Greinar
svarthvít ljósmynd af eldri manni
Þórður Jónasson háyfirdómari. Birt með góðfúslegu leyfi Alþingis.

Veðurathuganir í Reykjavík 1857 til 1880

Of lítið er um þær vitað

Trausti Jónsson 28.10.2009

Jón Þorsteinsson landlæknir hætti veðurathugunum í lok febrúar 1854, og lést árið eftir. Þá var veðurathuganalaust í Reykjavík. Athuganir Jóns voru gerðar með mörgum mælitækjum, en næst þegar byrjað var að athuga í höfuðborginni var það gert með aðeins einum hitamæli, en athugað var þrisvar á dag. Vísindafélagið mun hafa lagt mælinn til og tók Þórður Jónasson (1800-1880) að sér að mæla. Þórður var dómari í landsyfirrétti og hafði árið áður en mælingar hans hófust verið skipaður háyfirdómari.

Veðurathuganir Þórðar á tímabilinu frá 9. desember 1857 til 20. júní 1859 hafa varðveist í gögnum Danska vísindafélagsins, en þau gögn eru nú að finna í sérsafni Bókmenntafélagsins í Landsbókasafni. Eftir þetta fréttist ekki af veðurmælingum í Reykjavík fyrr en 20. nóvember 1865. Þá taka við mælingar sem eru færðar með svipaðri hönd og uppsetningu og mælingarnar 1857 til 1859. Veður er tilfært á dönsku og handritið nær fram til 30. júní 1875. Ekki er ólíklegt að Þórður hafi haldið athugunum áfram á tímabilinu sem vantar, en leit að gögnum hefur hingað til reynst árangurslaus. Handritið frá 1865 til 1875 er varðveitt í Landsbókasafni meðal handrita veðurbóka Jónasar Jónassen, en hann var sonur Þórðar.

Á árunum milli 1860 og 1870 var Skoska veðurfræðifélagið í samvinnu við Árna Thorlacius í Stykkishólmi um veðurathuganir og birtist um það grein í tímariti félagsins, auk nokkurra frétta um veður á Íslandi. Félagið mun einnig um tíma hafa verið í samvinnu um athuganir í Reykjavík, meðaltöl þeirra mælinga hafa varðveist í afritum hjá Danska vísindafélaginu. Svo vill til að elstu meðaltölin eru frá þeim tíma sem síðara handrit Þórðar Jónassonar hefst. Ekki hefur enn verið gengið úr skugga um hvort um sömu mælingar er að ræða, en skoska félagið mun einnig hafa verið í sambandi við séra Ólaf Pálsson sem var prestur við Dómkirkjuna á árunum 1854 til 1871. Ekkert hefur fundist af hugsanlegum mælingum þess sambands og ekki er vitað hvers eðlis þær kunna að hafa verið.

Jón Árnason, þjóðsagnasafnari og kennari við lærða skólann, hóf samvinnu um veðurathuganir við Danska vísindafélagið í september 1871. Hann gerði mælingar á vegum félagsins til 1878, en þá tók Danska veðurstofan við mælingunum, þótt Reykjavíkurstöðin hafi ekki orðið formlegur hluti veðurathugunarkerfis hennar fyrr en í maí 1880. Þá tók Sigurður Sigurðsson við mælingunum. Enn er margt óljóst um veðurathuganir í Reykjavík á árunum 1854 til 1880. Lumi lesendur á frekari upplýsingum eru þær vel þegnar.

Lesa má um Þórð, ættir hans, störf og fjölskyldu á vef Alþingis.


Heimildir
Lbs 488a fol, handrit Þórðar Jónssonar 1865 til 1875.
LBS Óskráð veðurgögn, kassi I og kassi VI (Þórður Jónasson, 1857-1859).
Handrit Jóns Árnasonar er í safni Veðurstofu Íslands.

Thorlacius, A.O. and Buchan, A.: (1869). On the meteorology of Iceland“, J. Scot. Met. Soc. Vol II, new series, 285-292.


Trausti Jónsson og Hilmar Garðarsson (2001). Early Instrumental Meteorological Observations in Iceland. Climatic Change, 48, p.169-187.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica