Greinar
Skipið Knorr
Rannsóknaskipið Knorr.

Sumarþing 2009 - ágrip erinda

Veðurfræðifélagið

Trausti Jónsson 28.5.2009

Allir eru velkomnir á fræðaþing og fræðafundi Veðurfræðifélagins.


Eftirfarandi eru ágrip erinda á sumarþingi sem haldið var 3. júní 2009 í Víðgelmi í Orkugarði.

Dreifing og ákefð úrkomu eftir vindáttum

Trausti Jónsson
Fjallað er um hlut vindátta í úrkomu á landinu í heild sem og á einstökum veðurstöðvum. Allir vita að einkum rignir norðaustanlands í norðlægum vindáttum, en hversu stór hluti úrkomunnar þar fellur í norðlægum áttum? Á hvaða veðurstöðvum er hlutur einstakra norðlægra átta í heildarúrkomunni stærstur? Hvaða svæði um landið sunnanvert á sunnanáttarhámarkið? Hvaða svæði á suðaustanáttahámarkið? Einnig verður lítillega minnst á áttadreifingu úrkomu á sjálfvirkum stöðvum. Þar er upplausn í tíma og vindátt svo góð að greina má að þá staði þar sem hámarksúrkomuhlutur og ákefðarhámörk fara ekki saman.

Weather Conditions Associated with Major Avalanche Cycles in the Westfjords

Nikolai Nawri
Avalanches continue to be the most deadly natural phenomenon in Iceland. During the winter months, they also cause frequent damage to buildings and infrastructure, including roads, and may therefore temporarily cut off access to certain communities. In this presentation, based on ERA-40 reanalysis data, I will present a characterisation of weather conditions associated with major avalanche cycles in the Westfjords of Iceland during the past 50 years. Within a given Fjord, I will be looking at the different wind conditions associated with avalanches from different slopes. I will then take a wider look at composite atmospheric fields over the North Atlantic region during major avalanches, as well as deviations of these mean fields from the non-avalanche climatology. Finally, I will discuss 5-day histories of surface atmospheric conditions leading up to major avalanches, compared with those associated with small avalanches.

Áhrif ríkjandi vindáttar á virkni snjóflóðafarvega við Skutulsfjörð
Snjóflóðaveður á Vestfjörðum - skýringarmynd
Súluritið sýnir vindstefnu í gráðum (360°=norður, 90°=austur o.s.frv.). Tíðni snjóflóða í ríkjandi vindáttum, blá ör, bendir á Eyrarhlíð þar sem snjóflóð falla helst í norðnorðaustlægum vindáttum (kringum 30° - á súluritinu). Rauða örin vísar á Kubba, en sú græna á Kirkjubólshlíð (Nikolai Nawri).

Veðurrútun skipa: Grunnhugmyndir

Björn Sævar Einarsson
Með batnandi veðurspám og hækkandi olíuverði hefur áhugi skipafélaga á að sigla eftir veðri og notkun þeirra á sérsniðinni veðurþjónustu stóraukist.
Grundvallarhugmyndafræði veðurrútunar verður kynnt, einkum siglingar milli heimsálfa, til dæmis milli Evrópu og Ameríku.

Ísmyndun á Þingvallavatni

Einar Sveinbjörnsson
Þingvallavatn er vatnsmikið og djúpt og leggur yfirleitt ekki fyrr en í janúar. Ísinn helst á vatninu í nokkrar vikur, stundum fram í apríl. Frá aldamótum hefur það hins vegar gerst í tvígang að vatnið hefur alls ekki lagt, en fá dæmi eru um að Þingvallavatn nái ekki að kólna nægjanlega til þess að það leggi um tíma. Það gerðist þó í tvígang snemma á hlýskeiðinu sem hófst upp úr 1920. Ráðandi þættir fyrir ísmyndun eru annars vegar hraði kólnunar vatnsins síðla hausts og hins vegar hvort í kjölfarið geri nægjanlegar frosthörkur í stilltu veðri. Ísinn hefur áhrif á frumframleiðslu vistkerfisins þegar vorar. Velt er vöngum um hvað verði um Þingvallaísa á komandi áratugum.

Breytingar á sporði Sólheimajökuls
Sólheimajökull
Sporður Sólheimajökuls haustið 1997 og haustið 2006. Jökullinn hefur hopað um 500 m á þessu tímabili og þynning hans á þessum stað er áætluð rúmir 100 m. Rauðlituðu línurnar á neðri myndinni sýna yfirborð jökultungunnar árin 1997, 2000 og 2003 (Oddur Sigurðsson).

Líklegar breytingar á árstíðasveiflu lofthita á nýhafinni öld

Halldór Björnsson
Ljóst er að ef ekki verður dregið stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda mun hnattræn hlýnun halda áfram næstu áratugi eða jafnvel lengur. Flest loftslagslíkön spá því að vetrarhlýnun verði meiri en sumarhlýnun, a.m.k. á norðlægum slóðum. Þó virðist vera kerfisbundinn munur á niðurstöðum stórkvarðalíkana (GCM) og svæðisbundinna líkana (RCM), en í sumum þeirra síðarnefndu er vetrarhlýnunin mjög mismikil eftir mánuðum. Rætt verður um líklegar breytingar á árstíðasveiflu eins og hún birtist í GCM líkönum þeim sem notuð voru fyrir fjórðu úttekt milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna, og breytingar eins og þær birtast í RCM líkönum ENSEMBLES rannsóknaverkefnisins. Sérstaklega verður hugað að áhrifum hafíss á breytingar á vetrarhita.

Rannsóknasiglingar á Grænlandssundi í október 2008

Guðrún Nína Petersen
Í október síðastliðnum var bandaríska rannsóknaskipið Knorr R/V við rannsóknir á Grænlandssundi. Árið áður hafði Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunarinnar, farið um svæðið og lagt út mælingabaujur til að mæla t.d. straumhraða, hita og seltu í sjónum, á mismunandi dýpi. Baujurnar eru með akkeri og eiga því ekki að færast úr stað. Mælingarnar eru gerðar reglulega og upplýsingarnar vistaðar í sjálfum baujunum þar til þær eru sóttar aftur. Megintilgangur rannsóknarleiðangursins í október var einmitt að sækja baujurnar auk þess að gera aðrar haffræðilegar mælingar auk veðurathuguna. Hér verður stiklað á stóru um fræðilegan bakgrunn, rannsóknarsiglinguna sjálfa og þær mælingar sem áttu sér stað.

Mæliverkefni

Haraldur Ólafsson
Í erindinu mun verða gefið yfirlit um nokkur helstu mæliverkefni, bæði nýliðnum, yfirstandandi og væntanlegum. Þar má nefna Flóhof, Gfdex, Greenex, Thorpex, Skúr, Esju, Mabla og Golu. Sagt verður stuttlega frá markmiðum og niðurstöðum eftir því sem við á.

Veðurfarslegar álagsforsendur á raflínur

Kristín Hermannsdóttir
Á Íslandi er rafmagn flutt frá framleiðendum til notenda með raflínum. Hérlendis eru um 3000 km af háspennuraflínum og víðast hvar ofanjarðar, þó krafa fólks í þéttbýli sé að rafmagn fari eftir jarðstrengjum. Raflínur ofanjarðar þurfa að standast ákveðið vind- og veðurálag til að slitna ekki á ögurstundu og hafa nokkrir starfsmenn Veðurstofunnar komið að því að meta þetta álag.
Árin 2007 og 2008 var unnið álagsmat á raflínur á Reykjanesi, frá Kröfluvirkjun til Húsavíkur, Blönduvirkjun að Akureyri, Hellisheiðarvirkjun að Þorlákshöfn og Mjólkárvirkjun að Gilsfirði.
Fyrir allar þessar línur var skoðaður sá vindur sem mælst hefur á veðurstöðvum á svæðinu og reynt að meta hvaða vinds má vænta á línuleiðunum út frá þeim mælingum. Farnar voru vettvangsferðir í sumum tilvikum, en í öðrum rýnt í kort, talað við heimamenn og skoðuð bilanasaga raflína sem eru til nú þegar.
Farið verður yfir þær forsendur sem notaðar eru við gerð vindálagsmats og sýndar tillögur á umræddum línuleiðum um viðmiðunargildi fyrir hámarksvind.

HRAS-vindakort 8. maí 2009
Vindakort 8. maí

Norðanhretið 8. maí 2009

Einar Sveinbjörnsson
Föstudaginn 8. maí gerði norðanhríð og lentu ferðamenn í hrakningum á Vatnajökli og leiðbeindi Leifur Örn Svavarsson, starfsmaður VÍ, við björgunarstörf. Samkvæmt frásögn þeirra sem voru á jöklinum var veðurhæð talsvert meiri en spár og spákort höfðu gert ráð fyrir og eins þótti athyglisvert að svo virtist vera sem ferðalangar gengju ofan í óveðrið niður af jöklinun suðaustur af Grímsvötnum. Velt er vöngum yfir nokkrum spám, m.a. HRAS og HIRLAM, í aðdraganda þessa veðurs og eins kenningum þess efnis hvað olli og hví spálíkönin eru ekki að ná vindröstum á jökli eins og þessari.

Fréttnæmir veðuratburðir, árstíðasveifla og langtímabreytingar

Trausti Jónsson
Unnið er að skrá um „fréttnæma“ veðuratburði 1874 til 2008. Árstíðasveifla þeirra flestra hefur áður verið rannsökuð en ekki sameiginlega. Á tímabilinu hafa orðið miklar breytingar á tjónnæmi gagnvart mismunandi atburðaþáttum og einnig hefur aðgengi upplýsinga verið mjög misjafnt á tímabilinu. Þessir tveir þættir eru mjög ráðandi þegar litið er á langtímaþróunina og erfitt er að „leiðrétta(?)“ fyrir þeim nema með skipulagðri leit að atburðum á upplýsingarýrum tímum.

Aðrir tengdir vefirÞetta vefsvæði byggir á Eplica