Greinar
úr gfdex-flugi
Í flugvél gfdex-verkefnisins í febrúar 2007

Þorraþing 2009 - ágrip erinda

Veðurfræðifélagið

Trausti Jónsson 12.2.2009

Allir eru velkomnir á fræðaþing og fræðafundi Veðurfræðifélagins.

Eftirfarandi eru ágrip erinda á Þorraþingi í febrúar 2009 í Víðgelmi í Orkugarði.

Seltuveður 18. september 2008 og tegundir seltuveðra suðvestanlands

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur
18. september gerði allhvassa SV-átt með nokkurri seltumóðu í lofti suðvestanlands. Hægt var að rekja þurrt loftið ofan af Grænlandi og í lægri lögum var það komið yfir Grænland frá Labrador. Eins og svo oft áður urðu truflanir í raforkuflutningskerfinu og m.a. varð skammhlaup í Brennimel í Hvalfirði og 300 MW álag leysti út. Ekki er mikil þekking á uppruna seltu í þessum veðrum annað en það að vitað er að saltið kemur vitanlega úr sjónum. Hluti þess berst í loftið í brimi við Reykjanes og með suðurströndinni, en minna er vitað um þátt mikillar veðurhæðar á rúmsjó þegar sjór tekur að rjúka í verulegum mæli og saltagnir verða eftir við uppgufun.

Úrkoma í grennd, dægur-, árstíða- og langtímasveiflur

Trausti Jónsson veðurfræðingur
Höfundur hefur eytt nokkru púðri í rannsókn á veðurorðinu ww í SYNOP-skeytalyklinum. Hérlendis á orðið sér nú um 80 ára sögu, merking sumra talnagildanna breyttist nokkuð 1949 og 1982 varð einnig óþægileg breyting á lyklinum. Veðurfyrirbrigðin sem lykilorðið á að lýsa eiga sér dægur-, árstíða- og langtímasveiflur. Orsakir flestra þeirra eru auðskildar en þær torskildu eru yfirleitt kenndar vondum athugunarmönnum, hvort sem þeir eiga sök eða ekki. Úrkoma í grennd er hér tekin sem dæmi um veðurfyrirbrigði sem lykilorðin lýsa. Ástæða valsins er einkum sú að fljótlegt er að greina frá niðurstöðum.

Eyður í mælingarunum og mat á samdreifnifylki Gauss-dreifingar

Kristján Jónasson stærðfræðingur
Undanfarin þrjú ár hef ég verið að skrifa forrit í Matlab og C til að reikna sennileikafall fyrir svonefnd eiginaðhvarfslíkön af tímaröðum sem vantar inn í. Oft er táknunin VARMA(p,q) notuð til að lýsa þessum líkönum, þar sem p er fjöldi eiginaðhvarfsliða og q er fjöldi hreyfimeðaltalsliða. Sértilvikið p = q = 0 svarar til þess að fyrir liggi úrtak fengið með Gauss-dreifingu, og í ljós hefur komið að það er ekki erfitt að laga forritin að þessu tilviki. Þar með sé ég fram á að brátt rætist gamalt markmið frá árinu 1994, sem er að geta með sjálfvirkum hætti fyllt upp í meðaltalsrunur veðurmælinga (t.d. hita) frá veðurstöðvum þar sem mælt hefur verið á mismunandi tímabilum.

Tóbínhöfðaröstin

Haraldur Ólafsson veðurfræðingur
Tóbínhöfðavindröstin var mæld í mars 2008. Hitahvarf var í um 900 hPa hæð og í grennd við hitahvarfið var bálhvasst. Þar fyrir ofan og neðan var mun hægari vindur. Hitahvarfið hallar til austurs og það gerir vindröstin líka. Svo hvasst er að þegar vindurinn skellur á hinu 3700 m háa Gunnbjarnarfjalli kemst mest af loftinu yfir fjallið, en við það verður mikil lóðrétt blöndun.

GFDex þá og nú: Litið um öxl og svo arkað fram

Guðrún Nína Petersen veðurfræðingur
Nú eru liðin tvö ár síðan hópur veðurfræðinga settist að í Keflavík í 3 vikur og stóð fyrir rannsóknaflugi á Íslands-Grænlandssvæðinu. Það er því ekki úr vegi að líta aðeins um öxl og rifja upp hvað fór fram á þessum þremur vikum. Í framhaldi verður stiklað á stóru um þá vinnu sem fór fram í framhaldi af vettvangskönnuninni og hvar við stöndum í dag.

Ógleði í flugi austan Öræfajökuls

Hálfdán Ágústsson veðurfræðingur
Þann 18. nóvember síðastliðinn lenti vél flugfélagsins Ernis í mikilli ókyrrð austan Öræfajökuls á leið sinni til Hafnar í Hornafirði. Engin viðvörun um ókyrrð hafði verið gefin út fyrir svæðið og flugmennirnir höfðu aldrei lent í viðlíka ókyrrð á flugleiðinni. Vindur var hvass og áttin vestlæg. Lofthjúpsreikningar í hárri upplausn sýna fjallabylgjur sem myndast í lofthjúpnum austan og sunnan Öræfajökuls og gætir þeirra langt út á haf. Flugleið vélarinnar lá í gegnum bylgjurnar en afar hvasst er í niðurstreyminu í hverjum bylgjudal en mikil ókyrrð undir bylgjutoppunum.

Tíðindi af hlélægð Grænlands

Sigurður Þorsteinsson veðurfræðingur
Kynntar eru HIRLAM keyrslur af djúpri lægðamyndun við SA strönd Grænlands 2.-3. mars 2007. Markmið rannsóknanna er að skilja orsakaþætti fjalllendis í lægðamynduninni.

Um úrkomu og snjóflóð á Tröllaskaga

Sveinn Brynjólfsson jarðeðlisfræðingur
Sumarið 2005 voru snjóflóð kortlögð í Svarfaðardal og nágrenni eftir rituðum heimildum og viðtölum við heimamenn. Sumarið 2006 var úrkoma mæld með 40 sjálfvirkum úrkomumælum í Svarfaðardal og nágrenni sem raðað var með 3 km millibili um svæðið. Úrkomudreifing og úrkomuákefð var skoðuð m.t.t. mismunandi vindátta. Nyrst á svæðinu mældist fjórfaldur munur á úrkomu á aðeins 9 km vegalengd sem gefur til kynna að áhrif landslags á úrkomu séu mjög mikil. Tíðnidreifing úrkomuákefðar virðist vera nokkuð svipuð víðast hvar nema á láglendi nyrst á svæðinu þar sem lág úrkomuákefð er frekar sjaldgæf en há úrkomuákefð algeng. Í norðlægum áttum mældist úrkoma langmest norðantil á svæðinu þar sem tíðni snjóflóða reyndist langhæst. Úrkoma mæld á sjálfvirkri veðurstöð í Ólafsfirði í aðdraganda snjóflóða nyrst á svæðinu frá okt. 2008 - jan. 2009 mældist á bilinu 5-100 mm.

Aftur upp

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica