Greinar
Yfir Fljótsheiði í átt að Laugum í Reykjadal.

Ísun skýja

Ferlið sést stundum sem úrkomuslæður

Trausti Jónsson 9.1.2015

Ísun er nafn á ferli sem breytir skýjadropum í ískristalla og síðan snjó eða slyddu og getur eytt skýi á skammri stundu.

Vatnsdropar í venjulegu skýi eru smáir og undirkældir en um leið og einhverjir þeirra frjósa  - og ástæður þess geta verið ýmsar - taka þeir til við að aféta dropana.

Með því er átt við að þeir dropar sem frjósa, taka til sín þann raka sem heldur vatnsdropunum við. Þetta gerist vegna þess að mettunarrakaþrýstingur er lægri yfir ís heldur en vatni.

Ískristallarnir vaxa það mikið, eða fara að loða svo margir saman, að þeir falla niður úr skýinu í úrkomuslæðu (virga). Slæðan sést best meðan hún er samsett af snjóflyksum - sem síðan bráðna - en á meðfylgjandi mynd gufa regndroparnir trúlega upp áður en þeir ná til jarðar.

Algengast er að sjá fyrirbrigði sem þetta að kvöldlagi. Þá er það kæling vegna útgeislunar á efra borði skýsins sem eykur líkur á ísmyndun.

Það eru netjuský sem sjást á myndinni (flekkir af altocumulus perlucidus). Upprunasaga móðurskýsins á þessari mynd er ekki þekkt og gæti hún hafa verið á ýmsa vegu. Hér verður ekki giskað á það.

Áttu myndir?

Veðurstofan þiggur gjarna myndaröð frá þeim sem telja sig hafa fest álíka fyrirbæri á mynd. Hægt er að nota vefformin Senda myndir eða Hafa samband eða senda tölvupóst.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica