°C Neslandatangi við Mývatn 14. desember

Lægsti hiti í byggð (mannaðar): -22,7°C Grímsstaðir 14. desember

 

Mesta sólarhringsúrkoma (sjálfvirkar stöðvar): 201 mm Ölkelduháls 17. september

Mesta sólarhringsúrkoma (mannaðar stöðvar): 197,0 mm Nesjavellir 17. september

Ölkelduháls er ekki fjarri Nesjavöllum.

 

Hæsti loftþrýstingur: 1045,7 hPa Hveravellir 5. apríl kl. 4

Lægsti loftþrýstingur: 945,7 hPa Gjögurflugvöllur 23. október kl.19:30

 

Reykjavík:

Hæsti hiti: 25,7°C 30. júlí

Lægsti hiti: -14,4°C 2. febrúar

Mesta sólarhringsúrkoma: 38,8 mm 17. september

 

Akureyri:

Hæsti hiti:  24,8°C 30. júlí

Lægsti hiti: -13,1°C 2. febrúar

Mesta sólarhringsúrkoma: 25,9 mm 23. október

 

Samfelldar hámarks- og lágmarksmælingar hafa verið gerðar á báðum stöðvum frá og með 1929. Á þessu tímabili hefur það gerst sex sinnum að hámarkshiti ársins í Reykjavík hefur verið hærri heldur en á Akureyri og þrisvar sinnum að lægsti hiti ársins hefur verið lægri í Reykjavík en á Akureyri. Nú gerðist það í fyrsta sinni að bæði útgildin féllu til Reykjavíkur.  

Aftur upp




Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica