Greinar

Alþjóðlegi veðurdagurinn 2014

Veður og veðurfar: Virkjum unga fólkið

Veðurstofa Íslands 20.3.2014

Stofnskrá Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, WMO, gekk í gildi 23. mars 1950. Er þess minnst árlega á „alþjóðlega veðurdeginum“, fyrst árið 1960, en núna er yfirskrift hans: Veður og veðurfar: Virkjum unga fólkið. Margvíslegt spennandi kennsluefni má finna á vef stofnunarinnar af þessu tilefni og verkefnasíður frá ýmsum löndum.

Ávarp Michel Jarraud, forstjóra WMO

Sjötti hluti íbúa jarðar er á aldrinum 15 til 24 ára og um 85 hundraðshlutar þessa unga fólks býr í þróunarlöndunum. Í samanburði við þá sem voru á sama aldri fyrir 50 árum býr það við betri heilsu, er betur menntað og býr yfir meiri kunnáttu á mörgum sviðum. Tæknin hefur smogið inn í líf þess og gert þeim kleift að ná mun betra sambandi við heimssamfélagið. Þrátt fyrir þetta þjást margir af fátækt, misrétti og arðráni, marga skortir enn aðgang að menntun, heilsugæslu og annarri grunnþjónustu.

Sú hætta sem felst í veðurfarsbreytingum og hörðum veðrum á þátt í vandanum nú þegar og mun auka hann eftir því sem breytingarnar aukast á næstu áratugum. Loft- og sjávarhiti vex, jöklar í heiminum bráðna, sjávarborð hækkar og harðviðri færist í aukana og styrkjast.

Vafalaust er að athafnir manna hafa áhrif á veðurfar. Styrkur koltvísýrings og annarra gróðurhúsalofttegunda vex sem fyrr og er að verða meiri en nokkru sinni áður í sögu mannkyns. Ef notkun jarðefnaeldsneytis heldur áfram sem nú, eða vex frekar, mun hiti í heiminum verða allt að 4 stigum hærri heldur en var fyrir upphaf iðnbyltingar. Talið er að hægt yrði að halda hitabreytingunni innan tveggja stiga ef gripið væri nú þegar til róttækra ráðstafana sem fælu í sér minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda.

Árangur í þessari viðleitni krefst bæði hugrekkis, snerpu og ákveðni. Unga fólkið getur orðið í fararbroddi í því verkefni. Aðgerðir gegn breytingum á veðurfari felast ekki eingöngu í minnkun á losun, þær taka líka til okkar sjálfra, þeim gildum sem við eigum sameiginlega og hvað við erum viljug að gera. Í unga fólkinu felst mikill auður ferskra hugmynda og innsýnar í vandamálin og hvernig á að leysa þau. Kallað er eftir réttlátum lausnum.

Ungt fólk á þann verkauð sem getur kallað á betri vitund um veðurfarsbreytingar, aðgerðir gegn þeim og aðlögun. En til þess að aflið unga nýtist sem best þarf að kalla það til verka við skilgreiningar á vandanum og ákvarðanatöku gagnvart honum.

Vísindalegri þekkingu á samtengingu lofthjúps, hafs, lands og vatna fleygir fram. Það veldur því að möguleikar á skilningi og framtíðarspám batna. Alþjóðaveðurfræðistofnunin hefur nú þegar þróað verkfæri til að takast á við vandann og í framtíðinni munu þessi verkfæri verða betri, þekking á þeim og notkun þeirra mun dreifast til fleiri og þau verða notuð af fleirum.

Upplýsingar og þjónusta um veðurspár og veðurfar mun styrkja okkur í að takast á við veðurfarsbreytingar og aðlagast þeim auk þess að bæta leiðir til sjálfbærrar nýtingar auðlinda. Þannig verðum við betur í stakk búin til að takast á við storma, flóð og hitabylgjur framtíðar, til að aðstoða bændur við ræktun og uppskeru og til að auka öryggi samgangna á landi, sjó og í lofti. Ungt fólk sem velur sér störf og menntun í veðurfræði, vatnafræði eða almennum veðurfarsvísindum mun leika æ mikilvægara hlutverk í öryggi og velferð síns eigin samfélags og landa.

Veðurfarsbreytingar auka óvissu okkar um framtíðina. Þrátt fyrir óvissuna er það klárt að samfélag okkar ber ekki aðeins ábyrgð á sér sjálfu, hér og nú, heldur ber einnig ábyrgð gagnvart komandi kynslóðum og þeirra þjóðfélögum. Þeir sem eru ungir í dag munu lifa síðari hluta þessarar aldar og ef ekki verða gerðar viðeigandi ráðstafanir munu þeir finna hinar alvarlegu afleiðingar veðurfarsbreytinga á sjálfum sér og sínum.

Þótt vandi framtíðar sé gríðarlegur hafa tækifærin til að snúast gegn honum aldrei verið meiri.

Þýtt og stytt af vef WMO - þar má einnig sjá upptöku af ávarpinu á ensku.

Annað efni

Eldra efni á vef Veðurstofunnar um alþjóðlega veðurdaginn: 2013, 2012, 2011, 2010, 2009, 2008. Hérna undir má sjá dæmi um fjölbreytt verkefni (á ensku) af fyrrgreindum kennsluvef.








Aðrir tengdir vefir



Þetta vefsvæði byggir á Eplica