Þurrkar 2
Löng þurrkatímabil í Reykjavík
Í fyrra pistli (þurrkar 1) var fjallað um langa, alveg eða því sem næst þurra, kafla í Reykjavík. Hér eru listar um þurrustu mánuði og þurrustu tímabil, allt upp í 48 mánaða lengd. Eins og áður er miðað við mælitímabilin tvö, 1884 til 1907 og 1920 til 2009.
Tafla 1 sýnir minnstu úrkomu sem mælst hefur í hverjum almanaksmánuði í Reykjavík, auk minnstu úrkomu hverrar árstíðar og einnig ársins í heild. Á mynd 1 má sjá minnstu mánaðarúrkomuna sem súlurit.
Tafla 1.
Minnsta úrkoma í Reykjavík í almanaksmánuðunum og nokkrum öðrum tímabilum í millimetrum (mm). Einnig er meðalúrkoman 1971 til 2000 sýnd og hlutfall minnstu mánaðarúrkomu af meðaltalinu.
mánuður | úrkoma (mm) | ár | meðaltal 1971-2000 |
hlutfall af meðalt. |
jan | 2,4 | 1936 | 76,9 mm | 3,1 % |
feb | 4,9 | 1966 | 85,5 | 5,7 |
mar | 2,3 | 1962 | 84,0 | 2,7 |
apr | 5,6 | 1905 | 51,5 | 10,9 |
maí | 0,3 | 1931 | 52,2 | 0,6 |
jún | 2,1 | 1971 | 45,3 | 4,6 |
júl | 8,1 | 1888 | 53,5 | 15,1 |
ágú | 0,4 | 1903 | 69,2 | 0,6 |
sep | 12,6 | 1935 | 64,1 | 19,7 |
okt | 17,9 | 1892 | 79,9 | 22,4 |
nóv | 10,1 | 2000 | 79,1 | 12,8 |
des | 22,2 | 1976 | 80,9 | 27,4 |
vetur | 110,7 | 1977 | 328,8 | 33,7 |
vor | 27,5 | 1979 | 103,8 | 26,5 |
júní til sept | 113,8 | 1956 | 232,1 | 49,0 |
haust | 59,8 | 1960 | 158,9 | 37,6 |
júní til ágú | 43,7 | 1888 | 168,0 | 26,0 |
júní og júlí | 36,2 | 1888 | 98,8 | 36,6 |
júlí og ágúst | 15,6 | 1888 | 122,6 | 12,7 |
ár | 560,3 | 1951 | 822,1 | 68,2 |
Það vekur athygli að tímabilið september til desember sker sig nokkuð úr öðrum mánuðum. Það segir þó ekkert um það hvort mánaðarúrkoma í þessum mánuðum getur verið jafnlítil og í öðrum mánuðum ársins. Óhætt mun þó að segja að úrkoma minni en 5 til 10 mm sé ólíklegri í þessum mánuðum en á öðrum árstímum. Á fyrra mælitímabili í Reykjavík (1833 til 1854) var einn 5 mm nóvember (1838), einn 2 mm október (1843) og alveg úrkomulaus september (1839). Þessar mælingar eru þó ekki sambærilegar við þær síðari í baráttu um þurrkamet, en kunna samt að gefa vísbendingu um að svo þurrir haustmánuðir liggi í leyni í framtíðinni. Sennilega mun nánast þurr desember birtast í fyllingu tímans.
Löng úrkomurýr tímabil
Þótt grunnvatnsstaða og vatnabúskapur viti vel af einstökum þurrkmánuðum eru löng tímabil þar sem úrkoma er langt undir meðallagi alvarlegri heldur en snarpir, stuttir þurrkar. Til gamans lítum við á hver þurrustu lengri tímabil í Reykjavík eru.
Meðalúrkoma í Reykjavík 1971 til 2000 er 822 mm. Við sáum í töflu 1 að þurrasta almanaksárið var 1951 og mældist úrkoma þá 560 mm eða 68% af meðalúrkomu. Þurrasta 12-mánaða tímabilið stóð frá september 1950 til ágúst 1951 með 63% af meðalúrkomu. Í töflu 2 má sjá lista yfir mislöng tímabil og hversu þurr þau voru miðað við meðaltal.
Tafla 2.
Minnsta úrkoma á mislöngum tímabilum í Reykjavík í millimetrum (mm), tímabilin eru tilgreind í aftasta dálki. Einnig má sjá meðalúrkomu 1971-2000 fyrir viðkomandi tímabil af árinu og hlutfall lágmarksins í úrkomudálkinum af þessu meðaltali.
lengd | úrkoma alls | meðaltal | hlutfall | tímabil |
1 mán | 0,3 | 52,2 | 0,6 | maí 1931 |
2 mán | 15,6 | 122,6 | 12,7 | júlí til ágúst 1888 |
3 mán | 42,0 | 151,0 | 27,8 | maí til júlí 1931 |
4 mán | 71,1 | 220,2 | 32,3 | maí til ágúst 1907 |
5 mán | 133,8 | 318,5 | 42,0 | febrúar til júní 1933 |
6 mán | 171,4 | 355,7 | 48,2 | mars til ágúst 1951 |
7 mán | 219,3 | 419,8 | 52,2 | mars til september 1951 |
8 mán | 269,1 | 505,3 | 53,3 | febrúar til september 1951 |
9 mán | 329,1 | 599,0 | 54,9 | desember 1950 til ágúst 1951 |
10 mán | 377,0 | 663,1 | 56,9 | desember 1950 til september 1951 |
11 mán | 434,9 | 742,2 | 58,6 | nóvember 1950 til september 1951 |
12 mán | 515,3 | 822,1 | 62,7 | september 1950 til ágúst 1951 |
15 mán | 665,2 | 990,1 | 67,2 | júní 1950 til ágúst 1951 |
18 mán | 784,3 | 1177,8 | 66,6 | mars 1950 til ágúst 1951 |
24 mán | 1162,2 | 1644,2 | 70,7 | júlí 1888 til júní 1890 |
36 mán | 1829,8 | 2466,3 | 74,2 | desember 1888 til nóvember 1891 |
48 mán | 2558,2 | 3288,2 | 77,8 | mars 1888 til febrúar 1892 |
Hafa ber í huga að hægt er að framkvæma hlutfallsreikningana á ýmsan hátt. Hér er t.d. ekki tekið tillit til þess að þurrkur á hausti, þegar meðalúrkoma er mikil í millimetrum talið, hefur meiri áhrif heldur en þurrkur á vori, þegar úrkoma er venjulega lítil hvort eð er. Við sjáum t.d. að í töflunni hefur 18-mánaða þurrkurinn lægra hlutfall af meðallagi heldur en sá 15-mánaða, en annars fer hlutfallið jafnt og þétt hækkandi. Í þessu tilviki er skýringin einföld, lesendur geta velt henni fyrir sér.
Aftur upp