Greinar
kort af suðvesturhorni landsins með vindörvum
Dæmi úr veðursjánni frá 28. september 2010.

Veðursjá Veðurstofu Íslands

ratsjá, veðurradar

Hreinn Hjartarson 25.6.2010

Í apríl 2010 lauk endurbótum á veðursjá Veðurstofunnar og bættist þá við rafeinda- og hugbúnaður sem gerir kleift að meta vindafar á svæðinu umhverfis sjána í allt að 240 km fjarlægð (Doppler-mæling), auk hefðbundinna mælinga á endurvarpi frá skýjum. Sem stendur er þó ekki mælt nema í 120 km fjarlægð hvað varðar vindafar, því annars helmingast hámarksvindhraðinn sem veðursjáin getur metið, fer úr 48 m/s niður í 24 m/s.

Þrátt fyrir örar tæknibreytingar er hin upprunalega veðursjá frá 1990 ennþá í fullum rekstri. Tvívegis er búið að uppfæra hugbúnaðarhlutann og nú hefur einnig verið bætt við fyrrgreindri Doppler-einingu (skoðið FL HWIND). Veðursjáin sendir út rafsegulbylgjur af tíðninni 5,6 GHz (bylgjulengd 5,3 cm) í stuttum púlsum sem endurvarpast af ískristöllum og vatnsdropum sem á vegi þeirra verða.

Veðursjáin nemur endurkastið og þekkir fjarlægð og stefnu þess. Þar sem bylgjupúlsarnir eru um 2 km á lengd þá er það nákvæmnin í fjarlægðarmælingunni. Loftnet veðursjárinnar snýst 6 hringi á mínútu og getur sent púlsana út með mismunandi halla.

Hugbúnaður sá er stjórnar veðursjánni býr til stafrænar myndir af endurkastinu. Til að búa til nothæfa þrívíddarmynd dugir hugbúnaðinum að fá 9 umferðir með mismunandi halla.

Aðalhlutverk veðursjárinnar er að fylgjast með úrkomu og hreyfingum hennar. Vegna sveigju yfirborðs jarðar er ekki raunhæft að skoða hefðbundin veðurfyrirbæri í meiri fjarlægð en um 240 km því þá er lárétti geislinn kominn upp fyrir veðrahvolfið. Vegna þessara takmarkana má segja að veðursjáin nýtist helst til skammtíma veðurspáa, allt að 6 klst. Hún er því mjög mikilvæg í spám vegna flugumferðar og ástands vega.

En það hefur sýnt sig að veðursjáin nýtist ágætlega til að fylgjast með gosmekki við eldgos og því er mikilvægt að sjá lengra en þessa hefðbundnu 240 km. Hugbúnaðurinn sem er í notkun getur séð fyrirbæri sem eru í allt að 500 km fjarlægð og greint hæð þeirra.

Staðsetning veðursjárinnar á Miðnesheiði er engin tilviljun heldur niðurstaða úttektar á því hvar hún gæfi besta nýtingu. Er þar tekið tillit til þeirrar staðreyndar að mestur fjöldi lægða kemur úr suðvestri upp að landinu og nálægðarinnar við stærsta millilandaflugvöllinn og mesta þéttbýlið. Mjög æskilegt er að fjölga veðursjám á landinu og hefur notagildi þeirra við að fylgjast með gjósku frá eldstöðvum gert það enn frekar aðkallandi. Krafan um aukna nákvæmni veðurspáa og augljós arðsemi þessarar nákvæmni gerir þetta mjög brýnt.

Veðursjáin nýtir hið svokallaða C-band og eru það bylgjur sem eru næmar fyrir vatnssameindum og hafa svipaða bylgjulengd og notuð er í venjulegum örbylgjuofni til að hita mat.

Í viðbót við aðkeyptan hugbúnað er verið að þróa aðferð á Veðurstofunni til þess að bæta gæðin við það að meta sjálft úrkomumagnið (QPE), ekki síst hversu mikil úrkoma raunverulega fellur til jarðar. Í því felst mikil úrvinnsla hvað varðar stafrænu veðursjármyndirnar (Crochet, P., 2009)*.

Veðursjá
hvítur hnöttur á rauðri grind - grár skúr undir
Veðursjáin á Miðnesheiði. Myndin er tekin árið 2003. Ljósmynd: Jonas Haraldsson.
Vélbúnaður veðursjár
tækjabúnaður - snúningsás - blátt og svart
Veðursjáin á Miðnesheiði. Myndin er tekin inn í súlu undir loftnetinu hinn 27. október 2003. Ljósmynd: Jonas Haraldsson.

* Crochet, P., (2009). Enhancing radar estimates of precipitation over complex terrain using information derived from an orographic precipitation model. Journal of Hydrology, 377, 417-433. doi:10.1016/j.hydrol.2009.08.038. Þessa grein má nálgast á vefsetrinu hvar.is.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica