Greinar
Esjan
Esjan hinn 28. október 2007, séð frá Straumi.

Fannir í Esju mæla lofthita

Páll Bergþórsson 10.12.2010

Sumarið 2010 hvarf skaflinn í Gunnlaugsskarði í Esju tíunda árið í röð. Það hefur aldrei gerst svo lengi samfellt síðan farið var að fylgjast nokkuð reglulega með þessari fönn árið 1909. Og það sem meira er, heimildir benda til þess að þessi skafl hafi ekki horfið í áratugi fyrir 1929, að minnsta kosti frá 1863. Þessi vitneskja er fyrst og fremst tveimur mönnum að þakka, Vigfúsi Guðmundssyni, bónda og fræðimanni frá Keldum, og Jóni Eyþórssyni veðurfræðingi.

Í ljósi umræðunnar um hlýnandi loftslag er því forvitnilegt að athuga hvort þessar athuganir megi ekki nota til að áætla loftslagsbreytingar tölulega, að minnsta kosti síðan farið var að fylgjast með fönnum í Esju fyrir hundrað árum.

Í þessari grein er athyglinni sérstaklega beint að fönnum í Gunnlaugsskarði. Vert væri að rannsaka einnig sögu skafls í Kerhólakambi, vestan í Esju, en hann hverfur oftar og ætti því að veita vitneskju til viðbótar í kaldari árum. Það sýnist þó nokkuð vandasamt og verður látið hjá líða að sinni.

Athuganir Jóns Eyþórssonar

Jón Eyþórsson birti skýrslu um athuganir sínar, Fannir í Esju, í Veðrinu, tímariti veðurfræðinga, árin 1960 og 1964:

Allir Reykvíkingar kannast við sumarfannirnar í Esju. Í Kerhólakambi, upp af Esjubergi, helzt jafnan kringlótt fönn í kvos nokkurri langt fram eftir sumri. Oftast hverfur hún fyrir haustið, en stundum lifir hún af sumarleysinguna. Í öðru lagi er langi skaflinn í Gunnlaugsskarði upp af Kollafirði. Hann er mjög lífseigur og hverfur ekki nema í hlýjum sumrum. Ég hef oft skrifað hjá mér, hvenær fannirnar hverfa úr Esju síðustu 30 árin. Ekki er þessi skrá svo heilleg sem æskilegt væri, en e. t. v . geta einhverjir góðir Reykvíkingar bætt það, sem á skortir hjá mér, því að ég hef grun um að til séu þeir, sem fylgjast með snjóalögum í Esju og geta þeirra í dagbókum sínum. Einnig var um mörg ár skrifað í sérstaka dagbók á Veðurstofunni, hvenær ýmsar fannir hurfu úr Esju, en ekki hefur tekist að finna þessa bók nú, þrátt fyrir talsverða leit. Hér er það sem ég hef skrifað um Esjufannir.

  • 1929 - 5. ágúst: Fönnin í Kerhólakambi horfin. Þrír örsmáir dílar sjást ofan við Gunnlaugsskarð. (Hurfu síðar með öllu). Í öðrum og þriðja kambi Skarðsheiðar tveir smádílar.
  • 1930 - 22. ágúst: Vottar aðeins fyrir fönn í Kerhólakambi. Þrír smádílar fyrir neðan Gunnlaugsskarð, einn stór díll og þrír smáir í skálinni ofan við.
  • 1931 - 11. ágúst: Díll vestan í Esjukambi horfinn. 3-4 smádílar í Gunnlaugsskarði.
  • 1932: Esja snjólaus með öllu í byrjun ágústmánaðar. 1933 Snemma snjólaust í Esju. (Dagsetningar vantar að öðru leyti.)
  • 1934: Snjólaust að kalla í ágústbyrjun, aðeins lítill díll vestan í Kambinum og í Gunnlaugsskarði. Hurfu alveg í ágúst. 4. okt. var enn snjólaust með öllu.
  • 1935: Snjór alveg horfinn úr Gunnlaugsskarði í júlíbyrjun. Díllinn vestan í kambinum hvarf rétt fyrir miðjan júlí.
  • 1936: Varð snjólaust með öllu í júlímánuði. Óvenjulítill snjór um vorið og sumar hlýtt.
  • 1937: Um höfuðdag var talsverður skafl í Gunnlaugsskarði, ein fönn í efra botni og díll vestan í Kambinum.
  • 1938 - 6. sept.: Fönn alveg horfin úr Kerhólakambi. Lítill díll í Gunnlaugsskarði. Stöku smádílar í Skarðsheiði.
  • 1939: Fannir hurfu í júlímánuði.
  • 1940: Fannir hurfu í lok ágústmánaðar nema tveir örsmáir dílar í Gunnlaugsskarði. Þá kom snjógráð í sept., en hvarf því nær alveg undir mánaðarlokin. 24. okt. var snjólaust á Esju nema lítil rönd af nýsnævi í Gunnlaugsskarði. Norðan í brúninni, fyrir horni Eilífsdals, var dálítil fönn frá fyrra ári, ca. 100x100 m.
  • 1941: Alautt snemma í júlí.
  • 1942: Hurfu fannir (hvenær?).
  • 1943: Fönn í Kerhólakambi hvarf ekki alveg. Tveir dílar efst í Gunnlaugsskarði um haustið.
  • 1944-1949 vantar!
  • 1950 - 15. ágúst: Enn lítil fönn í Kambinum, horfin úr Skarðinu.
  • 1951: Fönn í Kerhólakambi hvarf 2. sept. Lítil fönn eftir í Skarðinu.
  • 1952 - 15. sept.: Lítil fönn í Kambinum, talsverður skafl í Skarðinu.
  • 1953: Fönn í Kerhólakambi hvarf í fyrstu viku júlí. Fönn í Gunnlaugsskarði horfin 15. ágúst og allar fannir í giljum hið neðra í Skarðinu.
  • 1954: Um haustið dálítil fönn í Kambinum og allstór í Skarðinu.
  • 1955: Fönnin hvarf úr Kambinum í sept., en lítill díll varð eftir í Skarðinu.
  • 1956 og 1957 vantar!
  • 1958: Í byrjun sept. var fönnin horfin úr Kerhólakambi, en ca 100 m. langur díll óleystur í Skarðinu.
  • 1959: Hurfu?
  • 1960: Fönnin var horfin úr Kerhólakambi 1. ágúst og úr Gunnlaugsskarði 10. ágúst.

Framhald skýrslu Jóns, Fannir í Esju, birtist í Veðrinu 1965:

Sumarið 1964 hvarf fönnin úr Kerhólakambi 10. júlí. Úr Gunnlaugsskarði var hún horfin fyrir víst 16. ágúst og hafði þá verið mjög óveruleg og dökkleit síðan um mánaðamót. Vorið 1964 sagði mér Jón bóndi Erlendsson á Mógilsá, sem þar hafði búið um langan aldur, að fönnin í Gunnlaugsskarði mundi aldrei hafa horfið að sumarlagi fyrr en 1923 - í fyrsta lagi - en eftir 1930 hafi hún mjög oft horfið. Enn hafði Jón það eftir Kolbeini Eyjólfssyni, sem bjó í Kollafirði frá 1863 og fram um aldamót, að fönnin hafi aldrei horfið úr Gunnlaugsskarði á því tímabili.

Esjan 2. júní 2006
Esjan
Esjan um hádegisbil 2. júní 2006. Vel má sjá fannir í Gunnlaugsskarði og víðar. Ljósm.: Eiríkur Þ. Einarsson.

Athuganir Vigfúsar Guðmundssonar

Sá grunur Jóns Eyþórssonar að til væru dagbækur um fannir í Esju séð frá Reykjavík reyndist heldur betur réttur. Vigfús Guðmundsson frá Keldum (1868-1952) var bóndi og fræðimaður sem hélt veðurbækur frá 1893 þangað til fjórum dögum fyrir andlát sitt árið 1952. Vorið 1909 hóf hann búskap í Engey og frá 1916 var hann búsettur í Reykjavík. Öll þau ár í höfuðborginni skráði hann athuganir á fönnum í Esju þegar honum þótti ástæða til. Einkum koma þessar athugasemdir hans fram í mánaðayfirlitum.

Halldór, sonur Vigfúsar, kom á minn fund á Veðurstofunni skömmu eftir 1989 og afhenti mér veðurbækur Vigfúsar til varðveislu á Veðurstofunni. Þær eru ómetanlegar og samræmdar heimildir vandaðs fræðimanns um áhrif veðurfars á miklu breytingaskeiði loftslags nærri sex áratugi.

Hér verða birtar tilvitnanir úr þessum dagbókum um fannir í Esju. Með Esjuenni eða háenni Esju virðist hann eiga við Kerhólakamb.

  • 1928 - sept.: Aldrei sást snjór í fjöllum. Skarðsheiði orðin óvenju snjólítil héðan að sjá úr bænum og vottur aðeins af einni fönn efst í brún yfir gili í Esjunni.
  • 1928 - okt.: Fannir í fjöllum að hlána fram í miðjan mánuð. Ein lítil eftir í Esju, tvær í Skarðsheiði héðan að sjá í besta skygni. Esja nú grá ofanverð.
  • 1929 - ágúst: Síðasta fönn í Esju er sést úr Reykjavík hvarf alveg um 25., hún var efst í slakkanum vestan við Kistufell. NB Fönnin aldrei horfið fyr í 20 ár, held ég víst, síðan ég kom suður 1909.
  • 1930 - sept.: Í Esju eru aðeins tvær litlar fannir, ein efst og neðar í gilinu við Kistufell.
  • 1931 - ágúst: Fönnin hæst vestan í Esju hvarf alveg um 30. Smáfannir eftir efst í gilbrún, ein neðar.
  • 1931 - sept.: Snjófönnin horfin hæst í Esju - lítil eftir í Gunnlaugsgilinu (eða Gunnlaugsskarði?)
  • 1932 - ágúst: Síðustu fannir hurfu alveg úr Esju héðan séð um 15. þ.m.
  • 1933 - ágúst: Ein lítil tvískift fönn í hamrabrún Esju.
  • 1933 - sept.: Esjan gránaði einu sinni (28.) ofanverð en er nú alauð.
  • 1934 - ágúst: Ein lítil fönn í Esju og örlítill díll þar hjá í hamrakverkinni. Hvarf hæst um 15.
  • 1935 - ágúst: Um miðjan mánuð hvarf síðasta fönn úr Esju og líka úr Skarðsheiði héðan séð af Eskihlíð. - Aldrei fyr séð Sk. snjólausa.
  • 1936 - ágúst: Fannir i gili Esju (vestan við Kistufell) hurfu um lok mánaðar, nema 1 fönn neðar en venjulega.
  • 1936 - sept.: Esja gránaði öll ofan tvisvar í þ. m. og einu sinni í ágúst. Stóð enn (?) nokkra daga. Nú alauð héðan séð og eins Skarðsheiði. Síðasta fönn í Esju alveg nýhorfin.
  • 1937 - sept.: Fannir í Skarðsheiði og í Esju háenni og gili efst, lítil neðar.
  • 1938 - júlí: Fannir í Esju nú aðeins efst í Gunnlaugsgili og díll var í því enni, héðan séð.
  • 1938 - 14. ág. Nú er löng fönn og díll í Gunnlaugsgili og sést aðeins díll efst í Esjunni.
  • 1939 - ágúst: Ein lítil fönn í Gunnlaugsgili efst í Esju.
  • 1939 - sept. Síðustu dagana hvarf alveg síðasta fönnin sunnan í Esjunni.
  • 1940 - júlí: Díll í Esjuenni og fimm smáfannir efst í Gunnlaugsgili.
  • 1940 - ágúst: Í Esju voru orðnar þrjár litlar fannir í Gunnlaugsgili. Hvít efst síðast.
  • 1940 - sept. Esja grá ofan síðustu viku. Ein fönn örlítil.
  • 1940 - okt.: Esja var lengi hvítgrá ofan. Nú ílangir snjódílar nokkrir undir hamrabrún aðeins. Einn fannardíll hvarf aldrei.
  • 1941 - júlí 30.: ... sést hvergi fönn í kíki nema tvær mjög litlar í Skarðsheiði og allt til jökuls.
  • 1942 - sept.: Aldrei snjór í Esju, enn alauð.
  • 1943 - ágúst: Snjódíll enn í háenni (?) Esju og þrjár langfannir efst í Gunnlaugsgili.
  • 1943 - sept.: Snjódíllinn í Esjuenni hvarf um miðjan mán. en aldrei hurfu fannir úr Gunnlaugsgili.
  • 1944 -sept.: Ein fönn lítil hvarf ekki úr Esju séð úr Rvík.
  • 1945 - sept.: Síðasta fönnin í Esju (Gunnlaugsgili) hvarf alveg um 20. þ.m.
  • 1946 - ágúst: Snjódílar síðustu í Esju hurfu 17. eða 18.
  • 1947 - sept.: Esja alauð fram á síðustu viku.
  • 1948 - árið. Snjófönn hvarf ekki úr Esju (Gunnlaugsgili).
  • 1949 - sept.: Nálega aldrei sést til fanna í Esju. Eitthvað minkað frá 31. f.m. en ekki horfið.
  • 1950 - ágúst: Snjólétt í Esjuenni og löng og lítil fönn efst í Gunnlaugsgili.
  • 1950 - sept.: Snjóaði fyrst á fjöll hér þ. 27., þá var ein fönn fremur lítil í Gunnlaugsgili.
  • 1951 - ágúst: Esja: snjódíll í enni og tvær fannir + þrjár litlar í gili.
  • 1951 - sept.: Esja: Fannir tvær litlar í Gunnlaugsgili að vestanverðu, ekki efst.

Jón Eyþórsson minnist á dagbók sem haldin var á Veðurstofunni um skafla í fjöllum. Hún hefur komið fram en nær aðeins yfir árin 1920-1927. Skaflarnir eru tölusettir, líklega eftir ljósmynd sem ekki hefur fundist. Helst má þó af bókinni ráða að skaflar hafi aldrei horfið alveg úr Esju á þessum árum. Það er í samræmi við þá athugasemd Vigfúsar árið 1929 að hann haldi víst að fannir hafi aldrei horfið úr Esju frá því að hann flutti til Engeyjar, en það var vorið 1909. Það ár var reyndar hið hlýjasta sem komið hafði frá 1880 til 1928, og það segir sína sögu um örlög Esjufanna á öllu því tímabili.

Athugunum Vigfúsar og Jóns ber oftast vel saman þegar samanburði verður við komið. Árin 1940 og 1950 benda þó ítarlegri færslur Vigfúsar til þess að suðurhlíðar Esju hafi ekki orðið öldungis snjólausar eins og ráða mætti af dagbók Jóns. Eftir að Vigfús andaðist vantar beinar heimildir um árin 1956-1957 og 1961-1963 og spurning er um 1959.

Þessar eyður hef ég reynt að fylla með því að athuga hitafar áranna. Þá er einkum litið á meðalhita undanfarandi vetrar, október-apríl, og svo sumarsins, maí-september. Þessi meðalhiti er svo borinn saman við það hvenær fannir hurfu. Það sýnir sig með aðhvarfsreikingi að meðalhiti vetrarins er heldur áhrifaminni í árshitanum, vegur 0,45 meðan meðalhiti sumarsins vegur 0,55. Kaldur vetur virðist þannig skilja eftir sig meiri fannir en hlýr og seinka talsvert leysingu í sumarhlýjunni. Af þessu má ráða að hlýju árin 1957 og 1961 hafi fannir horfið, og það sama hef ég ályktað um árið 1959, því að þá var ekki kaldara en svo að skaflinn hefði getað leyst eins og Jón Eyþórsson ýjar að, með spurningarmerki þó.

Esjufannir eftir 1964

Strax upp úr 1964 hófst kuldaskeið, fyrst hin svokölluðu hafísár, einkum 1965 til1970. Mér hefur verið sýnd mynd af snjólausri Esju árið 1966. Hún var þó fremur ógreinileg og þess vegna hæpið sönnunargagn, því að jafnvel með góðri sjón er erfitt að greina skaflinn í Gunnlaugsskarði þegar hann er að þrotum kominn. Veturinn var snjóléttur, en árshitinn var lægri en nokkru sinni ella þegar fönnina hefur leyst. Ég hef ekki fengið bendingar um að Esjufannir hafi horfið eftir það fyrr en 1998. Þess væri helst að vænta árið 1991 sem var greinilega hlýjast á þessu tímabili. En þá sker það úr að til er skýr loftmynd sem Sigurjóni Einarsson flugmaður tók 25. september það ár og hún sýnir talsverðan skafl í skarðinu. Það ætti raunar ekki að koma á óvart því að eftir að fönn hefur ekki leyst þar í áratugi er snjórinn orðinn að jökulís sem þarf mun meiri hlýju til að þíða en fönn frá fyrra ári eða allra síðustu árum. Þetta jökuleðli fannarinnar sýnist reyndar mega greina á þessari sögulegu mynd.Hlýja árið 1928. þegar fönnin hvarf samt sem áður ekki, er líka bending um þessi áhrif langvarandi kuldaskeiðs.

Frá 1991 hefur Sigurjón Einarsson flugmaður fylgst með fönnunum í Gunnlaugsskarði. Hér kemur listi yfir þau ár þegar skaflinn leysti:

  • 1998: Horfnar fannir 6. ágúst.
  • 2001: Horfnar fannir 25. september. Snjóaði fljótlega eftir það en sá snjór hvarf.
  • 2002: Hvarf 31. ágúst, snjóaði aftur 2. september.
  • 2003: Mjög hlýtt ár, snjóaði þó talsvert í fjöll um veturinn. Fönnin var ljósmynduð 17. júlí, hvarf síðar.
  • 2004: Hvarf 1. ágúst.
  • 2005: Hvarf 18. ágúst.
  • 2006: Hvarf 24. ágúst.
  • 2007: Hvarf 23. ágúst.
  • 2008: Horfinn síðasti skafl í Gunnlaugsskarði 18. september.
  • 2009: Horfinn síðasti skafl í Gunnlaugsskarði 25. september.
  • 2010: Hvarf síðasti skafl í Gunnlaugsskarði 15. júlí.
Esjan 15. ágúst 2006
Esjan
Esjan um hádegisbil 15. ágúst 2006. Ekki er hægt að sjá fannir í Gunnlaugsskarði en skaflinn þar hvarf alveg níu dögum síðar, 24. ágúst. Ljósm.: Eiríkur Þ. Einarsson.

Fannaleysing í Esju fyrir 1909

Veðurathuganir Vigfúsar Guðmundssonar votta að frá 1909 til 1928 hafi fannir í suðurhlíðum Esju aldrei leyst að fullu. Og fyrir því má færa nokkur rök að allt frá 1853 að minnsta kosti og þar til 1928 hafi þessi snjóleysing aldrei átt sér stað. Á þessu langa árabili varð hinn vegni árshiti sem hér er notaður aldrei hærri en hann var 1928 og 1991, 5,4 stig, en í hvorugt skiptið nægði þessi hlýja til að bræða skaflinn í Gunnlaugsskarði. Ástæðan er líklega sú, eins og áður er getið, að í bæði skiptin hafði skaflinn haldist í áratugi á kuldaskeiði og var orðinn að jökulís.

Sami hiti mældist 1847 og er ekki hægt að útiloka að þá hafi skaflinn leyst, enda kann að hafa gengið töluvert á hann árið áður, 1846, sem var hlýrra en 1928, og 1990, næstu ár á undan 1929 og 1991. Hafi skaflinn horfið 1847 og þar með jökulísinn er mögulegt að það hafi leitt til þess að fimm árum síðar hafi fannirnar leyst þegar árshitinn var 5,2 stig. Eftir það og allt til 1928 náði vegni árshitinn aðeins einu sinni 5,4°C, en það var 1880. Það hefur ekki nægt til að bræða fönnina því að árið á undan, 1879, var mjög kalt, eins og áratugina á undan því, enda er það í samræmi við heimildir Jóns Eyþórssonar frá bændum í Kollafirði.

Skaflinn í Gunnlaugsskarði 1846-2009

Niðurstaðan verður því sú að hugsanlega hafi fannir í suðurhlíðum Esju horfið 1847 og jafnvel 1852, en síðan aldrei fyrr en 1929. Þetta er í góðu samræmi við ummæli Jóns bónda Erlendssonar, sem Jón Eyþórsson hefur eftir honum, svo langt sem þau ná. Eftir það og til þessa dags er með allgóðum rökum hægt að álykta hvaða ár fannirnar hurfu og hvenær þær entust til næsta sumars, á árunum 1846-2010. Þá kemur í ljós að þessi 165 ár skiptast á fjögur skýrt afmörkuð tímabil, annars vegar kuldaskeið, þegar fannir hverfa aldrei, og hins vegar hlýindakafla þegar skaflana leysir oft.

Fannir hurfu:
(1847 1852) 1929 1932 1933 1934 1935 1936 1939 1941 1942 1945 1946 1947 1950 1953 1957 1959 1960 1961 1964 1998 2001 2002 2003 2004 2005 2006 2007 2008 2009 2010.

Alls eru þetta 32 ár af 165 sem mælingar í Stykkishólmi hafa staðið. Fyrst er stutt tímabil um 1850 þegar hugsanlegt er að fannir hafi leyst tvisvar sinnum í suðurhlíðum Esju. Síðan taka við 76 ár, 1853 til 1928, þegar skaflar hverfa að líkindum aldrei.

Á 36 árum, 1929-1964, leysti fannirnar 19 sinnum, oftast á fjórða áratugnum. Þá kemur 33ja ára skeið þegar fannir hverfa ekki, 1965-1997. Seinast er 12 ára tímabilið 1998-2010 þegar fannir leysir öll árin nema tvisvar sinnum næst fyrir aldamótin, 1999 og 2000.

Samanburður við loftslag í Stykkishólmi

Hér verður meðalhiti áratuga í Stykkishólmi borinn saman við þann fjölda ára á sömu áratugum þegar fönnin í Gunnlaugsskarði hverfur. Tekið er eingöngu tillit til þeirra áratuga þegar fönnin hverfur minnst einu sinni, en mest 9 sinnum. Þegar fönnin hverfur aldrei eru ekki takmörk fyrir því hvað kuldinn getur orðið mikill en þegar hún hverfur alltaf getur hitinn orðið svo hár sem vera skal en það hefur aðeins gerst einu sinni, 2001-2010.

Skafl hverfur,ár 1 2 3 4 5 6 7 8 9
Meðalhiti Stykkish. 3,70 3,95 4,13 4,21 4,27 4,27 4,42 4,43 4,63
- 3,77 3,52 3,86 3,93 4,20 4,63 4,41 4,53 -
- 3,85 3,84 3,88 3,92 4,28 4,21 4,37 - -
- 3,41 - 3,96 4,00 4,26 4,26 - - -
- 3,46 - 3,70 4,04 4,01 4,28 - - -
- 3,40 - 3,89 4,07 4,04 4,24 - - -
- 3,80 - - 3,92 4,05 4,40 - - -
- 3,84 - - 3,86 4,13 4,39 - - -
- 3,86 - - 4,05 4,15 4,38 - - -
- - - - - 4,17 4,00 - - -
- - - - - 4,19 4,34 - - -
- - - - - 4,05 - - -
- - - - - 4,20 - - - -
Meðaltöl Stykkish. 3,68 3,77 3,90 4,00 4,15 4,31 4,40 4,48 4,63


Aðhvarfslíking milli skaflaleysingar og meðalhita gefur mjög líka niðurstöðu, en staðalskekkjan er 0,12°:

Skafl hverfur,ár 1 2 3 4 5 6 7 8 9
Meðaltöl Stykkish. 3,66 3,78 3,91 4,03 4,15 4,27 4,39 4,51 4,64

Á þessu sannast að samhengið er gott milli meðalhitans í Stykkishólmi og þess hvað skaflinn hverfur oft á áratug. Nákvæmnin er þó minnst þegar skaflinn hverfur aðeins einu sinni eða tvisvar á áratug. Meðalhitinn hækkar um 0,08° til 0,16° hvenær sem snjólausu árunum á áratug fjölgar um eitt.

Fannir í Gunnlaugsskarði eru með öðrum orðum góður mælikvarði á loftslag á vissu hitabili, frá 3,7° til 4,6° í Stykkishólmi, en á löngu tímabili fyrir 1920, þegar skaflinn hvarf aldrei, segja þær lítið annað en að kuldaskeið hafi verið ríkjandi.

Til þess að kanna betur samhengi fanna við hitann á þeim tíma þyrfti vitneskju um skafla sem leysir oftar en fönnina í Gunnlaugsskarði, einkum á kalda tímabilinu fyrir 1920.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica