Greinar
flugslod
Flugslóði á heiðum himni.

Flugslóðar

Guðrún Nína Petersen 17.3.2010

Flugslóðar eru þunn ísský sem myndast þegar heitur og rakur útblástur frá þotum blandast við umliggjandi loftið og úr verður loftblanda sem er mettuð.

Flugslóði, öðru nafni kotra, myndast þegar heitur og rakur útblástur frá þotum blandast lofti sem er kalt og ómettað. Flugslóðar myndast því á svipaðan hátt og frostreykur þegar andað er frá sér í köldu veðri. Það sem öllu máli skiptir er hvort loftblandan sem verður til úr heita og raka útblæstrinum og köldu og þurru lofti verði mettuð vatnsgufu eða ekki, ekki hvort útblásturinn er frá flugvélum eða úr lungum.

Munurinn á frostreyk og flugslóðum er hinsvegar sá að vatnsdropar mynda frostreyk, en flugslóðar eru úr ískristöllum. þar sem hiti í flughæð þota er að jafnaði langt undir frostmarki. Skýið sem myndar flugslóðann er því þunnt ísský eða klósigi (cirrus). Í öðrum pistli er fjallað um skýjaflokka. Á ensku eru flugslóðar kallaðir 'contrails' sem er stytting úr heitinu 'condensation trails' eða þéttingarslóðar.

Tvennt ræður einkum líftíma flugslóða, raki og vindur í flughæð:

Ef loftið sem flugvélin flýgur í gegnum er mjög nálægt rakamettun lifir slóðinn lengur en annars, þá verður loftblandan mjög ofurmettuð og meiri vatnsgufa þéttist. Ef loftið er aftur á móti þurrt og rétt nær mettun þegar það blandast við útblásturinn verður það fljótlega ómettað aftur við að meira (þurrt) loft blandast inn í blönduna. Þá sést flugslóðinn einungis rétt fyrir aftan flugvélina, en þó ekki alveg upp við hreyfilinn því þar hefur útblásturinn ekki enn blandast við umliggjandi loft.

Ef hvasst er í flughæð er líftími flugslóða stuttur því vindurinn blandar þá umliggjandi lofti hraðar inn í flugslóðann. Þetta á líka við ef vindur er mjög breytilegur. Breytingar á vindhraða og vindátt geta gefið eldri flugslóðum margskonar útlit. Þetta veldur því að líftími slóða getur verið allt frá sekúndum til nokkura klukkutíma, allt eftir ástandi andrúmsloftsins hverju sinni. Flugslóðar breiða hægt og rólega úr sér með tímanum og við réttar aðstæður er að lokum erfitt að sjá mun á gömlum flugslóða og klósigum sem myndaðir eru á hefðbundari hátt (sjá dæmi í annarri fróðleiksgrein, Klósigar og flugslóðar).

Flugslóði þvert á önnur ský
3773h_thoturak_skjaldbreidu
Flugslóði úr hægra efra horni myndarinnar liggur þvert á önnur ský, jafnt miðský sem háský. Til hægri á myndinni má sjá Tindaskaga og Skriðan er fyrir miðri mynd. Á vinstri hönd er Skjaldbreiður og Skriðutindar. Í fjarska má sjá Eyjafjallajökul og Heklu. Ljósmynd: Oddur Sigurðsson.

Nokkur umræða er um áhrif flugslóða á veðurfar, þ.e. hvort aukin flugumferð valdi aukinni skýjahulu og þá hvaða áhrif það hefur á geislunarjafnvægi jarðar. Rannsóknir hafa sýnt að á þeim brautum sem mikil flugumferð fer um hefur háskýjahula aukist á síðustu áratugum. Flugslóðar, líkt og önnur háský, endurkasta sólarljósi út í geim en minnka útgeislun frá jörðu. Rannsóknir gefa til kynna að áhrif háskýja séu meiri á jarðútgeislun en sólargeislun og að flugslóðar hafi því hlýnandi áhrif á veðurfar. Rétt er þó að taka fram að áhrif flugslóða eru talin vera mjög lítil og staðbundin en samkvæmt fjórðu skýrslu Milliríkjanefndarinnar um loftlagsbreytingar, IPCC, er skilningur á áhrifunum enn frekar lítill.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica