Greinar
úrkomukort af Íslandi
Dæmi um úrkomukort byggt á grunni stafrænna upplýsinga. Sjá hlekk í meginmáli á kort í betri gæðum.

Úrkomukort í hárri upplausn

Philippe Crochet 24.1.2009

Allt frá árinu 2004 hafa sérfræðingar Veðurstofunnar unnið að gerð stafrænna úrkomukorta, sem gefa mun nákvæmari upplýsingar um úrkomu á Íslandi en áður. Verkefnið hefur vakið athygli víða út fyrir landsteina Íslands og nota Norðmenn nú sömu aðferðafræði og verklag til rannsókna á jöklum þarlendis.

Verkefnið hefur falist í að auka þekkingu á dreifingu úrkomu í tíma og rúmi sem nauðsynleg er fyrir ýmsa fræðilega og hagnýta veður-, vatna- og jöklafræðilega útreikninga.

Lítið hefur verið vitað um dreifingu úrkomu til fjalla vegna þess að úrkoma hefur einkum verið mæld á láglendi. Úrkoma á vatnasviðum til fjalla er oft metin út frá fjarlægum úrkomumælingum sem geta verið ónákvæmar, t.d. vegna vinds.

Nú hefur úrkoma á Íslandi verið reiknuð með eðlisfræðilegu líkani sem líkir eftir helstu þáttum sem áhrif hafa á úrkomu í flóknu landslagi. Líkanið er nægilega einfalt til þess að unnt er að keyra það með 1 kílómetra upplausn sem dugar til þess að fram koma mikilvægustu fjallgarðar og annað landslag sem áhrif hefur á úrkomu.

Afraksturinn er nákvæmustu upplýsingar um úrkomudreifingu yfir Íslandi sem tiltækar eru. Þær nýtast fyrir margs konar verkefni, meðal annars innan vatnafræði og vatnafarsrannsókna.

Úrkomugögn fyrir hvern mánuð fyrir tímabilið frá 1958 til 2006 eru aðgengileg almenningi og sérfræðingum á vef Veðurstofunnar. Þau eru talin af svipuðum gæðum fyrir allt tímabilið. Samanburður hefur verið gerður við úrkomumælingar frá veðurstöðvum frá öllu landinu og við afkomumælingar á Vatnajökli, Hofsjökli og Langjökli í samvinnuverkefni Veðurstofunnar, Vatnamælinga og Háskóla Íslands.

Gögnin eru stafræn kort með hárri upplausn. Kortin sýna meðalúrkomu á tímabilinu 1971 - 2000. Myndir sýna kort af meðalúrkomu mánaða auk meðalúrkomu ársins. Eldra viðmiðunartímabil er 1961 - 1990 og kort frá því tímabili má velja úr lista til vinstri á sömu vefsíðu. Öll gögn og skýrslur tengdar úrkomukortunum má finna á vef Veðurstofunnar.

Þrjátíu ára meðalúrkomu má fá á PDF-formi (2,8 Mb). Hvert stafrænt kort má einnig nálgast í meiri gæðum (EPS 2,1 Mb) en í skýrslunni eða beint á vefnum.

Frávikakort má skoða áratugi aftur í tímann. Þau sýna vik frá meðalúrkomu mánaðarins á viðmiðunartímabilinu, nánar tiltekið hlutfall úrkomu mánaðarins (%) af meðalúrkomu 1971 - 2000 (línur eru dregnar fyrir hver 20%). Sem dæmi má nefna að í nóvember 2000 var úrkoma yfir meðallagi (>150%) á Norðausturlandi en langt undir meðallagi (<50%) á Suðvesturlandi.

Nánari upplýsingar (á ensku) má fá um verkefnið, svo sem mánaðargögnin og ýmis fleiri gögn því tengd.

Skilmálar gilda um notkun gagna á vefsíðum Veðurstofu Íslands. Tengiliðir sem veita frekari upplýsingar um þetta verk eru Philippe Crochet og Tómas Jóhannesson. Gögnin skal vitna í á eftirfarandi hátt:

Crochet, P., T. Jóhannesson, T. Jónsson, O. Sigurðsson, H. Björnsson, F. Pálsson and I. Barstad (2007): Estimating the spatial distribution of precipitation in Iceland using a linear model of orographic precipitation. J. of Hydrometeorol., Vol. 8 (6), 1285-1306.





Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica