Greinar
vedurspa_leikur

Veðurspáleikur

Allir spá 12. - 16. mars 2012

Guðrún Nína Petersen 16.9.2011

Í tilefni af 90 ára afmæli Veðurstofu Íslands 2010 var hannaður leikur þar sem almenningi gefst kostur á að spá veðrinu tvo daga fram í tímann. Hann var fyrst leikinn í desember sama ár og mæltist vel fyrir. Stefnt er að því leika veðurspáleikinn ársfjórðungslega. Er allt áhugafólk um veðurspár hvatt til að taka þátt í leiknum.

Þátttakendur skrá sig til leiks og byrja að spá á mánudegi. Spáð er hvernig veðrið verður kl. 12 á hádegi á miðvikudegi og senda þarf spána inn fyrir kl. 24 á mánudagskvöld. Á þriðjudegi er spáð fyrir fimmtudegi o.s.frv. Ekki er spáð á laugardegi og sunnudegi þar sem ekki er ætlast til að þátttakendur sitji vaktina eins og veðurfræðingar Veðurstofunnar. Spárnar eru svo bornar saman við veðurathuganir. Síðdegis á miðvikudag eru birtar fyrstu niðurstöður og á sunnudegi eru úrslit leiksins ljós.

Spáð er fyrir sex staði, tvo staði á dag, og er Reykjavík alltaf annar staðurinn en hinir staðirnir eru Stykkishólmur, Bolungarvík, Akureyri, Egilsstaðir og Kirkjubæjarklaustur.

Stig eru gefin fyrir svör og verða stig og stigatafla þátttakenda aðgengileg eftir hádegi á miðvikudegi. Þrír þátttakendur verða frá Veðurstofunni, þau Spágerður, Samur og Fyrrimundur. Spágerður spáir að veðrið verði nákvæmlega eins og sjálfvirku staðaspárnar gera ráð fyrir. Samur er frekar íhaldssamur og spáir að veðrið verði óbreytt næstu tvo daga, þ.e. hann spáir að veðrið verði eins og það var kl. 12 þann dag sem spáð er. Fyrrimundur reiknar með að sagan endurtaki sig og að veðrið verði eins og það var þennan dag fyrir nákvæmlega einu ári.

Sá sem fær flest stig í heildina fær viðurkenningarskjal frá Veðurstofunni en tilgangurinn er þó aðallega að fólk hafi gaman og gagn af að taka þátt í leiknum. Spágerður, Samur og Fyrrimundur geta að sjálfsögðu ekki unnið til viðurkenningar í leiknum, ekki frekar en starfsmenn Veðurstofunnar.

Lykilorð

Auðvelt er að nýskrá sig (skv. netfangi) og velja sér lykilorð. Þeir sem hafa tekið þátt eru hvattir til að nota sama netfang og lykilorð og áður.  Vinsamlegast hafið samband ef einhver vandræði koma upp.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica