Greinar
svarthvít ljósmynd af eldri manni
Jónas Jónassen landlæknir. Birt með góðfúslegu leyfi Alþingis.

Veðurbækur Jónasar Jónassen landlæknis

Af gömlum blöðum

Trausti Jónsson 28.10.2009

Á árunum 1880 til 1907 skrifaði dr. Jónas Jónassen landlæknir (1840 - 1910) reglulega yfirlitspistla um veður í Reykjavík. Birtust þeir í landsmálablöðum, fyrst mánaðarlega í Þjóðólfi 1880 til 1882, síðan í Ísafold 1883 til 1900, lengst af vikulega, og aftur mánaðarlega í Þjóðólfi 1901 til 1907. Pistlarnir gefa úrvalsgott yfirlit um veðurfar í Reykjavík á þessum tíma. Aðeins fáa mánuði og vikur vantar, Jónas var m.a. tvisvar erlendis í fáeina mánuði. Bæði Þjóðólfur og Ísafold eru aðgengileg á vefnum timarit.is, en samantekt textanna má lesa hér á vefnum (pdf 1,5 Mb).

Pistlarnir byggjast á minnisbókum Jónasar þar sem hann lýsir veðri hvern dag, auk þess að geta um skipakomur, stundum dansleiki o.fl. Færslurnar byrja 12. nóvember 1873 og standa til 17. júlí 1909. Faðir Jónasar, Þórður Jónasson háyfirdómari, hafði áður athugað veður í Reykjavík og ef til vill einnig Sigurður bróðir hans.

Jónas mældi bæði loftþrýsting og hita, oftast tvisvar á dag. Ekkert er vitað um mæliaðstæður, en á því tímabili sem hann skrifaði vikulega í Ísafold eru mælingarnar einnig prentaðar í blaðinu. Fróðlegt væri að bera þær saman við athuganir á vegum Dönsku veðurstofunnar á sama tíma. Þrýstimælingarnar voru fyrst gerðar með enskri dósarloftvog og eru tilfærðar í enskum tommum, en síðar fékk hann ámóta loftvog sem kvörðuð var fyrir millimetraaflestur.

Hann fylgdist vel með loftvog og notaði stöðu hennar eitthvað til spádóma, en varar samt hvað eftir annað við því að menn taki of mikið mark á henni, eða e.t.v. textanum sem er oftast ritaður á kvarða dósarloftvoga.

Jónas hafði góða tilfinningu fyrir veðri og því sem er óvenjulegt. Við lesum því oft um óvenjulegt tíðarfar, langstæðar rigningar eða sérlega góða kafla á vetri.

Orðfæri

Orðfæri hans er annað en nú tíðkast og stafsetning er auðvitað önnur en núgildandi reglur segja til um. Hann notar mjög áttatilvísanirnar land- og út- þar sem landsuður er suðaustur, landnorður er norðaustur, útsuður suðvestur og útnorður er norðvestur. Orðið háátt er oft notað um norðanátt og utanátt sést notað um vestlæga átt.

Heldur torræðara orðalag er þegar sagt er að útsynningur sé undir, en vindáttin jafnframt ekki útsuður. Hér er trúlega vísað til þeirrar sérstöku merkingar sem útsynningur hefur umfram áttarvísunina útsuður, útsynningur hefur þá merkinguna skúra- eða éljagangur, sem svo vill til að er algengasta veðurlag í suðvestanátt, þegar vindur blæs af útsuðri. Orðalagið, hægur austan, en útsynningur undir, hefur þá merkinguna að vindur blási að vísu úr austri en að öðru leyti sé útsynningsveður, ský séu útsynningsský (élja- eða skúraklakkar). Jónas virðist gjarnan nota orðið vari þar sem við myndum e.t.v. nota andvari.

Oft er talað um að vindur til djúpanna sé þannig eða hinsegin, þá öðru vísi en í bænum. Greinilega er verið að vísa til skjólsins af Esjunni sem algengt er í norðlægum áttum í Reykjavík. Þá sést hvítna í báru útifyrir í vindi sem greinilega er mun meiri en í bænum. Hann notar oft orðalagið gekk ofan þegar við myndum sennilega segja gekk niður.

Lesa má um Jónas, ættir hans, störf og fjölskyldu á vef Alþingis.


Heimildir:
Pistlarnir eru afritaðir af vefnum timarit.is.
Handritadeild Landsbókasafns. Lbs 488b fol og Lbs 489-494 fol.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica