Greinar
Misjafnt hrýfi hefur áhrif á vind.

Hrýfi

Mælikvarði á áhrif núnings milli lofts og jarðaryfirborðs

Trausti Jónsson 29.4.2010

Neðsta hluta jaðarlagsins er oft skipt í enn fleiri lög, fer sú skipting mjög eftir því hvaða fyrirbrigði verið er að rannsaka hverju sinni. Eru þau viðfangsefni svokallaðrar örveðurfræði, sem er ein af höfuðsérgreinum veðurfræðinnar.

Óregla yfirborðs jarðar er mismikil, t.d. mun meiri yfir þéttbýli en sléttum sveitatúnum og mýrum, skógur lyftir að sumu leyti yfirborðinu og breytir bæði vind- og rakasniða* gríðarlega miðað við skóglaust land. Óregla yfirborðs hefur áhrif á vind næst því og ná áhrifin venjulega upp í tvöfalda eða þrefalda hæð þess sem hrjúft yfirborðið hefur, stundum miklu lengra.

Vegna núnings dregur úr vindhraða eftir því sem við nálgumst yfirborð, það fer hins vegar eftir stöðugleika loftsins og lögun yfirborðsins hvernig vindsniði* er hverju sinni. Fjarlægðin frá yfirborði (hvernig við svo sem skilgreinum það), upp að þeirri hæð sem vindhraði byrjar að vaxa, er kölluð hrýfi (roughness length) eða hrýfisstiki. Nafnið dregið af lýsingarorðinu hrjúfur (betra en hrjúfleiki eða hrjúfleikalengd).

Hugtakið er mikið notað í líkangerð sem mælikvarði á núningsáhrif yfirborðs. Hrýfið er þannig t.d. meira yfir landi en sjó og gæði vindaspáa ráðast, að nokkru, af því hvernig til tekst með val á stærð þess. Tilraunir hafa sýnt að það er gjarnan um einn þrítugasti hluti meðalhæðar óreglunnar, fyrir 10 cm gras er það því um 3 mm og fyrir þyrpingu 30 m hárra húsa um 1 m.


* Hér er þýðingin sniði (karlkynsnafnorð) notuð sem þýðing á alþjóðaheitunum shear og lapse rate. Vindsniði (wind shear) á sér stað ef stefna og/eða styrkur vinds breytist með hæð. Hitasniði er sjaldan notað, mun oftar er temperature lapse rate þýtt sem hitafallandi. Ástæðan er sú að algengast er að hiti falli með hæð. Breytist raki með hæð er orðið rakasniði þjálara en rakafallandi sem þýðing á humidity lapse rate.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica