Greinar
Bláberjalyng
Vott bláberjalyng.

Blautt gras að morgni

Varma- og rakaskipti

Trausti Jónsson 28.4.2009

Loft inniheldur alltaf eitthvað af vatnsgufu. Vatnsgufan, sem oft er einnig nefnd eimur, er ósýnileg, rétt eins og flestar aðrar lofttegundir. Það er háð hita hversu mikil vatnsgufa getur verið samtímis á sveimi í lofti, því lægri sem hitinn er, því meiri líkur eru á þéttingu hennar. Strangt tekið er það hiti vatnsgufunnar en ekki loftsins sem skiptir máli, hafa ber það í huga hér að neðan.

Langoftast er hiti vatnsgufunnar í loftinu sá sami og hiti loftsins, undantekningar finnast þó. Kólni loft þéttist vatnsgufan um síðir, oftast á einhverjum flötum svo sem grasi eða jarðvegi, en einnig á litlum ögnum sem svífa um í loftinu. Þá verða þessir fletir blautir.

Svonefnt daggarmark er mælikvarði á rakainnihald loftsins. Sé lofthiti ofan daggarmarks gufar meira upp af vatni en þéttist. Við daggarmarkið þéttist jafnmikið og gufar upp, fari hiti niður fyrir daggarmark þéttist meira en gufar upp.

Á björtum dögum á sumrin er mikill munur á hita dags og nætur. Að deginum eru bæði lofthiti og hiti yfirborðsins ofan daggarmarks, þannig að meira gufar upp en þéttist. Þegar sól lækkar á lofti fellur hiti bæði lofts og yfirborðs, en daggarmarkið, sem er mælikvarði á rakainnihaldið, helst stöðugt. Þegar hitinn hefur fallið niður að daggarmarki fer vatnsgufan að þéttast á yfirborðinu (t.d. grasi) og það blotnar.

Þó raki loftsins þéttist á öllum flötum sem eru kaldari en daggarmarkið hverju sinni er þéttingin mest áberandi á gróðri, svo sem grasi, vegna hegðunar hita í gróðrinum. Hann kólnar mest við yfirborð, þar er útgeislunarvarmatap mest. Þar er loftið fyrst til þess að kólna niður í daggarmarkið.

Neðar í grasinu er mun minni útgeislun og hiti því lítillega hærri þar en við yfirborðið. Þar getur vatn því haldið áfram að gufa upp svo lengi sem hitinn þar er ofan daggarmarks. Þetta loft er ívið hlýrra en það sem ofar er, það streymir því upp og rakinn þéttist um leið við yfirborð gróðurþekjunnar. Rakinn sem við sjáum á grasinu er því ekki aðeins kominn úr loftinu heldur einnig neðan úr gróðurþekjunni. Að auki anda plönturnar, hiti inni í þeim er ívið meiri en utan við. Raki gufar því upp innan við öndunaropin, en þéttist þegar loftið kemur út um þau og bætir enn í bleytuna. Rakinn sem innan úr plöntunni kemur getur hafa borist um æðar hennar neðan úr rótarkerfinu.

Bleyta á gangstétt að morgni er öll til komin vegna þéttingar vatnsgufu sem var í loftinu, en bleytan á gróðrinum er ekki aðeins vatnsgufa úr loftinu ofan við heldur einnig úr lofti niðri í gróðurþekjunni og líka raki innan úr plöntunni sem hún hefur e.t.v. dregið upp úr jarðveginum. Þessar viðbótaruppsprettur raka í gróðri valda því að ofan á honum er stundum mun meiri bleyta en á gróðurlausri jörð, svo ekki sé talað um steinsteypu.

Hafa ber þó í huga að yfirborð er mjög fjölbreytilegt og hiti þess ræðst ekki aðeins af geislunarjafnvægi heldur einnig af leiðnieiginleikum þess og varmarýmd. Bílablikk er t.d. mjög fljótt að kólna vegna þess hversu þunnt það er. Raki eða jafnvel hrím er oft á bílum í morgunsárið jafnvel þó jörðin í kring sé þurr eða hrímlaus. Yfirborð timburs (dauðra trjáa) kólnar jafnvel hraðar en blikkið.

Dæmi


Dægursveifla hita, daggarmarks og hita við jörð í Reykjavík
dægursv. hita í Rvk 12.ágúst 2007
Dægursveifla hita, daggarmarks og hita við jörð í Reykjavík 12. ágúst 2007. Skýringar í meginmáli.

Línuritið sýnir dægursveiflu hita, daggarmarks og hita við jörð í Reykjavík 12. ágúst 2007. Meðalskýjahula sólarhringsins var 1,5 áttunduhlutar. Skýjahula var 3/8 kl. 12 og kl. 15 en 1/8 á öðrum athugunartímum. Sólarupprás var samkvæmt almanakinu klukkan rúmlega 5 um morguninn, en eins og sjá má fór ekki að hlýna (blár ferill) fyrr en milli klukkan 6 og 7. Þá hlýnaði samfellt fram til klukkan 11. Þá birtust þessi fáu ský á himni og hlýnunin hætti. Skýin voru að flækjast fyrir sólargeislunum nokkuð fram eftir síðdeginu, en síðan varð aftur nærri heiðskírt. Eftir klukkan 16 hlýnaði lítillega aftur.

Hiti við jörð (grænn ferill) fylgir í aðalatriðum sömu atburðarás og hiti í 2 metra hæð nema hvað dægursveiflan er stærri. Um fimmleytið um morguninn var frost við jörð þótt hiti væri um 7 stig í tveggja metra hæð. Sólin hitaði yfirborð jarðar mjög ört og milli 9 og 10 skaust yfirborðshitinn yfir hitann í staðalhæð og komst hæst í tæp 17 stig rétt áður en ský dró fyrir sólu. Milli kl.12 og 16 var hiti við jörð og í tveggja metra hæð mjög svipaður, jafnvægi ríkti, en síðan kólnaði mjög ört, örast þó eftir sólarlag sem var um klukkan 22.

Daggarmark í tveggja metra hæð hélst svipað eða lækkaði aðeins eftir því sem leið á. Daggarmark mælir rakamagn í lofti og lækkunin bendir til þess að þurrara loft hafi borist að stöðinni. Hiti við jörð var neðan daggarmarks í báða enda dagsins, fyrir klukkan 7 og eftir klukkan 22. Þá er mjög líkegt að rakt hafi verið í rót og e.t.v. hafi dögg myndast. Þó hitinn hafi farið niður fyrir frostmark er ólíkegt að hrím hafi myndast. Mælingin er gerð í um 5 cm hæð og hafi raki fallið út þar fyrir neðan er líklegt að ekki hafi frosið á gróðri (samanber umfjöllunina framarlega í pistlinum).  

 

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica