Greinar
Hafís á Bitrufirði 1968
Hafís á Bitrufirði á útmánuðum 1968.

Hugleiðingar um bakgrunn kuldanna 1918

Gætu þeir endurtekið sig?

Trausti Jónsson 22.1.2008

Í janúar 1918 gerði eitt mesta kuldakast sem vitað er um frá því að samfelldar veðurmælingar hófust hér á landi fyrir um 200 árum. Um það hefur verið fjallað í tveimur fróðleikspistlum um kuldametin sjálf, Íslandsmetið og Reykjavíkurmetið. Hér verður það ekki endurtekið en þess í stað verða dregin fram nokkur atriði um bakgrunn kuldanna.

Tuttugasta öldin var í heild mun hlýrri hér á landi heldur en sú nítjánda. Það á einnig við um heiminn í heild. Ástæður þess eru væntanlega nokkrar, en tvær eru gjarnan taldar helstar. Annars vegar er talið að sólgeislun hafi verið ívið minni en síðar og hins vegar er talið að skóg- og landeyðing af manna völdum hafi aukið endurskinshlutfall jarðarinnar lítillega miðað við fyrri aldir þannig að sólgeislunin hafi nýst verr en ella. Þótt mannrænu áhrifin hafi verið mest á þeim svæðum þar sem umsvif mannsins voru mest náðu kælingaráhrifin að dreifast meira. Á norðurhvelsvísu munar þó ekki nema um 0,3 til 0,4°C á öldunum tveimur, en á Íslandi virðist munurinn hafa verið um 0,8°C þegar litið er á árið í heild. Um fleiri hugsanlega breytingarvalda veðurfars í heiminum er fjallað í pistli um loftslagsbreytingar.

Þegar litið er á árstíðasveiflu aldamunarins kemur í ljós að hann er mestur á vetrum hér á landi, talsverður vor og haust, en minnstur að sumarlagi. Þetta leiðir hugann að því að Ísland er eyja og nýtur því þess varma á vetrum sem hafið geymir frá næstliðnu sumri. Sé hafís hins vegar mikill við strendur landsins hættir landið að vera eyja en telst fremur skagi út úr miklu ísameginlandi norðurslóða þar sem varmi sjávar nýtist nánast ekki blási vindur úr norðri.

Þó að ís hafi oft verið mikill hér við land á 19. öld var ómildað íshafsástand ekki ríkjandi í mörgum mánuðum. Oftar náði hafið að milda veðurlagið að einhverju marki, bæði vegna þess að ísinn var sjaldnast alveg samfelldur eða þá að vindur stóð ekki sífellt úr norðri. Mikilla ísáhrifa gætti hér síðast vetur og vor 1979, en þau hafa ekki lagst á landið af fullum vetrarþunga síðan í janúar 1918 og þá var nokkuð um liðið síðan það hafði gert síðast.

Í svokallaðri mælitölu Vinjes má sjá að árin 1917 og 1918 skera sig nokkuð úr hvað ísmagn varðar. Á árinu 1917 náði ísútbreiðsla í Barentshafi 1,5 milljón ferkílómetrum, því mesta frá 1881 og útbreiðsla Austur-Grænlandsíssins var þá í 900 þúsund ferkílómetrum og 1918 náði síðarnefndi ísinn milljón ferkílómetrum. Það var það mesta frá 1896. Hvorug Vinjetalan hefur orðið jafnhá síðan, A-Grænlandstalan komst þó nærri því eins hátt 1969 og árið 1942 vantaði Barentshafstöluna rúmlega hundrað þúsund ferkílómetra upp á töluna 1917, en hefur ekki orðið meiri síðan. Af þessu má sjá hversu óvenjulegt ástandið hefur verið.
Aftur upp

Ársmeðalþrýstingur á Suðvesturlandi 1823 til 2007
súlurit
Mynd 2. Ársmeðalþrýstingur á Suðvesturlandi. Súlurnar sýna þrýsting við sjávarmál eftir að 1000 hPa hafa verið dregin frá, 6 er því = 1006 hPa o.s.frv. Tímaröðin er mjög suðkennd og skiptast á háþrýsti- og lágþrýstiár í óreglulegu og, að því er virðist, tilviljanakenndu mynstri. Örvarnar benda á ár þegar þrýstingur var sérlega hár. Árin 1915 og 1917 skera sig mjög frá á tímabili þegar þrýstingur var almennt mjög lágur. Óvenjulegir þurrkar voru þá hér á landi. Svo virðist sem háþrýstingur við Ísland ýti undir ísútbreiðslu í norðurhöfum.


En hvers vegna var svona mikið af ís 1917 og 1918? Því er ekki auðsvarað, en sé litið á mynd sem sýnir árlegan loftþrýsting á Íslandi frá 1823 til okkar daga má sjá að árin 1915 og 1917 var þrýstingurinn með allra hæsta móti, árið 1915 sá hæsti frá 1878, en litlu lægri 1917. Síðan var hann nærri því eins hár 1941, 1965, 1968 og 1985. Háþrýstitímabilið frá 1915 til 1919 er einnig sérstakt að því leyti að það kom eins og skamvinnt afbrigði inn í mitt tímabil þegar þrýstingur var almennt lágur (frá 1903 og fram á miðjan þriðja áratuginn).

Auðvelt er að ímynda sér að ísaárið 1881 og árin þar á eftir hafi fylgt þrýstihámarkinu 1878, ísinn 1917 til 1918 þrýstihámarkinu á árunum 1915 til 1917 og ísárin 1965 til 1971 hámarkinu á árunum 1963 til 1968. Árin 1941 til 1942 voru víða köldustu ár 20. aldar um norðanverða Evrópu en hér var þá hlýtt. En sé vel að gáð var einmitt íshámark við Ísland á árunum 1943 til 1944 og sömuleiðis var Vinjetala vorsins 1986 sú hæsta eftir 1969, rétt yfir 1979 þótt ís væri lítill við Ísland.
Aftur upp

Þessar staðreyndir benda til þess að langvinnur háþrýstingur á Íslandi ýti undir ísmyndun í norðurhöfum, ekki aðeins við Austur-Grænland, heldur einnig í Barentshafi.

En þó þetta samband virðist vera fyrir hendi ræður það ekki eitt og sér, mun meiri ís var á 19. öld heldur en við sama loftþrýstifrávik á þeirri 20. E.t.v. má draga þá ályktun að ís sé meiri á norðurslóðum þegar kalt er á norðurhveli, hvað sem þrýstingi við Ísland líður.

En hér hafa verið leiddar líkur að því að janúar 1918 hafi frekar verið þáttur í nokkurra ára langri atburðakeðju fremur en einstakur, afbrigðilegur mánuður. Verði ámóta atburðakeðja nú myndi hún sennilega ná því að koma ís og kulda til landsins, en trúlega þyrfti enn lengri undirbúning til að búa til ámóta ísmagn og var fyrir hendi haustið 1917. Ástæða þess er að nú er ísarýrð í norðurhöfum. Langvinn frost, eins og gerði í janúar 1918, eru því ólíklegri nú heldur en áður.

En ísakaflanum 1918 lauk mjög snögglega. Í janúar leit jafnvel út fyrir að ísinn myndi ráðast vestur með Suðurlandi eins og gerðist stundum á 19. öld (og síðast 1902), en í febrúar skipti mjög um veðurlag. Þá voru tíðir austan- og suðaustanstormar sem hröktu ísinn ótrúlega hratt frá landinu, þjöppuðu honum saman og ís var með meira móti við SV-Grænland næstu ár á eftir.

Þó að jafnkaldur mánuður og 1918 sé ekki við sjónarrönd getur frost einstaka daga orðið mjög mikið á okkar tímum. Veðurstöðvum sem mæla hita hefur fjölgað mjög á síðari árum og það eitt og sér eykur líkur á metum af ýmsu tagi. En þó að frosti tækist e.t.v. að stinga sér niður í 38 stig myndi slíkt ástand standa mjög stutt og þess ekki gæta af sama afli og 1918.
Aftur upp





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica