Greinar
frumstætt veðurkort
Fyrsta veðurkort Veðurstofu Íslands, gert hinn 1. janúar 1920. Smellið á til að skoða nánar og lesa um aðdragandann.

Eftirminnileg veðurkort

Borin fram á fati

Trausti Jónsson 17.12.2012

Veðurkort hafa verið gerð á Veðurstofu Íslands frá upphafi hennar; lengst af mörg á dag. Sum þeirra eru harla eftirminnileg. Hér eru gefin tólf dæmi frá 1929 til 2004, eitt úr hverjum mánuði ársins, auk kortsins hér til hliðar, sem er hið fyrsta sem gert var á Veðurstofunni.

Skýringar við kortin tólf má sjá hér að neðan en þau sjálf má skoða sem pdf-skjöl í góðri upplausn þegar smellt er á dagsetninguna. Athugið að flest skjölin eru mjög stór (um 30 Mb).

16. janúar 1995 kl. 03 (kort)

Þrýstilínur hafa ekki oft orðið jafnþéttar yfir landinu og í því illræmda veðri sem olli snjóflóðinu mikla á Súðavík. Veðurathugunarmenn á Hveravöllum komust ekki út til að lesa á mæla. Veðrið stóð linnulítið í marga daga á Vestfjörðum og gríðarlega mikið snjóaði um mestallt norðan- og vestanvert landið.

3. febrúar 1991 kl. 15 (kort)

Þennan dag varð mesta tjón sem orðið hefur á mannvirkjum í einu fárviðri hér á landi, að þávirði meir en 1 milljarður króna. Á kortinu sést næstmesta þriggja klukkustunda ris loftvogar sem vitað er um hér á landi eða 30,7 hPa á Keflavíkurflugvelli. Fárviðri var bæði af suðaustri og suðvestri/vestri.

5. mars 1969 kl. 12 (kort)

Einstakt fárviðri gerði á Akureyri um hádegi 5. mars 1969. Þar í sveit muna menn þetta sem „Linduveðrið“ því þak tók í heilu lagi af sælgætisverksmiðjunni Lindu, fjölmörg þök fuku af íbúðarhúsum og stórskemmdir urðu á bifreiðum. Á sama tíma ríkti einhver harðasta hríð sem um getur á Vestfjörðum með -13 til -16 stiga frosti.

9. apríl 1963 kl. 18 (kort)

Eftirminnilegasta páskahret síðustu aldar skall á 9. apríl 1963. Umskiptin voru sérlega mikil eftir hlýindavetur. Mannskaðar urðu á sjó og gróðurskemmdir á landi. Á kortinu er veðrið að ná til Suðurlands, þar er enn hlýtt, +8 stig í Álftaveri en -10 stiga frost á Vestfjörðum. Veðrið stóð í marga daga.

14. maí 1960 kl. 12 (kort)

Mikil hlýindi gerði á landinu um miðjan maí 1960. Þá komst hiti yfir 20 stig í Reykjavík. Síðar um sumarið fór hiti einnig í rúm 20 stig þar á bæ en síðan liðu sextán ár án þess að það gerðist (júlí 1976). Hitamunur er mikill milli sjávar- og landlofts á kortinu, 7 stig á Sauðárkróki en 15 á Nautabúi í sömu sveit.

17. júní 1944 kl.15 (kort)

Ætli rigningin við lýðveldisstofnunina á Þingvöllum sé ekki ein sú þekktasta í Íslandssögunni? Hér eru skilin rétt komin framhjá og uppstytta á hátíðargesti en ekki nema 10 stiga hiti. Norðaustanvert landið er baðað suðlægum hnjúkaþey, það er 18 stiga hiti á Akureyri.

14. júlí 1990 kl.15 (kort)

Júlímánuður er blíðasti mánuður landsins. En stöku sinnum gerir þá þó eftirminnileg illviðri. Daginn sem kortið sýnir varð talsvert tjón í hvassviðri á Suðvesturlandi. Mikinn moldarbyl gerði þá á landsmóti ungmennafélaganna í Mosfellsbæ. Rauðu táknin á myndinni sýna mistur og moldrok sem var með versta móti þennan dag.

11. ágúst 2004 kl. 15 (kort)

Dagana 9. til 13. ágúst 2004 gerði mestu hitabylgju síðari áratuga hér á landi. Hún var óvenjuleg fyrir það hvað hún stóð í marga daga og hve hár hitinn varð víða um land. Á kortinu má t.d. sjá 24 stiga hita í Reykjavík. Mun kaldara var í þokulofti yfir sjónum – en það kom endrum og sinnum inn á land og hitasveiflur voru þá óvenju snarpar, 7 til 10 stig á tíu mínútum.

24. september 1973 kl. 00 (kort)

Stöku sinnum gerir ægileg illviðri í september. Veðrið sem kennt er við leifar fellibylsins Ellenar var hið versta á þeim árstíma á síðari hluta 20. aldar. Þá urðu gríðarlegir fokskaðar um landið sunnan- og vestanvert. Þrot varð á þakjárni og -pappa í landinu. Tvö möstur í Búrfellslínu fuku, auk gríðarlegs tjóns á símalínum og raflínum öðrum.

23. október 1963 kl.18 (kort)

Að sjá tvær veifur á vindör frá mannaðri veðurstöð er næstum einsdæmi. Þetta má sjá á kortinu. Þá var vindhraði á Stórhöfða 103 hnútar, tvær veifur og stutt strik. Rétt áður en athugun var gerð fór tíu mínútna meðalvindhraði yfir 55 m/s. Þetta gerðist aftur í 3. febrúar 1991. Gríðarmikið tjón varð í veðrinu, mest sunnan við braut lægðarmiðjunnar.

16. nóvember 1953 kl. 09 (kort)

Vestan-illviðri voru sérlega algeng á árunum 1952 til 1959 og mörg eftirminnileg. Eitt það versta gerði 15. til 17. nóvember 1953. Er það kennt við vélskipið Eddu úr Hafnarfirði sem fórst með níu mönnum á Grundarfirði en átta björgðust með miklu harðfylgi. Gríðarlegt foktjón varð um vestan- og norðanvert landið. Báðar raflínurnar frá Sogsvirkjun til Reykjavíkur slitnuðu og olli það víðtæku rafmagnsleysi.

2. desember 1929 kl. 08 (kort)

Dýpsta lægð Íslandssögunnar. Hér er þrýstingur á Stórhöfða 692,1 mm sem jafngildir 922,7 hPa. Þrýstingur féll þar í rúma klukkustund til viðbótar og komst niður í 920 hPa þegar lægst var. Gríðarlegt tjón varð víða um land í þessu austanveðri, bæði vegna hvassviðris og sjávargangs. Þrýstingur hefur aldrei mælst lægri á landstöð norðan hitabeltisins.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica