Greinar
Í Mývatnssveit 10. september 2012.

Veðrið sem gekk yfir landið 9.-11. september 2012

Hvernig var spáð? Gekk sú spá eftir?

Kristín Hermannsdóttir 19.9.2012

Um veðurspár

Veðurstofa Íslands gefur út veðurspár fyrir sjö komandi daga og eru þær veðurspár uppfærðar og endurskoðaðar tvisvar á sólarhring: fyrir kl. 9 á morgnana og fyrir kl. 21 á kvöldin.

Einnig gefur Veðurstofan út stuttar veðurspár fyrir landið í heild og veðurspá fyrir hvern landshluta fyrir sig og gilda þær spár fyrir næstu 24 til 48 tímana; lengstu spárnar eru í gildi frá kl. 6:30 á morgnana og frá kl. 11 fyrir hádegi.

Nánar má lesa um textaspár og margvíslegar leiðbeiningar með framsetningu spáa á vedur.is.

Þegar við á, eru birtar athugasemdir veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Sá athugasemdagluggi var notaður óspart, bæði áður en og á meðan óveður gekk yfir landið um miðjan september 2012, í því skyni að koma enn frekari upplýsingum til almennings.

Veðurspár þessara sólarhringa

Frá þriðjudegi til laugardags

Þriðjudaginn 4. september var gefin út fyrsta veðurspá fyrir mánudaginn 10. september. Þá leit út fyrir „hvassa norðanátt, rigningu eða slyddu norðan- og austantil, en annars úrkomulítið og kalt í veðri“. Næstu daga á eftir var þessi spá uppfærð og endurskoðuð kvölds og morgna og breyttist ekki ýkja mikið á milli spátíma.

Á miðvikudagskvöld var spáin fyrir mánudag og þriðjudag: „Norðvestan 10-18 m/s, hvassast og rigning eða snjókoma NA-lands... kalt í veðri“. Og á fimmtudagskvöld var spáin: „Norðanátt, 15-23, hvassast norðvestantil. Rigning eða slydda... Hiti 1 til 10 stig, mildast syðst.“ Á laugardagsmorgun var spáin svona fyrir mánudag: „Norðan 15-23. Rigning á láglendi, annars slydda eða snjókoma og þurrt að mestu syðst á landinu. Hiti 1-10 stig, mildast syðst“.

Það er því ljóst að í tæpa viku var þessari köldu norðanátt spáð í fjöldægru, með úrkomu og þó nokkrum vindi.

Á laugardag og sunnudag

Að morgni laugardags kl. 06:30 var gefin út spá fyrir Norðurland eystra sem gilti fram á sunnudag kl. 18: „Norðaustan 3-10, en hvassari á annesjum í fyrramálið. Rigning, en snjókoma eða slydda til fjalla í dag. Vaxandi norðaustanátt og rigning síðdegis á morgun. Hiti 2 til 7 stig að deginum“ (einni gráðu hlýrra en fjöldægran hafði gefið til kynna).

Spáin kl. 11 á laugardag hljómaði líkt, en þar var búist við norðan 13-18 síðdegis á sunnudag og 15-23 á sunnudagskvöld. Um kvöldið kl. 18:30 gerðist það svo að ekki var minnst á úrkomu í spánni, nema dálitla rigningu eða súld við ströndina. En áfram var spáð sama hvassa vindinum. Og spárnar sem gefnar voru út kl. 22 á laugardagskvöld hljómuðu á sama veg, svo og spáin kl. 06:30 á sunnudagsmorgun.

Kl. 11 á sunnudag var gefin út spá sem gilti fyrir allan sunnudaginn og fram til miðnættis á mánudag (næstu 48 tímana). Hún hljómaði svona fyrir Norðurland eystra: „Vaxandi norðaustanátt og rigning á láglendi, en slydda eða snjókoma til fjalla. Norðaustan 13-18 síðdegis, en norðan 15-23 í kvöld. Bætir heldur í úrkomu um tíma í fyrramálið. Hiti 2 til 7 stig.“ Kl.18:30 á sunnudag var farið að spá talsverðri rigningu á láglendi en slyddu eða snjókomu til fjalla á Norðurlandi eystra. Eins var því spáð að draga myndi úr úrkomu seint á mánudeginum.

Á laugardagsmorgun kl. 06:35 var textinn í athugasemdaglugga á vef Veðurstofunnar svohljóðandi: „Búast má við vonskuveðri með rigningu og jafnvel slyddu eða snjókomu til fjalla, einkum NV-til á landinu á morgun.“ Og kl. 15:21 á laugardag var bætt við „ ...og um allt land seint annað kvöld“.

Athugasemdinni var svo breytt á sunnudagsmorgun kl. 9:46: „Búast má við norðaustan hvassviðri og síðan stormi, fyrst NV-til í dag en um allt land seint í kvöld og á morgun. Þá má gera ráð fyrir mjög hvössum vindhviðum við fjöll, einkum á S-helmingi landsins.“

Eftir það var athugasemdaglugginn einungis notaður til að vara við vindi og vindhviðum, þar til veðrið gekk niður aðfaranótt miðvikudags, 12. september, á Suðausturlandi. Ekki var minnst þar á rigningu eða snjókomu nema um tíma á laugardagsmorgun og þá var úrkomunni spáð á Norðvesturlandi.

Um staðaspár og textaspár á vedur.is

Staðaspár sem birtar eru á vef Veðurstofu Íslands (vedur.is) sýndu ekki hversu slæmt veðrið yrði. Þær eru og verða punktspár sem nota má sem vísbendingu um hvernig veður er að þróast, en þær ná sjaldnast örum veðrabreytingum og veðri á stórum svæðum. Eins eru staðaspárnar teknar sjálfvirkt beint úr spálíkani.

Því er rétt að taka það fram enn og aftur að ef misræmi er á sjálfvirkri staðaspá og textaspá þá er það textaspáin sem gildir.

Veðurspár í öðrum fjölmiðlum þessa daga

Veðurfræðingur sem fór með veðurspá sína í sjónvarp á laugardagskvöld sýndi eftirfarandi kort fyrir mánudag. Í spjalli við fréttamann í fréttatímanum sama kvöld sagði hann að það hvessti á sunnudag og að veðrið yrði enn verra á mánudag.

Mynd 1
Mynd 1. Kort sem veðurfræðingur sýndi í sjónvarpi á laugardagskvöld fyrir mánudag.

Sagt var með þessu korti: „Á mánudag dýpkar lægðin enn frekar og það verður sennilega bara stormur um nánast allt land og heldur kólnandi, þannig að það má reikna með að það verði hríðarveður um mest allt norðanvert landið. Allra vestast fer þó heldur að stytta upp og það verður mjög hvasst í þessu, sérstaklega suður af Vatnajökli“.

Í fréttatíma sjónvarpsins á sunnudag var sagt frá vondu veðri framundan og veðurfræðingur kvöldsins sagði í spjalli sínu við fréttamann frá því að „það yrði ansi hvasst um allt land meginpart dags á morgun og vindhviður gætu farið yfir 30 m/s víða við fjöll, bæði á suðvestanverðu landinu og öllu Suðurlandi, og fyrir sunnan Vatnajökul er reiknað með hviðum yfir 40 m/s. Og það verður talsverð úrkoma með þessu á norðausturhluta landsins.“ Rætt var um að þetta væri frekar snemmt og óvenjulegt og að það myndi kólna með þessu veðri.

Veðurfræðingurinn sem var með veðurspána í sjónvarpi á sunnudagskvöld sýndi kort fyrir miðnættið og einnig kort fyrir mánudaginn.

Mynd 2
Mynd 2. Kort sýnt í sjónvarpi á sunnudagskvöld sem gilti fyrir miðnættið.

Það sem sagt var með miðnæturkortinu var: „Í kvöld og nótt verður vaxandi norðlæg átt á landinu. Um og eftir miðnætti má búast við að vindhraði verði kominn í 15-23 m/s um mest allt land. Það er útlit fyrir að það verði rigning um allt norðanvert landið, en slydda til fjalla norðaustantil og talsverð úrkoma þar mestanpart nætur.... og hitinn verður svona frá tveimur og upp í átta stig.“

Mynd 3
Mynd 3. Kort sýnt í sjónvarpi á sunnudagskvöld sem gilti fyrir mánudaginn.

Kortinu fyrir mánudag fylgdi: „Á morgun er reiknað með að það verði norðlæg átt hjá okkur áfram, yfirleitt 15-23 m/s í meðalvindi, en ívið hvassara í hviðum um mestallt land, hviður sunnan fjalla um 30m/s, en suðaustanlands í um 40 m/s eða meira. Það er áfram reiknað með rigningu eða slyddu um allt norðanvert landið og slydda þá inn til landsins norðaustantil.... hiti frá tveimur og upp í átta eða jafnvel tíu stig, hlýjast sunnantil.“

Umfjöllun um veðurspár þessara daga

Þegar upp er staðið var þessu veðri spáð nokkuð vel. Það hafði verið í kortunum í tæpa viku og sagt eins nákvæmlega frá því og hægt var í fjöldægrunni og eins þegar 48 tímar voru í að veðrið væri komið í hámark. Ekki var send út sérstök fréttatilkynning því fjölmiðlar (Ríkisútvarpið og mbl.is) voru búnir að birta fréttir um væntanlegt veður á laugardagskvöldi og eins voru nokkrar fréttir um væntanlegt veður í mörgum fjölmiðlum á sunnudag. Þó var yfirleitt rætt meira um vindinn í umfjöllun fjölmiðla heldur en úrkomuna.

Það sem kom sumum veðurfræðingum helst á óvart í þessu veðri, var að hitinn varð einni til tveimur gráðum kaldari en allflestar spár gerðu ráð fyrir, þannig að sú úrkoma sem féll var meira slydda og snjókoma heldur en rigning og slydda. Eins var spáð talsverðri úrkomu á Norðausturlandi, en þar varð úrkoman umtalsvert meiri en spár gerðu ráð fyrir. Hvað vindinn varðar, var honum mjög vel spáð, en þó mældist meiri meðalvindur en 23 m/s á nokkrum stöðvum, eitthvað sem ekki er óalgengt, en vindhviður voru mjög áþekkar því sem spáð var.

Fyrsta haustlægðin var að þessu sinni óvanalega djúp og köld. Í slíkum tilvikum er mikilvægara en venjulega að veðurupplýsingar komist til skila, þar sem mikilla breytinga á veðri er að vænta.

Ályktanir af þessari reynslu

Starfsmenn Veðurstofu Íslands þurfa núna að skoða hvað hefði mátt fara betur, bæði í spám og upplýsingagjöf. Fara þarf yfir verkferla og viðbragðsáætlanir og nýta lærdóminn frá þessu tilviki til undirbúnings fyrir næsta óvenjulega veður. Því eitt er þó víst; það kemur alltaf nýtt veður.

Samanburð á þessu tilviki og eldri haustveðrum má sjá í umfjöllun Trausta Jónssonar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkur kort sem sýndu spár fyrir mánudaginn (myndir 4 til 9), og líka athuganakort á mánudag (myndir 10 og 11).

Mynd 4
Mynd 4. Kort sem nýtt var við spágerð á sunnudag og sýnir hviður. Litakvarðinn sýnir 10-mínútna meðalvindhraða, örvar vindstefnu, lengd örvanna sýnir einnig vindhraða. Hvítar línur sýna hvar reiknaðar vindhviður eru 25 m/s eða meiri. Hviða er ekki getið séu þær minni en 25 m/s en hvítar línur eru dregnar umhverfis svæði þar sem þær eru yfir þessum mörkum, viðbótar línur eru teiknaðar á 5 m/s hviðuhraðabilum þar fyrir ofan. Tölur á hvítum fleti eru merki á jafnhviðulínum, en tölur á gulum fleti sýna staðbundin hámarkshviðusvæði. Kortið er fengið úr tilraunaveðurlíkaninu Harmonie. Skoða má stærra kort.
Mynd 5
Mynd 5. Kort sem nýtt var við spágerð á sunnudag og sýnir úrkomu. Kortið sýnir 10-mínútna meðalvindhraða og vindátt sem hefðbundnar vindörvar. Litakvarði sýnir úrkomuákefð, mm/klst. Bláu, litlu flekkirnir sýna svæði þar sem gert er ráð fyrir því að úrkomuákefð á spátímanum verði meiri en 10 mm/klst. Svo áköf úrkoma er sjaldgæf á þessu svæði. Kortið er úr tilraunaveður-líkaninu Harmonie. Skoða má stærra kort.
Mynd 6
Mynd 6. Kort sem nýtt var við gerð sjónvarpsveðurspár á sunnudag. Litaðir fletir sýna sex klukkustunda úrkomu (mm). Jafnþrýstilínur eru heildregnar og svartar með 2 hPa bili. Hefðbundnar vindörvar sýna 10 metra vindhraða og vindátt. Jafnhitalínur í 850 hPa eru bláar strikaðar með 2°C bili. Lægðar- og hæðarmiðjur eru sýndar með L og H, en ekki eru þó allar miðjur merktar og oft má sjá ofmerkingar í óreglulegu þrýstisviði yfir fjöllum og jöklum Grænlands. Úrkomufletirnir (grænleitir upp að 10 mm/6 klst) sýna úrkomu síðustu 6 klst. Hér má sjá að úrkomu er spáð meiri en 20 mm/6 klst á stóru svæði norðaustanlands og er það óvenjumikið. Kortið er úr háupplausnarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar (ECMWF). Skoða má stærra kort.
Mynd 7
Mynd 7. Kort sem nýtt var við gerð sjónvarpsveðurspár á sunnudag. Hiti og vindur í 850 hPa fletinum ásamt hæð hans (í dekametrum). Litafletir sýna hita í 850 hPa, jafnhæðarlínur eru svartar og heildregnar, hefðbundnar vindörvar sýna styrk og stefnu vinds. Skoða má stærra kort.
Mynd 8
Mynd 8. Staðaspár fyrir allt landið (tekið úr frétt á RÚV). Reiknað kl. 12 þann 9. september og gilti þessi spá kl. 03 aðfaranótt mánudags.
Mynd 9
Mynd 9. Staðaspár fyrir allt landið (tekið úr frétt á RÚV). Reiknað kl. 00 þann 9.september og gilti þessi spá kl. 12 á mánudaginn.
Mynd 10
Mynd 10. Athuganakort kl. 09 á mánudagsmorgun. Talsverð úrkoma var á Norðurlandi, rigning á láglendi, en slydda og snjókoma til fjalla. Hiti var 0 til 4 stig norðantil, en hlýrra SA og A-til. Skoða má stærra kort og í sérstakri grein má sjá skýringar á táknum.
Mynd 11
Mynd 11. Athuganakort kl. 15 á mánudag. Áfram talsverð úrkoma norðanlands, en meiri slydda á láglendi og kaldara en spáð hafði verið. Enn hvasst um mest allt land, en þó hægur vindur á Austfjörðum og farið að draga úr vindi allra vestast. Skoða má stærra kort og í sérstakri grein má sjá skýringar á táknum.
Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica