Veðurmælingar við Esju
Staðbundnir vindar og reiknilíkön
Um miðjan júlí 2009 fóru fram mælingar á veðri með ómönnuðum loftförum, þ.e.a.s. litlum fjarstýrðum flugvélum, í nágrenni Reykjavíkur. Mælt var öðru hverju í Álfsnesi og við Kollafjörð; og reynt að kortleggja Esjuskjólið í norðanátt.
Megintilgangur mælinganna var að kortleggja loftstrauma í mismunandi hæð yfir jörð við mismunandi veðuraðstæður. Sú kortlagning nýtist bæði til að spá staðbundnu veðri og veðurfari. Það gerist annars vegar með þeim hætti að til verður almenn þekking á staðbundnum vindum og hins vegar fást gögn til að stilla reiknilíkön.
Mælt var nokkra hafgoludaga en líka í suðaustanátt þegar röst myndast við Esjuna. Einnig var mælt bæði í hvassri og hægri norðaustanátt og var staðfest að vindamynstur geta verið með ýmsum hætti hlémegin fjalla á borð við Esjuna.
Meðal niðurstaðna var að vindur var áberandi hvassari í neðstu 2-400 metrum lofthjúpsins en í næstu kílómetrum þar fyrir ofan, bæði í hafgolu sem og í hvassri norðaustanátt. Hafgolan myndar eins konar innskot í lofthjúpinn en vindhraði minnkar hratt með hæð við efri mörk hafgolulagsins. Skil hafgolunnar eru býsna lóðrétt og nær hún fullri dýpt fljótlega eftir að hún skellur á.