Greinar
dalurinn Brandi og hvilftarjöklar
Dalurinn Brandi í Eyjafirði gengur til vesturs inn úr Djúpadal.

Bók um nöfn á íslenskum jöklum

Geographic Names of Iceland's Glaciers

Oddur Sigurðsson 6.2.2009

Haustið 2008 kom út hjá U.S. Geological Survey í Bandaríkjum Norður-Ameríku í samstarfi við Vatnamælingar Orkustofnunar bókin Geographic Names of Iceland's Glaciers: Historic and Modern eftir Odd Sigurðsson og Richard S. Williams, Jr.

Í bókinni eru talin upp öll örnefni sem íslenskum jöklum hafa verið gefin, hvar þau er að finna og birt mynd af öllum íslenskum jöklum sem hafa verið nefndir. Leitað var fanga í útgefnum kortum, bókum, fræðitímaritum og annars staðar sem líklegt var að finna jökla nefnda. Þó að jöklar séu nefndir í íslenskum fornritum eru flest jöklanöfn nýtilkomin, einkum eftir 1890 er Þorvaldur Thoroddsen hóf útgáfu sinna rita.

Í bókinni koma fram 269 jöklanöfn sem notuð hafa verið nýlega. Eiga þau við 14 hveljökla, 2 jökulhvel innan annarra jökla, 109 skriðjökla frá hveljöklum, 8 ísasvið á Hofsjökli, 3 ísstrauma, 55 skálarjökla, 73 fjalljökla og 5 daljökla. Kort eru af öllum jöklum landsins. Einnig er að finna með heiti 38 fannir sem ekki eru jöklar og 14 aurhrúgöld frá miklum jökulhlaupum sem hafa fengið jökulsnafn.

Í þeim hlýindum sem gengið hafa yfir heiminn undanfarna öld hafa 6 nefndir jöklar horfið sem slíkir. Allmargra nafna er getið sem eru úrelt eða henta síður en önnur nýrri. Samtals er því 536 jöklanafna getið. Þau nöfn, sem eru metin æskilegri en önnur, eða hafa fengið einhverskonar viðurkenningu, eru feitletruð í bókinni. 21 jökull hefur greinst til svokallaðra framhlaupsjökla og eru nöfn þeirra undirstrikuð.

Á kortum sem hingað til hafa komið út eru jöklanöfn allmikið á reiki. Með þessari bók kemst vonandi á festa í örnefnum íslenskra jökla og tvímæli tekin af en slík óvissa getur verið mjög bagaleg. Jafnvel geta mannslíf verið í hættu ef ruglingur er á örnefnum.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica