Greinar

Hlýr september 2006

Einar Sveinbjörnsson 29.11.2006

September 2006

Septembermánuður 2006 var 3,1°C yfir meðallagi í Reykjavík og meðalhitinn var 10,6°C sem er ekki langt frá júlíhitanum eins og hann var á árunum 1961-1990. Þetta kemur fram í veðurfarsyfirliti Veðurstofu Íslands.

Á Akureyri og Höfn í Hornafirði var frávikið frá meðalhita heldur minna. September í Reykjavík var sá hlýjasti í 10 ár. Aðeins þrisvar sinnum áður hefur verið hlýrra í september og hitinn í september 1996 var svipaður hitanum 2006, eða 10,4°C.

Frá Nesjavöllum
Frá Nesjavöllum.
Mynd 1. Frá Nesjavöllum 3. september 1996. Myndin sýnir að enn er sumarlegt um að litast. Ljósmynd: Elvar Ástráðsson.

 

Aftur upp

Yfirlit um aðra septembermánuði

Bestu septembermánuðirnir í Reykjavík frá upphafi mælinga hvað hita varðar eru hins vegar í algjörum sérflokki. Þetta eru árin 1958 með 11,4°C, 1941 með 11,5°C og síðan 1939 með heilar 11,8°C.

Þann septembermánuð var einmunatíð og árgæska til lands og sjávar. Þetta var sömu vikur og Þjóðverjar háðu sitt leifturstríð gegn Pólverjum í upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í Suður-Noregi var septembermánuður 2006 sá hlýjasti frá upphafi mælinga, 1867, og þar voru nokkur dæmi um 4,0 - 4,5°C yfir meðaltalinu.

Á Bretlandseyjum í heild sinni var mánuðurinn einnig sá hlýjasti frá upphafi mælinga, eða 3,1°C yfir meðaltali. Viðmiðun Breta nær aftur til 1914 og næsthlýjasti mánuðurinn var árið 1949, líkt og gamli metmánuðurinn í Noregi.

Í Danmörku var hitametið jafnað, en þar á bæ er minnt á annað nokkuð skemmtilegt, þ.e. aldrei áður í september í 132 ára mælingasögu landsins hefur lægsti mældi hiti í Danmörku verið hærri! Lágmarkshitinn var 4,3°C en í frétt á vef Dönsku veðurstofunnar segir að flest árin hafi náð að frysta einhvers staðar í Danaveldi (Grænland og Færeyjar eru undanskilin) áður en septembermánuður var allur.

Aftur upp

Met slegin erlendis

Danska veðurstofan greindi einnig frá því að ný met hafi verið sett á öllum veðurathugunarstöðvum í Færeyjum. Í Þórshöfn var hitinn 11,5°C sem er 2,4°C yfir meðaltalinu. Gamla metið var 11,1°C. Mælingar í Þórshöfn ná allt aftur til ársins 1890 svo þetta eru nokkrar fréttir.

Það sem meira er að september reynist vera hlýjasti mánuður sumarsins í Færeyjum, þ.e. hlýrri en júlí og ágúst. Þó var hitastigið í báðum mánuðum vel yfir meðaltalinu.

Þessi metmánuður kemur eftir álíka afbrigðilegan júlí 2006 í Vestur-Evrópu. Hitafrávikin voru þá meira bundin við meginlandið en síður úti við Atlantshafið.







Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica