Greinar
timarit.is
Forsíða Klausturpóstsins 1822, sjá texta.

Gosin 1821-1823

Fréttir af þeim í Klausturpóstinum

Trausti Jónsson 16.4.2010

Klausturpósturinn var fréttablað síns tíma og kom alloft út á ári hverju. Í blaðinu eru fáeinir pistlar um Eyjafjallajökulsgosið 1821-1823 sem og frásögn Sveins Pálssonar um gosið í Kötlu 1823.

Landsbókasafn Íslands hefur látið ljósmynda allt ritið og hægt er að lesa það á timarit.is. Hér með eru hins vegar tenglar á samsafn frétta áranna 1822 og 1823 af gosunum tveimur. Hugsanlegt er að gosanna sé getið á fleiri stöðum í ritinu. Hvert tölublað var 16 síður og má sjá af blaðsíðutölunum hversu langt var liðið á árið þegar hver frétt eða pistill var skrifaður.

Ritið var prentað með gotnesku letri eins og algengast var hér á landi á þessum tíma. Erfitt getur verið að lesa einstöku orð, sérstaklega þau sem rituð eru með hástöfum. Stafirnir s, y og k eru einnig nokkuð framandlegir - en venjast. Prentun er á stöku stað mjög óskýr þar sem tímans tönn hefur nagað letrið. Fullvíst er talið að Magnús Stephensen ritstjóri og útgefandi Klausturpóstsins hafi ritað meginmál fréttanna, en vísað er í frásagnir nokkurra aðila.

Að sögn Magnúsar gengu miklir hitar í júlí 1822, um 35°C í sólinni þegar best lét. Því miður getur hann ekki um hita í forsælu en það er hann sem við höfum áhuga á, lofthitanum en ekki hita hitamælisins sjálfs. Mælingar Jóns Þorsteinssonar landlæknis staðfesta að júlí var hlýr í Nesstofu. Í Nesstofu, því mælirinn var þar við opinn norðurglugga en ekki utandyra. Úr staðsetningu var bætt síðar.

Framan af leist mönnum illa á gosið og tjón af þess völdum, en í febrúar 1823 segir Magnús (bls.30):

Endi við það sem komið er, má afleiðingu og skaðræði þessa Eldgos telja einhver hin lítilvægustu hér á landi. og skaðann fljótt bættann þeim, er fyrir honum orðið hafa við talsverðar, góðfúsar Gjafir margra til þurftamanna í Eyjafjalla Sveit úr mörgum öðrum héruðum.

Síðla sumars fjallar Magnús um tíðarfarið vor og fram á sumar 1823:

Sífelldur kulda steytingur til þessa - flestum héruðum - gróðurlausa jörð, nema í Eyjafjalla Sveit, hvar hann frábær gafst, en málnytu annars staðar víða sára gagnslausa til þessa ..

En Kötlugosið fylgdi á eftir og gerir Sveinn Pálsson, þá búsettur í Vík ekki mikið úr því:

... en yfir höfuð varð þetta Jökulgos lítilvægt mót þeim fyrri, þá allur Fall Jökullinn fór í sjó fram við fyrsta og annað hlaup, en nú lækkaði Jökullinn aðeins, jafnvíður um sig enn, sem áður.

Hann lætur þess að lokum getið að

... meðan [Katla] sprakk rauk meira eða minna úr Eyjafjalla Jökli, en síðan hún hætti sést aðeins við og við úr honum renna hvítleit gufa.

Fleira um gosið 1821-1823 má lesa í fróðleiksgrein hér á vefnum.

Lesa má örstuttan pistil um Klausturpóstinn á Wikipediu.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica