Ský og sérstök fyrirbæri
Regnbogi
Tvöfaldur regnbogi við sólarlag. Smelltu til að stækka.

Regnbogi

Tvöfaldur regnbogi við sólarlag

Guðrún Nína Petersen 1.8.2018

Föstudagskvöldið 27. júlí 2018 rétt um sólarlag mátti sjá myndarlegan regnboga á Suðurlandi, meðal annars í Grímsnesi.

Svo regnbogi sjáist þarf regn að falla í einhverri fjarlægð frá áhorfanda auk þess sem það þarf að vera heiðskírt fyrir ofan og aftan áhorfandann og sólskin skíni bak hans. Regnbogi birtist alltaf andstæðis sólu og miðja hans er í mótsólarpunkti (miðdepli), sem er á sjóndeildarhringi við sólarupprás og sólarlag en annars fyrir neðan hann. Þess vegna er regnboginn því hærri sem sólinn er lægra á lofti.

Nokkuð sjaldgæft er að sjá heilan regnboga þar sem þörf er á fjölda regndropa lágt á lofti auk sólskins. Einfaldir regnbogar mynda hring með um 40° radíus beint undan sólu frá sjónarhorni áhorfanda fyrir blátt ljós en 42° fyrir rautt ljós, þ.e. innsta og ysta lit regnbogans. Þetta er útskýrt á myndinni hér til vinstri frá kollegum okkar á bresku veðurstofunni. Litirnir í ytri boga tvöfalds regnboga eru aftur á móti í öfugri röð, þ.e. rautt ljós innst og blátt yst, en þar á sér stað tvöfalt ljósbrot. Ytri regnboginn er um 50° frá sjónarhorni áhorfanda og er ávallt óskýrari en sá innri. Á milli regnboganna tveggja er himinninn áberandi dekkri. Þetta er vegna röðunar litanna í regnbogunum tveimur, innri regnboginn lýsir upp himinninn fyrir innan sig en sá ytri fyrir utan sig. Regndroparnir á svæðinu milli þeirra senda aftur á móti ekkert ljós til áhorfanda. Frekari útskýringar á regnboga má finna í fróðleiksgrein um speglaða regnboga, á Vísindavefnum og á vefsetrinu Atmospheric Optics.

Regnboginn sem birtist á himni á Suðurlandi föstudagskvöldið 27. júlí 2018 var óvenju fagur ekki síst eins og hann birtist áhorfendum í Arnarbæli í Grímsnesi. Myndin er tekin kl. 22:26 en sólsetur var á þessum slóðum um 22:33. Í fyrsta lagi var sól það lágt á lofti að miðdepill regnbogans var nær á sjóndeildarhring svo regnboginn náði hátt á himinn, í öðru lagi var um tvöfaldan regnboga að ræða og í þriðja lagi litaði sólarlagið himininn rósrauðan.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica